Aðlögun og viðhorfsbreytingar vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum

Samkvæmt skýrslum IPCC og gögnum vísindamanna í loftslagsmálum, þá hækkar hitastig á jörðinni af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda (m.a. koldíoxíðs) í andrúmsloftið. Ég hef skrifað tvær færslur um vinnuhóp 3 á vegum IPCC (sjá hér og þar), þar sem ég geri grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra. Nú ætla ég að skoða nánar atriði sem mér finnst athyglisverð úr þessari skýrslu.

Fyrst og fremst þá eru helstu niðurstöður skýrslu vinnuhópsins varðandi mótvægisaðgerðir eftirfarandi:

  • Hægt er að ná áþreifanlegum árangri til  minnkunar losunar gróðurhúsalofttegunda og kostnaður við mótvægisaðgerðir virðist vera viðráðanlegur.
  • Allar stærstu losunar þjóðirnar verða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Aðgerðir þurfa að hefjast sem fyrst til að hægt sé að ná árangri til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og þar með koma í veg fyrir að hitastig stígi um of.
  • Mótvægisaðgerðir snúast fyrst og fremst um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, þá aðalega koldíoxíðs.
  • Maðurinn hefur valdið hættulegum loftslagsbreytingum – maðurinn getur lagað það.

Þetta leiðir mig að því sem mig langar að velta upp hér, sem er; hvernig getum við (almennir borgarar) komið að þessu núna? Það sem mér hefur fyrst og fremst fundist vanta, er að upplýsingar, varðandi hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og mikilvægi þess að mótvægisaðgerðir byrji sem fyrst, komist til almennings. En hvað getur fólk gert, gefið að upplýsingar um afleiðingar og mótvægisaðgerðir séu þeim kunnar?

Í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC er talað um það hvernig fjárfestingar næstu ára í ýmsum atvinnugreinum þurfi að taka mið af mótvægisaðgerðum í loftslagmálum. Þ.e. að velja þann fjárfestingarkost og tækni sem tekur tillit til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá því sem nú er. Þetta getur einnig átt við um einstaklinga, þegar neytendur kaupa vörur (eða þjónustu) í dag. Þeir geta hugað að því hvort að vörur séu umhverfisvænar með tilliti til losunar koldíoxíðs. Á Íslandi getur þetta t.d. átt mjög vel við um vörur eins og bíla sem losa koldíoxíð við notkun og vörur sem fluttar eru um langan veg til landsins. Þetta er hluti af því sem kallað er breytingar á lífsstíl og hegðunarmynstri eins og talað er um í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC. Þ.e. þegar breyttur hugsunarháttur leiðir til breyttrar hegðunar og lífsstíls. Fleiri dæmi um hluti sem almennt er hægt að gera ráð fyrir að geti breyst við breyttan hugsunarhátt eru t.d.:

  • Breytingar í hegðun íbúa, menningarleg mynstur og val á staðsetningu heimilis og vinnu.
  • Breytingar í notkun bíla ásamt því að haga keyrslu (vali á bílum) þannig að losun koldíoxíðs verði minni.
  • Skipulag bæjarfélaga og samgangna þannig að almenningssamgöngur hafi meira rými.
  • Hegðun fólks í atvinnulífinu, með tilliti til umhverfisins.

Allar ákvarðanir í samfélaginu eru teknar af einstaklingum sem búa í samfélaginu, þ.a.l. munu breytt viðhorf varðandi þessi mál verða til þess að breytingar munu verða í ákvarðanatöku innan samfélagsins. Það má á sömu lund færa rök fyrir því að breyting á hugsunarhætti geti haft áhrif á val fyrirtækja við fjárfestingu til framtíðar, þar sem valið (sem tekið er af einstaklingum sem vinna innan fyrirtækisins) lendi fremur á fjárfestingarleiðum sem leiði til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.

Þessi breyting getur vart átt sér stað nema að upplýsingar varðandi hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og mikilvægi mótvægisaðgerða komist til skila til sem flestra. Svona breytingar verða ekki gerðar á einni nóttu, en því fyrr sem við förum að huga að þessum málum og skipuleggja framtíðar kaup og atferli út frá þessum forsendum, þeim mun auðveldara verður að ná markmiðunum. Það góða við þessar hugmyndir um breyttan hugsunarhátt er að þær kosta ekki svo mikið þar sem þær leiða fyrst og fremst til breyttra viðhorfa og þar með breytinga í atferli. Sem dæmi getur svona viðhorfsbreyting orðið til þess að eftirspurn eftir vörum breytist (í átt að vörum sem valda minni losun gróðurhúsalofttegunda), sem verður til að framboð af vörum breytist til að anna breyttri eftirspurn almennings.

 


mbl.is Biðlisti eftir Prius
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Orð í tíma töluð, það þarf virkilega að verða víðtæk viðhorfsbreyting - ég held reyndar að fólk sé að átta sig á alvarleika málsins, þetta hlýtur að hafast smám saman.

Loftslag.is, 15.6.2009 kl. 20:58

2 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Já svo sannarlega þarf að verða viðhorfsbreyting. Ég held að ég verði að setja fram nokkrar staðreynir á mínu bloggi svo sem þessar: Meðalhiti á jörðinni er ekki að hækka, hann hefur verið lækkandi frá 2002 og hámarkið var 1998, þrátt fyrir það eykst CO2 í andrúmsloti, hraði aukningar CO2 hefur hefur minnkað. flatarmál íss á í Pólarhafi hefur ekki verið meiri í aprílmanuði í mörg ár en í apríl í ár, þykkt íssins í Pólarhafi var 1 m þykkari við Pólinn í apríl 2009 en apríl 2008, ísbjörnum hefur fjölgað úr 5000 árið 1960 en eru nú á bilinu 22000 - 25000.

Vill einhver mótmæla þessum staðreyndum, ætla menn áfram að kyrja söng IPCC um að meðalhiti jarðar sé á uppleið og að ís á Pólasvæðinu bráðni hratt?

Kem að þessu bráðlega á mínu bloggi.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 22.6.2009 kl. 17:21

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég hlakka til að lesa um þessar staðreyndir hjá þér. En þangað til ég verð sjálfur sannfærður um annað, þá kyrja ég minn söng

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.6.2009 kl. 18:43

4 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Fer ég rangt  með staðreyndir í mínni fyrri athugasemd?

Sigurður Grétar Guðmundsson, 22.6.2009 kl. 23:12

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Nú átt þú eftir að skrifa færsluna, þannig að ég hef ekki forsendur fyrir að vita hvaða staðreyndir þú ætlar að draga þar fram. Ég vona að þú látir tengla og heimildir fylgja með færslunni svo hægt sé að skoða málið nánar. En eins og sést í nýrri færslu hjá mér eru síðustu ár (eftir 2000) öll á topp 10 yfir heitustu ár síðan 1880, hámarkinu var náð 2005 (ekki 1998).

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.6.2009 kl. 23:20

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Samkvæmt fljótlegri athugun hjá mér þá eru ekki mjög góðar heimildir fyrir því að ísbirnir hafi verið 5000 árið 1960. En það má einnig geta þess að þá voru leyfðar veiðar á ísbjörnum, sem voru að mig minnir bannaðar fyrst árið 1973, eftir það braggaðist stofninn eitthvað.

En eins og ég sagði fyrr, þá langar mig að sjá hvaða heimildir þú hefur fyrir þessum staðreyndum þínum...

Sveinn Atli Gunnarsson, 23.6.2009 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband