Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál

Í þessari færslu verður fjallað um IPCC. Þetta geri ég undir yfirskrift þess að vera ekki lærður í þessum fræðum. Þar af leiðandi lít ég á þetta sem lærdómsferli fyrir sjálfan mig. Vonandi geta aðrir einnig haft af þessu einhvern lærdóm. Farið verður yfir helstu hlutverk, verksvið og verklag nefndarinnar.

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC - The Intergovernmental Panel on Climate Change) er nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem eins og nafnið bendir til hefur með loftslagsmál að gera. Hlutverk nefndarinnar er að taka saman tiltækar vísinda-, tækni-, félags- og efnahagslegar upplýsingar er varða þekkingu og rannsóknir á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Nefndin vinnur reglulegar skýrslur (úttektir) um þá vísindalegu þekkingu sem er til staðar um loftslagsbreytingar í heiminum, þær afleiðingar sem þessar breytingar hafa í för með sér og um aðlögun og viðbrögð til að sporna við breytingunum.

Nefndin stundar ekki beinar rannsóknir, hún heldur utan um og skoðar fræðileg gögn (ritrýnd gögn) um loftslagsmál. Þannig heldur nefndin utan um gögnin og miðlar upplýsingunum til þeirra sem ráða stefnumörkun varðandi loftslagsmál heimsins. Það eru fyrst og fremst stjórnmála- og embættismenn sem ráða stefnunni í þessum málum. Það er m.a. þess vegna sem áætlanir og stefnur í loftslagsmálum geta verið lengi að mótast. Það má því kannski segja að pólítíkin geti flækt ákvarðanatökuna.

Nefndin útgefur reglulega matsskýrslur um ástand loftslagsmála. Til dagsins í dag hafa verið gefnar út 4 matsskýrslur, sú síðasta árið 2007. Svo koma einnig ýmsar aðrar skýrslur á milli þess sem matskýrslurnar eru gefnar út, þannig að vinnan stoppar aldrei.

Árið 1990 kom út fyrsta matsskýrslan, 1995 sú næsta, árið 2001 sú þriðja og svo 2007 sú fjórða. Von er á fimmtu matsskýrslunni árið 2014. Það er hægt að segja að með hverri skýrslu hafi tónninn verið skerptur gagnvart þeim vanda sem um er að ræða. Þar að auki hefur vísindalegum rannsóknum fjölgað jafnt og þétt og þ.a.l. þarf að leggja mikla vinnu í þetta mat. Að fjórðu matsskýrslunni vann fjöldi fólks frá 130 löndum. Meðal þessa fólks voru yfir 2500 ritdómarar með bakgrunn sem sérfræðingar á sviði vísinda, um 800 sem tóku þátt í að skrifunum að einhverju leiti sem og 450 sem leiddu skrif skýrslunnar.

Undir þessari nefnd vinna margir hópar og aðilar að því að halda utan um þá þekkingu sem til er um þessi mál í heiminum. Formaður nefndarinnar er Rajendra K. Pachaur. Hann er m.a. með PhD. gráður í verkfræði og í viðskiptafræði. Undir nefndina heyra m.a. 3 svokallaðir vinnuhópar (WG). Sem kallaðir eru vinnuhópar 1, 2 og 3. Svið þessara hópa er ólíkt og eru margir sem koma að vinnu þeirri sem fram fer í þeim. 

Vinnusvið vinnuhóps 1 er að halda utan um þá vísindalegu þekkingu sem til er varðandi veðurfar og loftslagsbreytingar. Vinna þessa hóps er kannski mest kunn, þar sem hún hefur fengið mikla umfjöllun. 

Vinnuhópur 2 hefur það verksvið að leggja mat á tjónnæmi félags-, náttúru- og efnahaglegra kerfa með það fyrir augum að kanna afleiðingar loftlagsbreytinga (bæði jákvæðar og neikvæðar) og kanna aðlögun þessar þátta við loftslagsbreytingar.

Þriðji vinnuhópurinn hefur það verksvið að leggja mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðrar leiðir til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Í næstu færslu hef ég hugsað mér að skrifa meira um vinnuhóp 3. Þar verður komið meira inná niðurstöður hópsins. Þar sem komið er inná hvernig hugsanelg er hægt að draga úr loftslagsbreytingum og hver hugsanlegur kostnaður geti orðið við það. Ég auglýsi hérmeð eftir íslenska orðinu fyrir enska orðið mitigation eins og það er notað í skýrslu vinnuhóps 3. Ef einhver skildi þekkja það væri það vel þegið.

Helstu heimildir við þessa færslu:

Veðurstofan

Heimasíða IPCC

Wikipedia


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Hafðu þökk fyrir þetta og mér líst vel á að þú fræðir okkur um vinnuhóp þrjú. Þar er efni sem er eflaust langflestum íslendingum á huldu, meðal annars mér.   

Já hvert er íslenska orðið fyrir mitigation. Eru það ekki aðgerðir til að reyna að koma í veg fyrir eitthvað? Það hlýtur að vera til almennilegt íslenskt orð yfir þetta. Varnaraðgerðir?

Loftslag.is, 29.5.2009 kl. 08:59

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta hljómar sem líkleg þýðing. Takk fyrir

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.5.2009 kl. 12:38

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Hver sá sem vill kynna sér til hlítar, eða eins og hægt er, loftslagsmál jarðarinnar á hrós skilið. Kaflinn að ofan er einnig vel skrifaður, þú átt hrós skilið fyrir það. Ég vona að þú kynnir þér málin frá öllum hliðum, ekki aðeins frá sjónarhóli IPCC, þeirra sýn er æði þröng. Þessi mikla stofnun er nefnilega stofnuð til að "sanna að mðaurinn sé með gjörðum sínum að auka hlýnun á jörðinni" og öll störf IPCC litast af þessu stefnumiði. Það er laukrétt að IPCC stundar engar sjálfstæðar rrannsóknir enda eru fjölmargar virtar vísindastofnanir, þar af fjölmargir háskólar, með rannsóknir á þessu sviði. En vegna fyrrnefnds stefnumiðs hefur IPCC því miður útilokað alla vísindamenn og niðurstöður þeirra ef þær falla ekki að því eða leggja til sönnun fyrir því að maðurinn sé að spilla loftslaginu með kolefnisbruna og þaðan komi aukið magn koltvísýrings CO2 í andrúmslofið. Þess vegna skora ég eindregið á þig að vera víðsýnn í þinni könnun og upplýsingaöflun, fara  sem víðast, hlusta á sem flesta og vega og meta allt sem þú heyrir og sérð. Þú bendir á nokkra tengla sem þú hefur farið inn á og ekki skaltu hika við að nota þá. Ég gæti einng bent á DMI (Danmarks Meterologiska Institute) þeir eru vissulega hallir undir IPCC en þar er margt fróðlegt að heyra og sjá. Ég vona að þú lítir inn til mín, <siggigretar.blog.is> vil þar benda þér á bls. 3 þar sem ég reyni að skýra þessi 3 mikilvægu hugtök, gróðurhúsalofttegundir, gróðurhúsahjálmur of kolsýringur CO2. Gróðurhúsahjálmur er víst mitt nýyrði og táknar það sem á ensku er nefnt "greenhauseeffect),. Svo minni ég einnig á <agbjarn.blog.is> þar er mikill fróðleikur samankominn

Sigurður Grétar Guðmundsson, 1.6.2009 kl. 13:57

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir Sigurður. Ég hef og mun skoða þetta út frá öllum hliðum. Ég þekki síðu DMI ágætlega, hef oft skoðað hana í þessu sjónarmiði. Einnig þekki ég síðu Ágústs tiltölulega vel , ég skal kíkja betur á þína síðu á næstu dögum.

Mbk.
Sveinn

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.6.2009 kl. 23:20

5 identicon

Mitigation er yfirleitt þýtt sem "mótvægisaðgerðir" og adaptation sem "aðlögun". Gangi þér vel að kynna þér málin. Flókið viðfangsefni á ferðinni, en mikilvægt.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 18:27

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir ábendinguna Auður. Ég mun breyta þessu við tækifæri.

Sveinn Atli Gunnarsson, 11.6.2009 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband