Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá

Hvað hafa hugtökin raunsæi og hrakspá með loftslagsbreytingar að gera. Jú það er til fólk sem heldur því fram að  stór hluti umræðu um hækkun hitastigs af völdum gróðurhúsalofttegunda sé einhverskonar hrakspá. Þessi hrakspá er að þeirra mati gerð til að sýna fram á að vandamálið sé stærra en það er í raun og gerðar af svokölluðum hrakspámönnum (e. alarmist). Þ.a.l. er ákveðin tilfinning hjá þessum einstaklingum að lausnirnar séu úr samræmi við vandann. Lítum á hvað hrakspá er; Hrakspá er spá um hrakfarir eða illspá um einhverjar ófarir.

En er eitthvað til í því að umfjöllun um loftslagsbreytingar af mannavöldum séu hrakspár án alls raunsæis? Raunsæi er það að vera raunsær og líta á eitthvað eins og það er í raun og veru, hlutlægni í hugsun og athöfnum. Er hægt að tala um raunsæi eða hrakspá um loftslagsmál. Hugsanlega getum við litið á vísindalegar aðferðir og vísindin sjálf í leit að svari.

Vísindamenn beita vísindalegum aðferðum til að fá fram niðurstöður sínar. Þessar aðferðir eru að sjálfsögðu ekki óbrigðular, en þær hafa ýmsa kosti. Vísindalegar aðferðir: "aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum."

Það er því hægt segja að þær niðurstöður sem vísindamenn fá með þessum aðferðum, séu niðurstöður sem hægt er að sannreyna með því að endurtaka rannsóknirnar. Það þýðir að ef það er eitthvað óhreint í pokahorninu þá kemst það upp um síðir. Í ýmsum fræðigreinum er erfiðara að sýna fram á nákvæmar niðurstöður, þ.a.l. nota vísindamenn oft líkindi til að lýsa niðurstöðum. Til dæmis þá hafa vísindamenn í loftslagsmálum komið fram með að "mjög miklar líkur" séu á því að sú hækkun hitastigs sem orðið hefur á síðustu árum og áratugum sé vegna aukningar á styrk gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Þetta orðalag vísindamanna "mjög miklar líkur", er það sama og segja að það séu yfir 90% líkur á að þessu sé svo fyrirkomið. Þetta álykta vísindamenn út frá niðurstöðum sem fengust með því að nota vísindalegar aðferðir.

Þetta er því raunsætt mat vísindamanna á stöðunni út frá þeim upplýsingum sem þeir hafa í dag. Út frá þessu mati er raunhæft að áætla að ef styrkur gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast þá muni hitastigið halda áfram að hækka. Hækkun hitastigs á svo stuttum tíma sem við erum að upplifa núna getur reynt á þolrif ýmissa jarðsvæða og dýrategunda í heiminum. Það er hin hugsanlega framtíðarsýn sem sumar vilja ekki sjá í augu og kalla hrakspá. Þetta kalla ég raunsætt mat á fyrirliggjandi gögnum um loftslagsmál. Aðgerðir verða þ.a.l. að byggjast á því að finna raunsæar lausnir. Það getur verið að það þýði kostnað einhversstaðar til skamms tíma, en er það ekki betra en að gera ekkert og vona hið besta.

Í mínum augum þá benda vísindamenn á vandann og hugsanlegar lausnir. Það er raunsætt, en ef við gerum ekkert í málinu, þá gæti það sem fólk kallar "hrakspá" orðið að veruleika í framtíðinni. Við skulum því ákveða að líta raunsæum augum á vandann og leytast við að finna raunsæar leiðir út úr honum.

Þetta var önnur færslan af þremur sem verður á þessum nótum. Sú fyrsta var færslan Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð. Á næstu dögum fylgir sú þriðja í röðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Það þarf varla að fullyrða að ég er hjartanlega sammála þér.

Góð færsla.

Loftslag.is, 13.8.2009 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband