Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Myndband um ísinn á Norðurpólnum

Hér er stutt myndband um ísinn á Norðurpólnum. Samkvæmt mælingum síðustu þrjá áratugi hefur ísþekjan á Norðurpólnum smámsaman dregist saman á tímabilinu. Árið 2007 var það ár sem útbreyðsla íssins var minnst eftir bráðnun sumarsins. Útbreyðsla íss það ár var u.þ.b. 25% minni en metið fram að þeim tíma. Vísindamenn telja m.a. að nú sé hlutfall eldri íss minna en áður, nánar má lesa um þessi mál í annarri færslu.


Minnkandi jöklar

Það er ekki bara Snæfellsjökull sem hopar, sbr. frétt á Rúv. Talið er að ef jökullinn haldi áfram að bráðna jafn hratt muni hann verða horfinn fyrir næstu aldamót. Þarna er verið að tala um sömu bráðnun og verið hefur hingað til. 

Chacaltaya jökullinn í Bólivíu hvarf að mestu í ár. Svæðið sem þessi jökull er á, er í fjallasvæði Bólivíu og þarna var framan af fjölsótt skíðasvæði. Skíðasvæðið bauð upp á langar skíðabrekkur í jöklinum sem er í u.þ.b. 5.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Svæðið hefur í nokkur ár verið ónothæft sem skíðasvæði og í ár er jökullinn nánast horfinn. Myndin hérundir sýnir hvernig jökullinn hefur tekið breytingum frá 1940 til 2007. Á níunda áratugnum spáðu bólivískir vísindamenn því að jökullinn myndi bráðna alveg árið 2015, miðað við þá bráðnun sem þá átti sér stað. Það má því segja að jökullinn hafi bráðnað hraðar en þær spár gerðu ráð fyrir. Jökullinn er talinn hafa verið um 18.000 ára gamall.

 Mynd 1 - tekin af vef BBC

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi þróun hefur ekki bara áhrif á skíðafólk, heldur breytir þetta vatnsbúskapi svæðisins. Jöklar hafa þann eiginleika að vera einskonar birgðasafn fyrir vatn. Þegar þeir hverfa þá kemst ójafnvægi í vatnsbúskapinn og það getur haft í för með sér vandræði fyrir þá íbúa svæðisins sem eru háðir vatni af svæðinu. Það eru því margar hliðar sem þarf að skoða þegar um er að ræða svona hraðar breytingar á loftslagi.

Á bloggi Höskuldar Búa er einnig umfjöllun um jökla hitabeltisins sem vert er að kíkja á.

Heimildir:

Frétt BBC um málið
http://solveclimate.com/blog/20090506/bolivias-chacaltaya-glacier-melts-nothing-6-years-early
http://en.cop15.dk/news/view+news?newsid=1831
http://en.wikipedia.org/wiki/Chacaltaya


Loftslagsbreytingar - Spurningar og svör

Í þessari færslu set ég fram nokkrar spurningar varðandi loftslagsbreytingar. Þetta eru svipaðar spurningar og á Q&A síðum varðandi þessi mál. Ég hef valið spurningarnar og reyni að setja fram skýr svör við þeim og kem með hugmyndir að ítarefni við allar spurningar.

Hvað eru gróðurhúsaáhrif?

Gróðurhúsaáhrifin halda hita á jörðinni, þar sem þær gastegundir sem eru í lofthjúpnum "fanga" orku frá sólinni og halda henni við yfirborð jarðar. Án gróðurhúsaáhrifanna myndi meðalhitastig jarðar vera um -18°C. Þannig að í raun halda þau plánetunni okkar lífvænlegri en ella. Helstu gróðurhúsalofttegundir eru m.a. loftraki, koldíoxíð, metan og nituroxíð. Hlutfall koldíoxíðs, metans og nituroxíðs í andrúmsloftinu eykst vegna athafna manna.

Ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/Greenhouse_effect
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-chapter1.pdf (bls. 115)

Hvað eru loftslagsbreytingar?

Loftslag jarðar hefur alla tíð verið breytingum háð. Það hafa komið ísaldir og hlýskeið til skiptis í sögu jarðar. Vísindamenn hafa í dag áhyggjur af því að hin náttúrulega sveifla loftslagsins sé að breytast vegna athafna mannsins. Hér er því helst verið að tala um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þ.e. þær breytingar á loftslagi sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur valdið.

Ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/Climate_change

Eru loftslagbreytingar það sama og hnattræn hlýnun?

Hnattræn hlýnun er sú hlýnun (hækkun á meðalhitastigi í heiminum) sem mæld hefur verið á jörðinni síðan mælingar hófust en þó mest á síðustu áratugum. Hnattræn hlýnun virðist hanga saman við aukningu gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Þ.a.l. er oft talað um hnattræna hlýnun og loftslagsbreytingar af mannavöldum í einu og sama vettvangi.

Ítarefni:
http://ipccinfo.com/wg1report.php

Getur þessi hlýnun jarðar verið vegna náttúrulegra breytinga og/eða hvert er hlutverk mannsins í þessu öllu?

Sumir vísindamenn telja að hnattræn hlýnun sé af völdum breytinga í sólarblettum á sólinni, að hún sé hluti af náttúrulegum sveiflum hlýnunar og kólnunar, eða öðrum þáttum.

Stór hluti vísindamanna sem rannsaka loftslagbreytingar þær sem nú standa yfir, eru sammála um að það sé tiltölulega ólíklegt að sú hækkun sem átt hefur sér stað í lofthjúpnum geti verið skýrð af náttúrulegum orsökum. Þeir telja frekar að hægt sé að rekja hækkun hitastigs til aukins styrks gróðurhúsaloftegunda í lofthjúpnum. Mælingar á yfirborðshita sýna að hitastig jarðar hefur hækkað um u.þ.b. 0,4°C síðan á 8. áratugnum. Vísindamenn telja að þessi breyting sé of mikil til að geta verið skýrð með náttúrulegum orsökum. Hvorki breytingar í styrk sólar, stór eldgos (sem hafa kælandi áhrif) né aðrir náttúrulegir þættir eru taldir hafa nógu mikil áhrif til að útskýra þá hækkun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum. Aðeins aukin styrkur gróðurhúsalofttegunda getur samkvæmt flestum loftslagsvísindamönnum útskýrt þessa hækkun hitastigsins.

Hlutfall koldíoxíðs í lofthjúpnum frá því iðnvæðingin hófst upp úr 1750, er talin vera yfir 34% hærri í dag en hún var þá. Þetta er hærra magn en síðustu 400.000 árin þar á undan. Þessa hækkun er helst hægt að rekja til bruna eldsneytis eins og kolum og olíu sem m.a. hefur verið notað við framleiðslu rafmagns og sem eldsneyti á bíla. Sömu sögu er að segja af hlutfalli metans og nituroxíðs sem hefur hækkað mikið vegna athafna okkar mannanna.

Ítarefni:
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-chapter1.pdf (bls. 100)
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-faqs.pdf (bls. 100)

Hver er aðal gróðurhúsalofttegundin?

Loftraki í andrúmsloftinu hefur mikil áhrif á hitastig. Það er þó talið að það hafi verið jafnvægi í hlutfalli loftraka í andrúmsloftinu í milljónir ára. Koldíoxíð er aðal gróðurhúsalofttegundin sem er losuð vegna athafna mannsins. Hlutfall koldíoxíðs í andrúmsloftinu er mælt í hlutum á hverja milljón (ppm, parts per million). Hlutfallið var 280 ppm fyrir iðnbyltinguna en er nú komið í u.þ.b. 386 ppm. Þegar búið er að bæta áhrifum annarra gróðurhúsalofttegunda eins og t.d. metans, þá er hægt að reikna sig fram að svokölluðum jafngildings áhrifum, sem eru sambærileg við koldíoxíðsáhrifinn (allir þættir lagðir saman), þá eru áhrifin á við um 440 ppm af koldíoxíði í lofthjúpnum.

Ítarefni:
http://www.esrl.noaa.gov/gmd/ccgg/trends/

Er almennt samkomulag á milli vísindamanna um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga?

Meirihluti loftslagsvísindamanna aðhyllast þá kenningu að aukning gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum hafi áhrif til hlýnunar á jörðinni. Hnattræn hlýnun er raunveruleg og því til vitnis þá eru t.d. öll árin eftir 2000 á listanum yfir hlýjustu ár frá því mælingar hófust. Það sem vísindamenn hafa helst rökrætt er hversu stór áhrifin eru. En stór meirihluti vísindamanna sem rannsaka þessi mál eru sammála um að athafnir mannanna séu drífandi afl í þeim breytingum sem hafa orðið á hitastigi jarðar á síðustu áratugum. Þar má sem dæmi nefna vísindamenn hjá World Meteorological Organisation, IPCC og U.S. National Academy of Sciences.

Ítarefni:
http://www.wmo.int/pages/index_en.html
http://www.ipcc.ch/
http://www.nasonline.org/site/PageServer
http://svatli.blog.is/blog/svatli/entry/901635/

Eru til sönnunargögn fyrir hnattrænni hlýnun?

Beinar mælingar á hitastigi eru til frá seinni hluta 19. aldar og þær sýna að meðalhiti jarðar hefur hækkað um ca. 0,6°C á 20. öldinni. Yfirborð sjávar hefur hækkað um á milli 10-20 sm. Sú hækkun er talin vera að mestu leiti vegna hitaþennslu sjávar. Margir jöklar eru að hopa og ísinn á Norðupólnum er að þynnast. Þetta eru frávik sem sjást, en þó eru dæmi um jökla sem skríða fram og svæði á Suðurskautslandinu sem eru að kólna svo dæmi séu tekin. Rannsóknir sýna einnig að tegundir landplantna og dýra (á norðurhveli jarðar) hafa færst um 6,1 km norðar á hverjum áratug og 6,1 m hærra yfir sjávarmál en áður. * Jafnframt hafa árstíðirnar færst um 2,3 - 5,1 dag á hverjum áratug á síðustu 50 árum. * Þessar breytingar eru marktækar og fylgjast í hendur með mældri hitabreytingu á sama tíma.

Ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/Current_sea_level_rise
http://www.nasa.gov/home/hqnews/2009/jul/HQ_09-155_Thin_Sea_Ice.html
http://www.nature.com/climate/2007/0712/full/448550a.html
*
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-faqs.pdf (bls. 103)

Hvað vitum við ekki?

Það er ekki vitað nákvæmlega hversu hátt hlutfall þeirrar hækkunar sem orðið hefur, er hægt að rekja beint til athafna mannsins og hvaða áhrif eru hugsanlega ekki komin fram af hlýnuninni. Nákvæm tengsl á milli hlutfalls koldíoxíðs (og annara gróðurhúsalofttegunda) og hitastigsins er ekki alþekkt. Það er ein ástæða þess að spár um hlýnun eru ekki allar eins.

Hnattræn hlýnun mun væntanlega valda öðrum breytingum sem geta aukið hlýnunina í framtíðinni. Þetta geta verið hlutir eins og t.d. losun metans úr sífreranum ef hann bráðnar. Aðrir þættir gætu hugsanlega haft áhrif til að minnka hlýnunina, þ.e. ef plöntur taka upp meira CO2 úr andrúmsloftinu við hærra hitastig, þess má geta að það ríkir nokkur vafi um þetta atriði. Vísindamenn þekkja ekki til hlítar hið flókna jafnvægi á milli jákvæðra og neikvæðra þátta sem hafa áhrif á hitastigið og nákvæmlega hversu stór þáttur hvers þáttar er.

Ítarefni:
http://news.nationalgeographic.com/news/2008/12/081219-methane-siberia.html

Hvað segir efasemdarfólkið?

Efasemdir efasemdarfólks virðast skiptast í þrjá hópa:

1. Þeir sem vilja meina að hitastig sé ekki stígandi.
2. Þeir sem fallast á að loftslagsbreytingar séu yfirstandandi, en grunar helst náttúrulega breytileika.
3. Þeir sem fallast á loftslagsbreytingar af mannavöldum, en segja að það sé ekki þess virði að gera neitt við þeim og að það séu önnur mikilvægari mál til að berjast við.

Ítarefni:
http://www.skepticalscience.com/

Heimildir:
Q&A síðurnar sem ég notaði að nokkru leiti við vinnslu færslunnar:
http://www.guardian.co.uk/environment/2007/jul/26/climatechange
http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/3928017.stm
http://www.worldwatch.org/node/3949

 


mbl.is 3 kínversk orkuver losa meira en allt Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

El Nino fyrirbærið komið í gang

Samkvæmt fréttatilkynningu frá NOAA (National Oceanic And Atmospheric Administration - United States Department of Commerce) þann 9. júlí, þá er El Nino kominn í gang. El Nino fyrirbærið er ástand sem myndast í Kyrrahafinu. Fyrirbærið er talið byrjað þegar sjórinn á ákveðnu svæði hitnar um meira en 0,5°C. El Nino hefur ýmis áhrif á veðurlag í heiminum, eins og til að mynda að úrkoma eykst á sumum svæðum á meðan önnur svæði fá meiri þurrk, ásamt hættu á stormum á sumum svæðum og meiri hita á öðrum, sjá t.d. nánar hér. El Nino fyrirbærin koma á um 2-7 ára fresti og er styrkleiki þeirra misjafn. Fyrirbærið stendur yfirleitt í um 12 mánuði. Síðasti stórri El Nino var 1997-98. Árið 1998 er einmitt eitt heitasta ár í heiminum frá upphafi mælinga, og talið er að El Nino hafi haft magnandi áhrif á hitastigið það ár.

Samkvæmt NOAA þá hafa þeir mælt hækkun á hitastigi sjávar sem bendir til að El Nino sé hafinn. Spár benda til að styrkur þessa El Nino verði á bilinu að vera veigalítill til að vera af miðlungs styrk. Það er þó erfitt að spá fyrir um það með vissu. En væntanlega mun hann þó hafa áhrif á veðurlag næsta árið eða svo.

La Nina er fyrirbæri öfugt við El Nino fyrirbærið, þar sem sjórinn í Kyrrahafinu (á ákveðnu svæði) verður kaldari. La Nina veldur að einhverju leyti áhrifum á veðurlag í heiminum sem eru öfug við El Nino. La Nina var í gangi frá miðju ári 2007. 

Stór El Nino fyrirbæri áttu sér stað 1790-93, 1828, 1876-78, 1891, 1925-26, 1982-83, og 1997-98.

Síðustu El Nino hafa átt sér stað á þessum tímabilum, 1986-1987, 1991-1992, 1993, 1994, 1997-1998, 2002-2003, 2004-2005 og 2006-2007.

Heimildir:

Fréttatilkynning NOAA frá 9. júlí 2009
Greining NOAA á El Nino 2009-10
Wikipedia-El Nino


Ný rannsókn á vegum NASA gefur til kynna að ísinn á Norðupólnum sé að þynnast

Ný rannsókn á vegum NASA, sem gerð er með ICESat gervihnettinum, gefur til kynna að ísinn á Norðupólnum sé að þynnast. Vísindamenn frá NASA og Háskólanum í Washington hafa gert mælingar á þykkt íssins á Norðurpólnum með ICESat gervihnettinum, frá árinu 2004. Með mælitækjum ICESat komust vísindamennirnir að því að íslagið hafi þynnst um 7 tommur á ári eða um allt að 2,2 fet á fjórum vetrum. Hlutfall eldri íss minnkaði einnig á þessum tíma. Svæði sem svokallaður Multi-Year (MY) ís þekur (ís sem er eldri en eins árs) hefur minnkað um 42% samkvæmt þessari rannsókn.

Áður fyrr hafa vísindamenn mest notað þá aðferð að mæla dreifingu íss en ekki að sama skapi getað mælt þykktina. En með ICESat gefst þeim nú einstakt tækifæri til að mæla beint þykkt íssins og þ.a.l. hafa þeir betri möguleika á að reikna rúmmál hans. Á myndunum hérundir má sjá hvernig framvinda íslagana á Norðupólnum hafa verið síðan 2004. Á efri myndinni er sýnt hvernig rúmmál ísins hefur þróast og á neðri myndinni kemur fram hvernig þykkt ísins hefur þróast.

 

Mynd 1
 
Á þessari mynd sést að "trendið" fyrir tímabilið er -900 rúmkílómetrar á ári. S.s. rúmmálið minnkar um 900 rúmkílómetra á ári, á tímabilinu (smellið tvisvar á myndina til að fá hana í fullri stærð).

 

 

Mynd 2
"Trendið" fyrir þykkt ísins er einnig fallandi, um 17 cm á ári á tímabilinu (smellið tvisvar á myndina til að fá hana í fullri stærð).


Frekari upplýsingar um rannsóknina má nálgast í fréttatilkynningu NASA frá 7. júlí 2009:

http://www.nasa.gov/home/hqnews/2009/jul/HQ_09-155_Thin_Sea_Ice.html
og
http://www.nasa.gov/topics/earth/features/icesat-20090707.html -> á bak við þennan tengil má m.a. sjá myndir sem sýna þróun þykktar íssins veturna 2003-2008 fyrir svæðið. Þar sést m.a. að það er meira um þynnri ís 2008 en fyrri árin.

Og upplýsingar um ICESat-gervihnöttinn má nálgast hér:

http://icesat.gsfc.nasa.gov/

Þessi færsla er afrit af færslu gærdagsins (7.júlí), en mér fannst passandi að tengja færsluna við þessa frétt, þar sem þróun hitastigs í heiminum og framvinda ísþekjunnar á Norðurpólnum eru nátengd fyrirbæri.


mbl.is Ætla að draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný rannsókn á vegum NASA gefur til kynna að ísinn á Norðupólnum sé að þynnast

Ný rannsókn á vegum NASA, sem gerð er með ICESat gervihnettinum, gefur til kynna að ísinn á Norðupólnum sé að þynnast. Vísindamenn frá NASA og Háskólanum í Washington hafa gert mælingar á þykkt íssins á Norðurpólnum með ICESat gervihnettinum, frá árinu 2004. Með mælitækjum ICESat komust vísindamennirnir að því að íslagið hafi þynnst um 7 tommur á ári eða um allt að 2,2 fet á fjórum vetrum. Hlutfall eldri íss minnkaði einnig á þessum tíma. Svæði sem svokallaður Multi-Year (MY) ís þekur (ís sem er eldri en eins árs) hefur minnkað um 42% samkvæmt þessari rannsókn.

Áður fyrr hafa vísindamenn mest notað þá aðferð að mæla dreifingu íss en ekki að sama skapi getað mælt þykktina. En með ICESat gefst þeim nú einstakt tækifæri til að mæla beint þykkt íssins og þ.a.l. hafa þeir betri möguleika á að mæla rúmmál hans. Á myndunum hérundir má sjá hvernig framvinda íslagana á Norðupólnum hafa verið síðan 2004. Á efri myndinni er sýnt hvernig rúmmál ísins hefur þróast og á neðri myndinni kemur fram hvernig þykkt ísins hefur þróast.

 

Mynd 1
 
Á þessari mynd sést að "trendið" fyrir tímabilið er -900 rúmkílómetrar á ári. S.s. rúmmálið minnkar um 900 rúmkílómetra á ári, á tímabilinu (smellið tvisvar á myndina til að fá hana í fullri stærð).

 

 

Mynd 2
"Trendið" fyrir þykkt ísins er einnig fallandi, um 17 cm á ári á tímabilinu (smellið tvisvar á myndina til að fá hana í fullri stærð).


Frekari upplýsingar um rannsóknina má nálgast í fréttatilkynningu NASA frá 7. júlí 2009:

http://www.nasa.gov/home/hqnews/2009/jul/HQ_09-155_Thin_Sea_Ice.html
og
http://www.nasa.gov/topics/earth/features/icesat-20090707.html

Og upplýsingar um ICESat-gervihnöttinn má nálgast hér:

http://icesat.gsfc.nasa.gov/


Heitustu ár í heiminum frá 1880

Það er athyglisvert að athuga hvaða ár eru heitust í heiminum frá 1880. Í þeim tölum eru á topp 10,  öll árin frá því eftir aldamót (2000), árin 1997 og 1998 komast einnig á topp 10. Af þeim árum sem eru á topp 20 listanum er 1983 það ár sem er lengst frá okkur í tíma. Sem sagt þá eru fjögur ár frá 9. áratugnum á listanum, átta ár frá 10. áratugnum, aðeins vantar 1992 og 1993 inn í þá röð. Og eftir 2000 eru öll árin á topp 10 eins og fram hefur komið.

20 heitustu ár í heiminum frá 1880 eru eftirtalin, samkvæmt þessum heimildum, einingarnar eru frávik frá meðaltali hitastigs á tímabilinu 1901-2000:

20. 1996   -   0.2586
19. 1983   -   0.2715
18. 1994   -   0.2820
17. 1987   -   0.2867
16. 1988   -   0.2886
15. 1991   -   0.3239
14. 2000   -   0.3632
13. 1990   -   0.3701
12. 1999   -   0.3953
11. 1995   -   0.3991

10. 1997   -   0.4618
  9. 2008   -   0.4869
  8. 2001   -   0.4939
  7. 2004   -   0.5332
  6. 2007   -   0.5499
  5. 2006   -   0.5524
  4. 2003   -   0.5566
  3. 2002   -   0.5575
  2. 1998   -   0.5768
  1. 2005   -   0.6058

Samkvæmt þessum tölum er 2005 heitasta árið frá 1880. 

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Temperature_record_since_1880

---

23.06 - smávægileg breyting á texta

 


Aðlögun og viðhorfsbreytingar vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum

Samkvæmt skýrslum IPCC og gögnum vísindamanna í loftslagsmálum, þá hækkar hitastig á jörðinni af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda (m.a. koldíoxíðs) í andrúmsloftið. Ég hef skrifað tvær færslur um vinnuhóp 3 á vegum IPCC (sjá hér og þar), þar sem ég geri grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra. Nú ætla ég að skoða nánar atriði sem mér finnst athyglisverð úr þessari skýrslu.

Fyrst og fremst þá eru helstu niðurstöður skýrslu vinnuhópsins varðandi mótvægisaðgerðir eftirfarandi:

  • Hægt er að ná áþreifanlegum árangri til  minnkunar losunar gróðurhúsalofttegunda og kostnaður við mótvægisaðgerðir virðist vera viðráðanlegur.
  • Allar stærstu losunar þjóðirnar verða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Aðgerðir þurfa að hefjast sem fyrst til að hægt sé að ná árangri til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og þar með koma í veg fyrir að hitastig stígi um of.
  • Mótvægisaðgerðir snúast fyrst og fremst um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, þá aðalega koldíoxíðs.
  • Maðurinn hefur valdið hættulegum loftslagsbreytingum – maðurinn getur lagað það.

Þetta leiðir mig að því sem mig langar að velta upp hér, sem er; hvernig getum við (almennir borgarar) komið að þessu núna? Það sem mér hefur fyrst og fremst fundist vanta, er að upplýsingar, varðandi hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og mikilvægi þess að mótvægisaðgerðir byrji sem fyrst, komist til almennings. En hvað getur fólk gert, gefið að upplýsingar um afleiðingar og mótvægisaðgerðir séu þeim kunnar?

Í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC er talað um það hvernig fjárfestingar næstu ára í ýmsum atvinnugreinum þurfi að taka mið af mótvægisaðgerðum í loftslagmálum. Þ.e. að velja þann fjárfestingarkost og tækni sem tekur tillit til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá því sem nú er. Þetta getur einnig átt við um einstaklinga, þegar neytendur kaupa vörur (eða þjónustu) í dag. Þeir geta hugað að því hvort að vörur séu umhverfisvænar með tilliti til losunar koldíoxíðs. Á Íslandi getur þetta t.d. átt mjög vel við um vörur eins og bíla sem losa koldíoxíð við notkun og vörur sem fluttar eru um langan veg til landsins. Þetta er hluti af því sem kallað er breytingar á lífsstíl og hegðunarmynstri eins og talað er um í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC. Þ.e. þegar breyttur hugsunarháttur leiðir til breyttrar hegðunar og lífsstíls. Fleiri dæmi um hluti sem almennt er hægt að gera ráð fyrir að geti breyst við breyttan hugsunarhátt eru t.d.:

  • Breytingar í hegðun íbúa, menningarleg mynstur og val á staðsetningu heimilis og vinnu.
  • Breytingar í notkun bíla ásamt því að haga keyrslu (vali á bílum) þannig að losun koldíoxíðs verði minni.
  • Skipulag bæjarfélaga og samgangna þannig að almenningssamgöngur hafi meira rými.
  • Hegðun fólks í atvinnulífinu, með tilliti til umhverfisins.

Allar ákvarðanir í samfélaginu eru teknar af einstaklingum sem búa í samfélaginu, þ.a.l. munu breytt viðhorf varðandi þessi mál verða til þess að breytingar munu verða í ákvarðanatöku innan samfélagsins. Það má á sömu lund færa rök fyrir því að breyting á hugsunarhætti geti haft áhrif á val fyrirtækja við fjárfestingu til framtíðar, þar sem valið (sem tekið er af einstaklingum sem vinna innan fyrirtækisins) lendi fremur á fjárfestingarleiðum sem leiði til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.

Þessi breyting getur vart átt sér stað nema að upplýsingar varðandi hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og mikilvægi mótvægisaðgerða komist til skila til sem flestra. Svona breytingar verða ekki gerðar á einni nóttu, en því fyrr sem við förum að huga að þessum málum og skipuleggja framtíðar kaup og atferli út frá þessum forsendum, þeim mun auðveldara verður að ná markmiðunum. Það góða við þessar hugmyndir um breyttan hugsunarhátt er að þær kosta ekki svo mikið þar sem þær leiða fyrst og fremst til breyttra viðhorfa og þar með breytinga í atferli. Sem dæmi getur svona viðhorfsbreyting orðið til þess að eftirspurn eftir vörum breytist (í átt að vörum sem valda minni losun gróðurhúsalofttegunda), sem verður til að framboð af vörum breytist til að anna breyttri eftirspurn almennings.

 


mbl.is Biðlisti eftir Prius
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband