Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er loftslagsvandinn tabú?

Ég hef verið að velta því fyrir mér að undanförnu hvort umræðan um loftslagsvandann sé tabú. Á Loftslag.is höfum við í ritstjórninni haft þá stefnu að skrifa um það sem vísindin hafa að segja um loftslagsmálin. Þ.e. að koma inn á rökin, rannsóknirnar og fræðin. Viðtökurnar hafa almennt verið góðar. Efninu er raðað í ákveðna flokka, í hliðarstikunni til hægri eru fastar síður þar sem reynt að koma inn á vísindin á bak við fræðin og svo eru fréttir, blogg, gestapistlar og svokallað heitt efni í tenglunum hér að ofan.

Mitt persónulega mat er það, að það séu verulegar líkur á því að gróðurhúsalofttegundir og magn þeirra í lofthjúpnum hafi bein áhrif á hitastig jarðar, það er það sem vísindin segja okkur í dag. Hversu mikið, er ákveðinni óvissu háð, þ.a.l. eru t.d. ekki allar spár um hækkun hitastigs eins. Einnig koma þarna inn náttúrulegar sveiflur jarðar sem hafa áhrif á hitastig jarðar nú eins og alltaf. Þessar náttúrulegu sveiflur hafa þau áhrif að bæði getur hitastig hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir eða jafnvel lækkað tímabundið.

Umræða um þessi mál er frekar undarleg á köflum. Umræðan virðist stundum fara út í skotgrafahernað tveggja öfgasjónarmiða, þ.e. þeirra sem telja að heimurinn sé að farast og þeirra sem ekkert vilja gera. Þarna á milli eru svo mörg litbrigði skoðana. Nú vil ég gjarnan taka það fram að ég tilheyri hvorugum öfgahópnum, en tel vandann vera til staðar og tel að við honum verði að bregðast. Persónulega tel ég að hægt sé, með hjálp tækni og með breyttum viðhorfum, að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef meira þarf til, þá þarf að fara fram pólítísk umræða um hvernig skuli ná þeim markmiðum, sú umræða fer m.a. fram í Kaupmannahöfn í desember, þar sem fulltrúar 192 landa koma saman og ræða málin.

Nú langar mig að fara í smá þankatilraun, þar sem ég bið lesendur um að hugsa sem svo, "Loftslagsvandi af mannavöldum er raunverulegur". Þessi tilraun gengur út á að hugsa sem svo, hvað ef vísindamenn þeir sem rannsaka þessi mál mest hafa rétt fyrir sér? Við þessa tilraun verða til nokkrar spurningar sem vert er að skoða nánar.

  1. Eigum við að hafa áhrif á framtíðina og ræða loftslagsmálin opinskátt?
  2. Er það skylda okkar að finna lausnir?
  3. Hvar viljum við setja markið fyrir því að þetta sé í raunverulegur vandi, er það við 0,5°C eða 2°C hækkun hitastigs, eða einhver önnur tala?
  4. Ef hitastig hækkar lítillega, miðað við einhverjar forsendur, stendur okkur þá á sama?
  5. Hvenær verður vandinn raunverulegur samkvæmt því (3. og 4. spurning)?
  6. Hvað ef það kemur í ljós eftir 50 ár að þetta hafi verið minni vandi en hugsanlega er talið líklegt í dag, ætti sá möguleiki að hafa áhrif á umræðuna í dag, sem ætti að vera út frá bestu fáanlegum upplýsingum dagsins í dag?
  7. Eigum við að ræða hugsanlegar óþægilegar afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum?
  8. Á loftslagsumræða á pólítískum nótum rétt á sér?
  9. Hvernig munu lífskilyrði þróast um allan heim ef við tökum á vandanum?
  10. Ef vandinn er raunverulegur, hversu langt á þá að ganga í því að gera athugasemdir við umfjöllun sem gerir annaðhvort lítið úr vandanum eða telur hann ekki fyrir hendi?

Þetta eru spurningar sem mig langar að biðja ykkur kæru lesendur, að velta fyrir ykkur. Persónulega hef ég ekki ákveðin svör við öllum atriðunum. Röð spurninga er ekki vegna vægis heldur að handahófi. Fróðlegt væri ef lesendur vildu taka þátt í þessari þankatilraun, með því að svara einni eða fleiri spurningum. Þessi mál mega að mínu viti ekki verða að tabú.

---

Þar sem þetta er bloggfærsla af Loftslag.is, þá hef ég ekki opið fyrir athugasemdir hér, heldur er hægt að smella á þennan tengil til að taka þátt í umræðunni.

---

Athugasemdir sem komnar eru, Loftslag.is:

Gulli
Þessi mál eru orðin "tabú" vegna þess að það má ekki efast um þau - flestir eru hættir að nenna að reyna að ræða þau vegna þess að þetta eru eins og trúmál, ef þú ekki fylgir rétttrúnaðarbókinni þá er allt sem þú segir bull, vitleysa og borgað af olíufélögunum.

Á þann hátt eru "málin útrædd" og "engin vafi lengur" - enginn sem ekki er sammála fær að tjá sig án þess að fá yfir sig staðlaða skítkastið um olíufélögin.

Sveinn Atli
Þetta er svo sem einn vinkill málsins Gulli, það er sanngjarnt að nefna hann þó það sé ekki hluti þankatilraunarinnar. Þó má setja spurningamerki við það að blanda trú í vísindi, samanber þessa færslu: http://www.loftslag.is/?page_id=1313

Persónulega finnst mér lítill vafi á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi áhrifa á hitastig, þá er spurningin sem eftir situr um óvissuna í spánum og hvenær teljum við um vanda að ræða. Það er meira hugsunin á bak við þessa færslu.

En við getum bætt við spurningu: 11. Er slæmt fyrir umræðuna að vísindamenn og aðilar eins og t.d. olíufélög og önnur hagsmunasamtök taki þátt í henni og hafi skoðun á málunum?

 


Á ég að kaupa nýjan bíl ?

Í vikunni sem leið fékk ég bréf frá bílaumboði hér í borginni, þar sem sagt var frá því að þeir ætluðu að sýna nýtt módel um helgina. Ekkert við það að athuga í sjálfu sér að þeir vilji auglýsa nýja bílinn sinn. Mér fannst þó skrítið að þeir væru að senda mér sérstakt boð á þessa sýningu. Ég hef ekki, eftir því sem ég kemst næst, skrifað mig á lista hjá þessu umboði, eða öðrum ef út í það er farið, þar sem ég bið um að fá sendar auglýsingar. Svona beinar auglýsingar eru m.a. óleyfilegar í Danmörku, ef ekki liggur fyrir samþykki fólks. En þetta er sjálfsagt leyfilegt, hvernig sem þeir svo finna út úr, hverjum þeir ætla að senda auglýsingarnar. Þessi pési fór svo í ruslið og ætlaði ég ekkert að hugsa frekar um það, enda ekki í neinum bílahugleiðingum. Svo á föstudaginn þá fæ ég bréf/bækling frá bankanum, aftur er það stílað á mig. Í þeim bækling er hvatning, í formi lánsloforðs, til að kaupa mér bíl. Þar kom fram að ég geti hvenær sem er á næstu mánuðum farið inn á næstu bílasölu, -umboð (sem að bankinn er með samning við) með þennan bækling og hann gildir sem lánsloforð fyrir ónefndri (all hárri) upphæð. En ætli ég sitji ekki á mér.

Ég fór að hugleiða, hvort að þetta sé ekki þennslu hvetjandi? Að senda fólki hvatningu til að stofna sjálfum sér í útgjöld? Bankarnir eru með þessum hætti að hafa áhrif á fólk með því að hvetja til kaupa/skuldsetningar sem hefur áhrif á þennsluna í landinu. Þetta eru taldir eðlilegir viðskiptahættir í dag. Það er þó vert að hugleiða hversvegna svo sé. 

Þetta er að sjálfsögðu mikil breyting frá fyrri tímum þegar fólk þurfti að grátbiðja bankastjórann um lán, ekki ber að gráta þá tíma. Þetta setur stærri ábyrgð í hendur fólks, um að vera á varðbergi og vera tilbúið að taka ábyrgð á eigin fjármálum. Það er ekki lengur "elskulegur" bankastjóri sem hefur "vit" fyrir þér. Þar sem að við erum flest meira eða minna skynsamar manneskjur, þá gengur þetta sjálfsagt. Það er þó vert að staldra við og hugleiða þá stefnu sem að við höfum tekið.  


Uwe á-"deilan"

Þetta er skrítið mál allt saman. Það er eins og sumir nái ekki ádeilunni. Það versta þykir mér ef einhverjir samlandar mínir hafi gengið of langt í skrifum sínum til hans vegna málsins. Ég ætla nú ekki að fara að agnúast yfir því að einhverjir móðgist vegna orða hans, þó að mér þyki orð hans ekki á neinn hátt móðgandi. Það að nota Ísland í greininni var eingöngu, að mínu mati, vegna þess að það er svo absúrd að ráðast á Ísland, að það hefði ekki átt að geta móðgað nokkurn mann. En svo lengi lærir, sem lifir. Það hafa einhverjir móðgast, og þá er sjálfsagt mál af honum að biðjast afsökunar. Með því sýnir hann karakter sem ber að virða.  

Ég er einn þeirra sem að bloggaði um fréttina í gær, mér fannst þetta bara skemmtileg grein hjá Uwe. En það sem eftir fylgdi var mjög furðulegt að fylgjast með. Það birtist fólk úr öllum skúmaskotum bloggsins sem átti ekki orð yfir grein hans. Sumt af því sem var skrifað bar, að mér fannst, vitni um að fólk hafi alls ekki lesið greinina. Það komu fram fordómar, sem birtust meðal annars í óhamlausum skrifum hjá nokkrum aðilum. Ég vona að þetta beri ekki vitni um umburðarlyndi okkar. Sem betur fer, held ég að það sé mikill minnihluti fólks sem lætur svona.


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband