Færsluflokkur: Heimspeki

Loftslagsbreytingar - Efasemdir eða afneitun

Það er gott að velta hlutunum fyrir sér og spyrja sig gagnrýnina spurninga um lífið og tilveruna. Þannig höfum við mannfólkið oft komist að mörgum helstu leyndardómum lífsins. Þar má nefna þær staðreyndir að jörðin er ekki flöt, lögmál Newtons um þyngdaraflið og þróunarkenningu Darwins svo eitthvað sé nefnt. Þessum spurningum var svarað vegna þess að viðkomandi einstaklingar höfðu efasemdir um það skipulag sem fyrir var og komust að því að hlutunum var öðruvísi fyrirkomið en fyrirliggjandi hugmyndir kváðu á um. Þetta er ágætt dæmi um efasemdir sem koma af stað framförum og verða til þess að frekari vitneskja verður aðgengileg. Efasemdir eiga því fullkomin rétt á sér og hafa leitt til mikilla framfar í gegnum tíðina.

Af hverju er ég svo að velta þessu fyrir mér. Jú það er hárfín lína á milli þess að vera með efasemdir eða að vera í afneitun, t.d. hvað varðar loftslagsmál og hlýnun jarðar. Það dylst engum sem það vill vita að hitastig jarðar hefur hækkað undanfarna áratugi. Það er svo komið í dag að vísindamenn sem rannsaka þessi mál hafa gefið það út að "mjög miklar líkur" (sem á vísindamáli þýðir að líkurnar eru yfir 90%) séu á því að þessi hækkun hitastigs undanfarna áratugi sé til komin vegna losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið af mannavöldum. Þessi losun hefur gert það að verkum að styrkur koldíoxíðs (sem er ein aðal gróðurhúsalofttegundin) hefur hækkað úr u.þ.b. 280 ppm (parts per million) fyrir iðnvæðingu upp í um 387 ppm í dag. Þetta er um 38% aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu, þetta er fyrir utan aukningu styrks á öðrum gróðurhúsalofttegundum. 

Þrátt fyrir þessi varnaðarorð vísindamanna sem út frá bestu rannsóknum dagsins í dag álykta svo, þá eru ýmsir sem í nafni efasemda vilja gera lítið úr þessari vá. Þeir telja að aðrir þættir valdi og halda því fram að vísindamenn sem rannsaka þessi mál mest, viti ekki sínu viti. Helstu rök þessara efasemdarmanna eru m.a., svo fátt eitt sé nefnt, að sólin sé aðalorsakavaldurinn, að loftslag hafi breyst áður (þ.a.l. sé þetta náttúrulegur ferill), að vísindamenn séu almennt ekki sammála og að hitastig fari ekki hækkandi. Þessi rök gera m.a. ráð fyrir því að vísindamenn sem rannsaka þessi mál séu ósammála, að rannsóknargögn séu ekki marktæk og/eða að þeir hafi ekki rannsakað málið nógu vel. Efasemdarfólk, sem heldur þessu fram, telur sig svo stundum hafa svörin á reiðum höndum, stundum út frá litlum gögnum. Stundum er talað um samsæri, sem gengur út á að vísndamenn hafi ákveðið að upphefja þetta vandamál til að fá vinnu og þar með peninga. En nóg um það, samsæriskenningar verða alltaf til. Spurning mín er hvort að það sé kannski of jákvætt að kalla svona efasemdarfólk því fína nafni eða hvort að afneitunarsinni væri hugsanlega réttara? Lítum á hvaða skilgreiningar er hægt að koma með fyrir þessi tvö hugtök.

Efasemdir: Er ákveðin tilhneyging til tortryggni eða efasemda gagnvart ákveðnu efni almennt eða ákveðnum hluta þess. Efasemdir eru byggðar á rökréttum, vitsmunalegum aðferðum sem innihalda gagnrýna greiningu á staðreyndum. Orsök efasemda er byggð á aðferðum sem byggja á rökum og tilgátum.

Afneitun: Aðferðir við afneitun geta verið margskonar. Þær byggja á ýmsum aðferðum sem eiga það sammerkt að sýna fram á ákveðin sjónarmið. Þær aðferðir geta m.a. verið; að segja að um samsæri sé að ræða, að velja gögn sem sýna fram á eigin sjónarmið (cherry-picking), notaðir eru óekta sérfræðingar, breyting viðmiða svo ómögulegt er að standast þau og/eða að notaðar eru almennar rökvillur.

Efasemdarfólk á afneitunarstigi vill oft gera lítið úr loftslagsvandanum og vilja bíða og sjá hvað gerist á næstu árum og áratugum þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna. Þegar þetta er gert með rökum sem minna á þau sem að ofan eru talin (afneitunarhlutanum), þá er hægt að færa rök fyrir því að kalla það afneitun á vísindunum. Það að  gera ekkert við loftslagsvandanum er alvarleg mál sem hver og einn verður að taka upp við samvisku sína. Við höfum bara eina jörð og við getum ekki ýtt á [cancel] og byrjað upp á nýtt síðar. Þ.a.l. er mikilvægt að við tökum mark á þeirri þekkingu sem vísindamenn hafa upp á að bjóða í dag og tökum höndum saman og leysum vandamálin í sameiningu. Vísindamenn telja að við höfum enn tíma upp á að hlaupa áður en of seint verður að grípa í taumana. Það er því mikilvægt að við reynum að finna lausnir og tökum höndum saman í þá veru að leysa vandann, því fyrr því betra. Látum því ekki afneitunarsinna stjórna umræðunni, veljum frekar að hlusta á þá sem hafa mesta þekkingu á málunum í dag.

Þetta var þriðja og síðasta færslan í röð pistla um loftslagsbreytingar á þessum nótum. Hérundir eru fyrri tvær færslurnar:

Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð

Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá


mbl.is Höfin hafa aldrei verið heitari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá

Hvað hafa hugtökin raunsæi og hrakspá með loftslagsbreytingar að gera. Jú það er til fólk sem heldur því fram að  stór hluti umræðu um hækkun hitastigs af völdum gróðurhúsalofttegunda sé einhverskonar hrakspá. Þessi hrakspá er að þeirra mati gerð til að sýna fram á að vandamálið sé stærra en það er í raun og gerðar af svokölluðum hrakspámönnum (e. alarmist). Þ.a.l. er ákveðin tilfinning hjá þessum einstaklingum að lausnirnar séu úr samræmi við vandann. Lítum á hvað hrakspá er; Hrakspá er spá um hrakfarir eða illspá um einhverjar ófarir.

En er eitthvað til í því að umfjöllun um loftslagsbreytingar af mannavöldum séu hrakspár án alls raunsæis? Raunsæi er það að vera raunsær og líta á eitthvað eins og það er í raun og veru, hlutlægni í hugsun og athöfnum. Er hægt að tala um raunsæi eða hrakspá um loftslagsmál. Hugsanlega getum við litið á vísindalegar aðferðir og vísindin sjálf í leit að svari.

Vísindamenn beita vísindalegum aðferðum til að fá fram niðurstöður sínar. Þessar aðferðir eru að sjálfsögðu ekki óbrigðular, en þær hafa ýmsa kosti. Vísindalegar aðferðir: "aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum."

Það er því hægt segja að þær niðurstöður sem vísindamenn fá með þessum aðferðum, séu niðurstöður sem hægt er að sannreyna með því að endurtaka rannsóknirnar. Það þýðir að ef það er eitthvað óhreint í pokahorninu þá kemst það upp um síðir. Í ýmsum fræðigreinum er erfiðara að sýna fram á nákvæmar niðurstöður, þ.a.l. nota vísindamenn oft líkindi til að lýsa niðurstöðum. Til dæmis þá hafa vísindamenn í loftslagsmálum komið fram með að "mjög miklar líkur" séu á því að sú hækkun hitastigs sem orðið hefur á síðustu árum og áratugum sé vegna aukningar á styrk gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Þetta orðalag vísindamanna "mjög miklar líkur", er það sama og segja að það séu yfir 90% líkur á að þessu sé svo fyrirkomið. Þetta álykta vísindamenn út frá niðurstöðum sem fengust með því að nota vísindalegar aðferðir.

Þetta er því raunsætt mat vísindamanna á stöðunni út frá þeim upplýsingum sem þeir hafa í dag. Út frá þessu mati er raunhæft að áætla að ef styrkur gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast þá muni hitastigið halda áfram að hækka. Hækkun hitastigs á svo stuttum tíma sem við erum að upplifa núna getur reynt á þolrif ýmissa jarðsvæða og dýrategunda í heiminum. Það er hin hugsanlega framtíðarsýn sem sumar vilja ekki sjá í augu og kalla hrakspá. Þetta kalla ég raunsætt mat á fyrirliggjandi gögnum um loftslagsmál. Aðgerðir verða þ.a.l. að byggjast á því að finna raunsæar lausnir. Það getur verið að það þýði kostnað einhversstaðar til skamms tíma, en er það ekki betra en að gera ekkert og vona hið besta.

Í mínum augum þá benda vísindamenn á vandann og hugsanlegar lausnir. Það er raunsætt, en ef við gerum ekkert í málinu, þá gæti það sem fólk kallar "hrakspá" orðið að veruleika í framtíðinni. Við skulum því ákveða að líta raunsæum augum á vandann og leytast við að finna raunsæar leiðir út úr honum.

Þetta var önnur færslan af þremur sem verður á þessum nótum. Sú fyrsta var færslan Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð. Á næstu dögum fylgir sú þriðja í röðinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband