Færsluflokkur: Umhverfismál
18.10.2009 | 20:03
Er loftslagsvandinn tabú?
Ég hef verið að velta því fyrir mér að undanförnu hvort umræðan um loftslagsvandann sé tabú. Á Loftslag.is höfum við í ritstjórninni haft þá stefnu að skrifa um það sem vísindin hafa að segja um loftslagsmálin. Þ.e. að koma inn á rökin, rannsóknirnar og fræðin. Viðtökurnar hafa almennt verið góðar. Efninu er raðað í ákveðna flokka, í hliðarstikunni til hægri eru fastar síður þar sem reynt að koma inn á vísindin á bak við fræðin og svo eru fréttir, blogg, gestapistlar og svokallað heitt efni í tenglunum hér að ofan.
Mitt persónulega mat er það, að það séu verulegar líkur á því að gróðurhúsalofttegundir og magn þeirra í lofthjúpnum hafi bein áhrif á hitastig jarðar, það er það sem vísindin segja okkur í dag. Hversu mikið, er ákveðinni óvissu háð, þ.a.l. eru t.d. ekki allar spár um hækkun hitastigs eins. Einnig koma þarna inn náttúrulegar sveiflur jarðar sem hafa áhrif á hitastig jarðar nú eins og alltaf. Þessar náttúrulegu sveiflur hafa þau áhrif að bæði getur hitastig hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir eða jafnvel lækkað tímabundið.
Umræða um þessi mál er frekar undarleg á köflum. Umræðan virðist stundum fara út í skotgrafahernað tveggja öfgasjónarmiða, þ.e. þeirra sem telja að heimurinn sé að farast og þeirra sem ekkert vilja gera. Þarna á milli eru svo mörg litbrigði skoðana. Nú vil ég gjarnan taka það fram að ég tilheyri hvorugum öfgahópnum, en tel vandann vera til staðar og tel að við honum verði að bregðast. Persónulega tel ég að hægt sé, með hjálp tækni og með breyttum viðhorfum, að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef meira þarf til, þá þarf að fara fram pólítísk umræða um hvernig skuli ná þeim markmiðum, sú umræða fer m.a. fram í Kaupmannahöfn í desember, þar sem fulltrúar 192 landa koma saman og ræða málin.
Nú langar mig að fara í smá þankatilraun, þar sem ég bið lesendur um að hugsa sem svo, "Loftslagsvandi af mannavöldum er raunverulegur". Þessi tilraun gengur út á að hugsa sem svo, hvað ef vísindamenn þeir sem rannsaka þessi mál mest hafa rétt fyrir sér? Við þessa tilraun verða til nokkrar spurningar sem vert er að skoða nánar.
- Eigum við að hafa áhrif á framtíðina og ræða loftslagsmálin opinskátt?
- Er það skylda okkar að finna lausnir?
- Hvar viljum við setja markið fyrir því að þetta sé í raunverulegur vandi, er það við 0,5°C eða 2°C hækkun hitastigs, eða einhver önnur tala?
- Ef hitastig hækkar lítillega, miðað við einhverjar forsendur, stendur okkur þá á sama?
- Hvenær verður vandinn raunverulegur samkvæmt því (3. og 4. spurning)?
- Hvað ef það kemur í ljós eftir 50 ár að þetta hafi verið minni vandi en hugsanlega er talið líklegt í dag, ætti sá möguleiki að hafa áhrif á umræðuna í dag, sem ætti að vera út frá bestu fáanlegum upplýsingum dagsins í dag?
- Eigum við að ræða hugsanlegar óþægilegar afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum?
- Á loftslagsumræða á pólítískum nótum rétt á sér?
- Hvernig munu lífskilyrði þróast um allan heim ef við tökum á vandanum?
- Ef vandinn er raunverulegur, hversu langt á þá að ganga í því að gera athugasemdir við umfjöllun sem gerir annaðhvort lítið úr vandanum eða telur hann ekki fyrir hendi?
Þetta eru spurningar sem mig langar að biðja ykkur kæru lesendur, að velta fyrir ykkur. Persónulega hef ég ekki ákveðin svör við öllum atriðunum. Röð spurninga er ekki vegna vægis heldur að handahófi. Fróðlegt væri ef lesendur vildu taka þátt í þessari þankatilraun, með því að svara einni eða fleiri spurningum. Þessi mál mega að mínu viti ekki verða að tabú.
---
---
Athugasemdir sem komnar eru, Loftslag.is:
Gulli
Þessi mál eru orðin "tabú" vegna þess að það má ekki efast um þau - flestir eru hættir að nenna að reyna að ræða þau vegna þess að þetta eru eins og trúmál, ef þú ekki fylgir rétttrúnaðarbókinni þá er allt sem þú segir bull, vitleysa og borgað af olíufélögunum.
Á þann hátt eru "málin útrædd" og "engin vafi lengur" - enginn sem ekki er sammála fær að tjá sig án þess að fá yfir sig staðlaða skítkastið um olíufélögin.
Sveinn Atli
Þetta er svo sem einn vinkill málsins Gulli, það er sanngjarnt að nefna hann þó það sé ekki hluti þankatilraunarinnar. Þó má setja spurningamerki við það að blanda trú í vísindi, samanber þessa færslu: http://www.loftslag.is/?page_id=1313
Persónulega finnst mér lítill vafi á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi áhrifa á hitastig, þá er spurningin sem eftir situr um óvissuna í spánum og hvenær teljum við um vanda að ræða. Það er meira hugsunin á bak við þessa færslu.
En við getum bætt við spurningu: 11. Er slæmt fyrir umræðuna að vísindamenn og aðilar eins og t.d. olíufélög og önnur hagsmunasamtök taki þátt í henni og hafi skoðun á málunum?
Umhverfismál | Breytt 19.10.2009 kl. 14:20 | Slóð | Facebook
10.9.2009 | 16:10
Loftslag.is - Spurningar og svör
Umhverfismál | Breytt 12.9.2009 kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
6.9.2009 | 22:17
Ný heimasíða - Loftslag.is
Þann 19. september mun opna formlega ný heimasíða á vefslóðinni loftslag.is. Þetta er vefsíða sem ætlað er að verða upplýsingaveita um loftslagsmál á íslensku. Fréttir er varða loftslagmál munu fá sitt pláss á síðunni ásamt bloggi frá ritstjórn. Einnig höfum við áhuga á að sækja í brunn gesta sem þekkja þessi fræði vel og birta gestapistla um þessi mál. Á síðunum verða einnig upplýsingar um vísindin, þ.e. fastar síður þar sem hægt verður að lesa um ýmsar staðreyndir um loftslagsmál.
Ritstjórn vefsíðunnar Loftslag.is skipa Höskuldur Búi Jónsson og sá sem hér skrifar, Sveinn Atli Gunnarsson.
Vonumst við eftir að geta komið á fót öflugum vefmiðli með nýjustu fréttir og ýmsar upplýsingar um loftslagsmál. Síðan hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið nú og áfram á eftir að fínpússa síðuna fram að opnun. Nú þegar er hægt að skoða föstu síðurnar um vísindalegu hliðina, en þess ber að geta að þær síður eru enn í vinnslu og eru sumarhverjar ókláraðar.
29.8.2009 | 09:40
Hluti af lausninni
Hér ætla ég ekki að taka sérstaka afstöðu til þessara ákveðnu leiða sem talað er um í fréttinni. Þessi vísindi munu að öllum líkindum vera hluti af þeirri lausn að halda hækkun hitastis undir 2°C. Þetta mark er mikið notað sem viðmið þess hita sem við viljum gjarnan halda okkur undir eins og fram kemur í fréttinni. Ýmsar aðferðir jarðverkfræða (eða loftslagsverkfræða eins og ég vil kalla þau) munu hugsanlega verða til þess að halda okkur undir yfir 2°C markinu. Þar sem það virðist vera erfitt að komast að pólítísku samkomulagi um að minnka losun koldíoxíðs nóg til að ná markinu, þá þarf samhliða að leita annarra leiða. Það eru þó fleiri þættir sem þarf að huga að, m.a. súrnun sjávar sem er önnur hlið á aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Að mínu mati getur loftslagsverkfræðin ekki orðið nema hluti heildarlausnarinnar, þar sem fyrst og fremst þarf að leita lausna til að minnka losun koldíoxíðs.
---
[31.8 - Leiðrétting í teksta]
Gervitré til að gleypa koltvísýring | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 31.8.2009 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.8.2009 | 19:26
Myndband frá NASA um loftslagsbreytingar og býflugur
Hérundir er myndband um breytingar á tímasetningu á frævun blóma og hvaða áhrif það hefur á býflugur og líf þeirra. Samkvæmt upplýsingum úr gervihnöttum þá hefst vorið í norðurhluta Bandaríkjanna hálfum degi fyrr á hverju ári vegna loftslagsbreytinga. Í myndbandinu er komið inn á þann möguleika að blómin og býflugurnar geti farið úr takti hvort við annað, ef frævun blóma færist til vegna loftslagsbreytinga.
Ný rannsókn á vegum NASA, sem gerð er með ICESat gervihnettinum, gefur til kynna að ísinn á Norðupólnum sé að þynnast. Vísindamenn frá NASA og Háskólanum í Washington hafa gert mælingar á þykkt íssins á Norðurpólnum með ICESat gervihnettinum, frá árinu 2004. Með mælitækjum ICESat komust vísindamennirnir að því að íslagið hafi þynnst um 7 tommur á ári eða um allt að 2,2 fet á fjórum vetrum. Hlutfall eldri íss minnkaði einnig á þessum tíma. Svæði sem svokallaður Multi-Year (MY) ís þekur (ís sem er eldri en eins árs) hefur minnkað um 42% samkvæmt þessari rannsókn.
Áður fyrr hafa vísindamenn mest notað þá aðferð að mæla dreifingu íss en ekki að sama skapi getað mælt þykktina. En með ICESat gefst þeim nú einstakt tækifæri til að mæla beint þykkt íssins og þ.a.l. hafa þeir betri möguleika á að reikna rúmmál hans. Á myndunum hérundir má sjá hvernig framvinda íslagana á Norðupólnum hafa verið síðan 2004. Á efri myndinni er sýnt hvernig rúmmál ísins hefur þróast og á neðri myndinni kemur fram hvernig þykkt ísins hefur þróast.
Frekari upplýsingar um rannsóknina má nálgast í fréttatilkynningu NASA frá 7. júlí 2009:
http://www.nasa.gov/home/hqnews/2009/jul/HQ_09-155_Thin_Sea_Ice.html
og
http://www.nasa.gov/topics/earth/features/icesat-20090707.html -> á bak við þennan tengil má m.a. sjá myndir sem sýna þróun þykktar íssins veturna 2003-2008 fyrir svæðið. Þar sést m.a. að það er meira um þynnri ís 2008 en fyrri árin.
Og upplýsingar um ICESat-gervihnöttinn má nálgast hér:
Þessi færsla er afrit af færslu gærdagsins (7.júlí), en mér fannst passandi að tengja færsluna við þessa frétt, þar sem þróun hitastigs í heiminum og framvinda ísþekjunnar á Norðurpólnum eru nátengd fyrirbæri.
Ætla að draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 11.7.2009 kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2009 | 18:36
Aðlögun og viðhorfsbreytingar vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum
Samkvæmt skýrslum IPCC og gögnum vísindamanna í loftslagsmálum, þá hækkar hitastig á jörðinni af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda (m.a. koldíoxíðs) í andrúmsloftið. Ég hef skrifað tvær færslur um vinnuhóp 3 á vegum IPCC (sjá hér og þar), þar sem ég geri grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra. Nú ætla ég að skoða nánar atriði sem mér finnst athyglisverð úr þessari skýrslu.
Fyrst og fremst þá eru helstu niðurstöður skýrslu vinnuhópsins varðandi mótvægisaðgerðir eftirfarandi:
- Hægt er að ná áþreifanlegum árangri til minnkunar losunar gróðurhúsalofttegunda og kostnaður við mótvægisaðgerðir virðist vera viðráðanlegur.
- Allar stærstu losunar þjóðirnar verða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
- Aðgerðir þurfa að hefjast sem fyrst til að hægt sé að ná árangri til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og þar með koma í veg fyrir að hitastig stígi um of.
- Mótvægisaðgerðir snúast fyrst og fremst um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, þá aðalega koldíoxíðs.
- Maðurinn hefur valdið hættulegum loftslagsbreytingum maðurinn getur lagað það.
Þetta leiðir mig að því sem mig langar að velta upp hér, sem er; hvernig getum við (almennir borgarar) komið að þessu núna? Það sem mér hefur fyrst og fremst fundist vanta, er að upplýsingar, varðandi hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og mikilvægi þess að mótvægisaðgerðir byrji sem fyrst, komist til almennings. En hvað getur fólk gert, gefið að upplýsingar um afleiðingar og mótvægisaðgerðir séu þeim kunnar?
Í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC er talað um það hvernig fjárfestingar næstu ára í ýmsum atvinnugreinum þurfi að taka mið af mótvægisaðgerðum í loftslagmálum. Þ.e. að velja þann fjárfestingarkost og tækni sem tekur tillit til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá því sem nú er. Þetta getur einnig átt við um einstaklinga, þegar neytendur kaupa vörur (eða þjónustu) í dag. Þeir geta hugað að því hvort að vörur séu umhverfisvænar með tilliti til losunar koldíoxíðs. Á Íslandi getur þetta t.d. átt mjög vel við um vörur eins og bíla sem losa koldíoxíð við notkun og vörur sem fluttar eru um langan veg til landsins. Þetta er hluti af því sem kallað er breytingar á lífsstíl og hegðunarmynstri eins og talað er um í skýrslu vinnuhóps 3 hjá IPCC. Þ.e. þegar breyttur hugsunarháttur leiðir til breyttrar hegðunar og lífsstíls. Fleiri dæmi um hluti sem almennt er hægt að gera ráð fyrir að geti breyst við breyttan hugsunarhátt eru t.d.:
- Breytingar í hegðun íbúa, menningarleg mynstur og val á staðsetningu heimilis og vinnu.
- Breytingar í notkun bíla ásamt því að haga keyrslu (vali á bílum) þannig að losun koldíoxíðs verði minni.
- Skipulag bæjarfélaga og samgangna þannig að almenningssamgöngur hafi meira rými.
- Hegðun fólks í atvinnulífinu, með tilliti til umhverfisins.
Allar ákvarðanir í samfélaginu eru teknar af einstaklingum sem búa í samfélaginu, þ.a.l. munu breytt viðhorf varðandi þessi mál verða til þess að breytingar munu verða í ákvarðanatöku innan samfélagsins. Það má á sömu lund færa rök fyrir því að breyting á hugsunarhætti geti haft áhrif á val fyrirtækja við fjárfestingu til framtíðar, þar sem valið (sem tekið er af einstaklingum sem vinna innan fyrirtækisins) lendi fremur á fjárfestingarleiðum sem leiði til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.
Þessi breyting getur vart átt sér stað nema að upplýsingar varðandi hugsanlegar afleiðingar hækkunar hitastigs og mikilvægi mótvægisaðgerða komist til skila til sem flestra. Svona breytingar verða ekki gerðar á einni nóttu, en því fyrr sem við förum að huga að þessum málum og skipuleggja framtíðar kaup og atferli út frá þessum forsendum, þeim mun auðveldara verður að ná markmiðunum. Það góða við þessar hugmyndir um breyttan hugsunarhátt er að þær kosta ekki svo mikið þar sem þær leiða fyrst og fremst til breyttra viðhorfa og þar með breytinga í atferli. Sem dæmi getur svona viðhorfsbreyting orðið til þess að eftirspurn eftir vörum breytist (í átt að vörum sem valda minni losun gróðurhúsalofttegunda), sem verður til að framboð af vörum breytist til að anna breyttri eftirspurn almennings.
Biðlisti eftir Prius | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 11.7.2009 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)