Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð

Það hefur stundum borið á því að fólk afneitar vísindum og kalli þau trúarbrögð. Þetta á t.d. við þegar fólk er á þeirri skoðun að vísindamenn viti ekki sínu viti. Þetta á stundum við þegar talað er um loftslagsbreytingar, þá kemur stundum klausan "þetta eru bara trúarbrögð". Þarna virðist vera sem fólk sem að öðru leiti er skynsamt, ákveði að vísindin geti á einhvern hátt verið beintengd trúarbrögðum, eða það að taka mark á vísindamönnum hafi eitthvað með trúarbrögð að gera. Lítum nánar á örfáar skilgreiningar á þessum hugtökum.

Trúarbrögð: "trú á tiltekinn guð (tiltekna guði eða goðmögn), guðsdýrkun samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi" (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is); önnur skilgreining "er trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni." (tekið af Wikipedia, íslenska útgáfan, sjá hér).

Vísindi: "athuganir, rannsóknir gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla þekkingar" (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is)

Vísindaleg aðferð: "aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum." (sjá wikipedia)

Kenning: "er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma." (sjá wikipedia)

Samkvæmt þessu þá eru vísindalegar aðferðir og kenningar ósamrýmanlegar við trúarbrögð. Trúarbrögð eru guðsdýrkun eða trú á yfirnáttúrulegar verur samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi, vísindi aftur á móti eru athuganir, rannsóknir framkvæmdar á óhlutdrægan hátt, til að afla þekkingar. Kenningar sem fram eru settar samkvæmt vísindalegum aðferðum með, athugunum, tilgátum og tilraunum hljóta að vera það sem við byggjum vitneskju okkar á, um t.d. loftslagsbreytingar og í fleiri greinum, m.a. náttúruvísindum. T.d. eru afstæðiskenningin og þróunnarkenning Darwins, kenningar sem við notum við útskýringu á ákveðnum fyrirbærum. Eins og fram kemur hér að ofan, þá er í heimi vísindanna ekkert sem telst algerlega sannað, heldur byggjast vísindin á því sem menn vita best á hverjum tíma. Það sama á við um kenningar um loftslagsbreytingar.

Kenningin um að aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu valdi hækkandi hitastigi er sú besta sem við höfum í augnablikinu til að útskýra þá hitastigshækkun sem orðið hefur í heiminum síðustu áratugi. Í raun hafa vísindamenn komið fram með að það séu mjög miklar líkur (yfir 90% líkur) á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi valdið þeirri hækkun hitastigs sem orðið hefur síðustu áratugi. Þetta verða að teljast tiltölulega afgerandi ályktanir hjá vísindamönnum og okkur ber að taka þær alvarlega. Þetta snýst ekki um trúarbrögð heldur vísindalegar rannsóknir og niðurstöður.

Í þessu sambandi eru margar lausnir viðraðar og persónulega hef ég trú á því að okkur takist að finna lausnir sem hægt verður að nota til lausnar þessa vandamáls. Ég hef trú á því að við manneskjurnar séum nógu vitibornar til að sjá alvöru málsins og taka skref í átt til þess að finna lausnir. Látum ekki tilgátur afneitunarsinna um að vísindi séu einhverskonar trúarbrögð, flækjast fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum sem taka þarf. 

"The world is a dangerous place, not because of those who do evil, but because of those who look on and do nothing." Albert Einstein


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Í Bandaríkjunum segir klisjan að þetta skiptist ca. svona:

Repúblikanar - ofsatrú - gróðurhúsaáhrifaafneitun

Demókratar - hóflegri trú - vísindamenn teknir alvarlega

-

Það er áhugavert að fyrri hópurinn skuli kalla þetta trúarbrögð, enda skýrist það kannski af því að sá hópur þekkir síður aðra tegund hugsunar en blind faith og heimfærir þær hugmyndir á aðra.

Gott blogg hjá þér.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 9.8.2009 kl. 14:14

2 Smámynd: Loftslag.is

Jú, hef orðið var við þetta. Í augum sumra er ég í trúboði af því að ég held úti loftslagsbloggi

En jú, ég held að það hljóti að vera hægt að finna lausnir. Fyrsta lausnin hlýtur þó að vera að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Loftslag.is, 9.8.2009 kl. 19:14

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru allt ágætis pælingar. Efasemdir eiga auðvitað ekki heima í trúarbrögðum ólíkt því sem gerist í vísindaheimunum þar sem sífellt er verið að reyna að hrekja kenningar uns þær teljast sannaðar eða afsannaðar.

Það er þó í raun engin skynsemi í öðru en að taka alvarlega því sem almenn sátt er um í vísindasamfélaginu og haga sér eftir því. Það er allavega mín afstaða þó ég hafi kannski stundum haft mínar efasemdir um alvarleika gróðurhúsaáhrifanna.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.8.2009 kl. 20:59

4 Smámynd: Arnar

Hvað segirðu þá um tilgátur um áhrif td. sólvirkni og jafnvel staðsetningu sólkerfisins í örmum vetrarbrautarinnar á hitafar á jörðu?

Það er ýmislegt, aðallega jarfræði upplýsingar, sem bendir til þess að hitafar gangi í sveiflum, það skiptist á ísaldir og svo heitari tímabil.  Ég er ekki að segja að mengun hafi engin áhrif, en allt hefur þetta gerst áður án aðkomu manna.  Td. finnast dýra/plöntu leifar undir ísnum á suðurheimskautinu þannig að annaðhvort hefur einhvern tíman verið örlítið hlýrra þar áður eða 'jarðvegurinn' þar hefur einhvern tíman verið örlítið nær miðbaug.

Arnar, 10.8.2009 kl. 11:11

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir spurninguna Arnar.

Jú þetta eru allt saman ágætis tilgátur og það er einmitt hlutverk vísindamanna að koma með nýjar tilgátur varðandi náttúrunna. Það getur tekið tíma að rannsaka svona tilgátur og svo á endanum þarf að koma einhver niðurstaða í það, hversu mikil áhrif hver tilgáta hefur á, í þessu tilviki, loftslagið. Ég hef ekki séð neitt sem hefur sannfært mig um að tilgátur þessar um sólvirkni eða geimgeisla hafi drífandi áhrif á loftslag jarðar (það er þó ekki hægt að útiloka einhver smá áhrif fyrr en búið er að rannsaka þetta betur).

Þetta með að jörðin hafi gengið í gegnum önnur tímabil með sveiflum, ísaldir og hlýrri skeið, þá verðum við að hafa í huga hvað hefur drifið þær breytingar. T.d. hafa breytingar á braut jarðar ásamt halla jarðar ásamt fleiru, svokallaðir hringir Milankovitch, haft áhrif á sveiflur í loftslaginu áður fyrr. Þetta var ekki það eina sem hafði áhrif á loftslag en er þó talið hafa haft stærst áhrif á hvort það var ísöld eða hlýrra skeið. Nánar er hægt að skoða hringi Milankovitch hér. Sólin sjálf hefur einnig áhrif á loftslag vegna sólarsveiflna sem er mismunur í virkni sólar, ásamt m.a. El Nino og La Nina fyrirbærunum. Sólin, El Nino og La Nina eru fyrirbæri sem koma með mun styttra millibili en það sem gerist í hringjum Milankovitch, þ.e. hefur tímabundnari áhrif. Ég hef heyrt einhversstaðar að við ættum í raun að vera í tímabili núna þar sem loftslag á heimsvísu ætti að fara lækkandi vegna þessara náttúrulegu sveiflna...ég man ekki hvar ég sá það, skelli því inn ef ég finn það.

Frá mínu sjónarhorni lítur þetta þannig út að vísindamenn hafa ekki getað fundið annan "sökudólg" en losun gróðurhúsalofttegunda til útskýringar á þeirri hitastigshækkun sem orðið hefur undanfarna áratugi. Þeir hafa m.a. getað notað beinar mælingar á útgeislun frá sólinni og beinar mælingar á hitastigi og á styrk koldíoxíðs um allan heim ásamt fjöldanum öllum af öðrum rannsóknum (m.a. á loftslagi fyrri tíma). Í síðustu skýrslu Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC), þá taka vísindamenn svo djúpt í árina að segja að mjög miklar líkur (yfir 90%) séu á því að hlýnun síðustu áratuga sé af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda. Þegar vísindamenn viðhafa svona stór orð, þá held ég að við eigum að hlusta á hvað þeir hafa að segja.

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.8.2009 kl. 12:25

6 Smámynd: Arnar

Svatli: Ég hef heyrt einhversstaðar að við ættum í raun að vera í tímabili núna þar sem loftslag á heimsvísu ætti að fara lækkandi vegna þessara náttúrulegu sveiflna...ég man ekki hvar ég sá það, skelli því inn ef ég finn það.

Já, ég las einmitt einhverstaðar þá tilgátu að hlýnun andrúmslofts jarðar af mannavöldum væri hugsanlega að bjarga okkur frá ísöld

Arnar, 10.8.2009 kl. 14:47

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já, ég hugsa nú að tilgátan um ísöld sé kannski aðeins of mikið sagt, allavega á allra næstu öldum

Ég fann það sem ég var að vitna til, á myndinni hérundir þá er þetta sýnt sem minniháttar kólnun (blái ferillinn) ef ekki hefði komið til losun gróðurhúslofttegunda. Þetta má helst sjá ef tekin er ferillinn (blái ferillinn) frá miðri öldinni. Það er hægt að lesa betur um þetta hér.

 
Natural Variability

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.8.2009 kl. 18:17

8 identicon

Án þess að blanda mér í umræðuna um loftslagsmálin beint get ég útskýrt hvernig hægt er að sjá þá hlið sem bloggarinn virðist aðhyllast sem trúarbrögð (ég er ekki að gera bloggaranum upp skoðanir, geng einungis út frá öfgakenndari hópunum á sömu hlið og hann):

1. Það er aðeins einn sannleikur; Hlýnun jarðar er af mannavöldum - beinlínis vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, um það má ekki efast, allar aðrar kenningar eru rangar og má ekki skoða frekar. Allir sérfræðingar eru sammála um hina einu sönnu skýringu (Galileo var neyddur til að afneita eigin skoðun eftir að rannsóknir hans sýndu að hin eina sanna skýring kirkjunnar var röng).

2. Efasemdarmenn eru sendir af djöflinum til að leiða fólk í freistni (eru allir á launum hjá olíufélögunum). 

3. Æðsti presturinn ferðast um og predikar orðið (Al Gore og powerpoint sýningin hans, að hætti amerískra sjónvarpspredikara).

4. Ef þú hefur syndgað geturðu keypt þér syndaaflausn eins og kaþólska kirkjan seldi á miðöldum, þegar verið var að fjármagna Péturskirkjuna í Róm. Al Gore er stór hluthafi í stærsta fyrirtækinu sem selur "kolefnisjöfnun".

5. Do as I say, not as I do. Aftur Al Gore og félagar, ferðast um á einkaþotum, bensínhákum og búa í risavillum sem eyða rafmagni á við venjulegan smábæ - að sjálfsögðu allt sem laun vegna "þjónustu sinnar við samfélagið". Svona svipað og kirkjunnar menn lifðu í vellystingum og svalli á kostnað almennings sem átti að þrauka í fátækt og eymd til að auðvelda sér aðgang að himnaríki.

Gulli (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 22:35

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það sem ég útskýri í færslunni Gulli, er einmitt að það eru ekki trúarbrögð að hlusta á þá sem hafa bestu fáanlega vitneskju um þessi mál. Þeir sem hafa bestu vitneskju eru vísindamenn. Það er ekki alvíst að þetta sé hin heilagi sannleikur þar sem vísindin hafa þann kost að nýjar rannsóknir sýna stundum fram á eitthvað nýtt og áður óþekkt. Eins og staðna er í dag þá eru vísindamenn almennt sammála um að hitastig fari hækkandi vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda.

Það sem ég bendi á hér er að þetta hefur einmitt ekkert með trúarbrögð að gera þar sem trúarbrögð og vísindalegar aðferðir eru óskyld fyrirbæri. Það er skynsamlegt að hlusta á það sem rannsóknir sýna, rannsóknir sem gerðar eru með vísindalegum aðferðum. Það má ekki blanda trúarbrögðum inn í þá umræðu, heldur eru vísindaleg rök best til þess fallin að færa rök fyrir máli sínu. 

Það að gera Al Gore (ekki að ég sé að taka upp hanskann fyrir hann) að "æðsta prest" er algerlega á sömu nótum og klausan "þetta eru bara trúarbrögð", sem ég bendi á í færslunni og hefur engin rökræn gildi í umræðunni um loftslagsmál.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.8.2009 kl. 22:55

10 identicon

Önnur tilraun til að pósta þessari athugasemd:

Best að ég útskýri að ég var alls ekki að halda því fram að þetta sé spurning um trúarbrögð, einungis að tína til ástæður þess að margir fóru að líkja þessu við trúarbrögð.

Persónulega gerðist ég efasemdamaður einmitt út af fyrstu tveimur ástæðunum, mér fannst ansi margir vera orðnir yfirlýsingaglaðir um að "umræðan er búin", "allir eru sammála" og "þarf ekki að rannsaka frekar", þar á meðal vísindamenn sem tengdust IPCC. Athugun á sögunni sýnir að þegar slíkar fullyrðingar fara að fljúga í vísindum þá eru menn annað hvort orðnir rökþrota eða farnir að hagræða rannsóknum til að fá þær niðurstöður sem menn gáfu sér áður en rannsóknirnar byrjuðu. Eins og þú segir sjálfur þá grundvallast vísindi á því að efast um allt sem ekki er búið að sanna óyggjandi, ef ekki má efast - þá ertu ekki lengur að tala um vísindi.

Þegar ég svo af tilviljun fór að lesa um vandræði Steven McIntyre við að fá upplýsingar frá hokkíkylfuhönnuðinum Michael Mann um gögn og aðferðir við rannsóknir sá ég að það voru langt í frá allir með sitt á hreinu sem stóðu á bak við þessar "viðurkenndu" niðurstöður um loftslagsmálin. Ég var nefnilega sjálfur að vinna að BS ritgerð á þessum tíma í efni tengdu gerð tölvulíkana og gagnatúlkunnar og þekkti því orðið nokkuð vel til hvernig slík líkön eru raunverulega smíðuð og ég gat engan veginn verið annað en sammála efasemdarmönnum nákvæmlega af þeirri ástæðu - tölvulíkönin sýna nefnilega ansi oft nákvæmlega þá niðurstöðu sem þú vilt fá og ef gögnin og aðferðin eru ekki aðgengileg er nánast öruggt að einhver maðkur er í mysunni.

Það sem svo endanlega gerði mig að efasemdarmanni var hinn svokallaði "peer-review process". Ég sá nefnilega að peer-review-ið í mínum geira er lítið annað en nafnið tómt og ég veit að sama er uppi á könnunni í ákveðnum hluta líffræðinnar. Oft á tíðum eru rannsóknir ekki endurteknar af öðrum vegna fáránlegrar kröfu sumra háskóla um að rannsóknir til sérstaklega masters gráða séu ekki endurtekningar af öðrum rannsóknum, slíkar rannsóknir eru síðan notaðar sem grunnur fyrir m.a. doktorsritgerðir en aldrei endurteknar, niðurstaðan aldrei dregin í efa.

Birting greinar Michael Mann um hokkíkylfuna féll einmitt í slíkan flokk, niðurstaðan var aldrei dregin í efa og rannsóknin aldrei endurtekin fyrr en Stephen McIntyre fór að reyna að endurtaka hana og þá kom í ljós að aðgengið að gögnunum (sem á að heita skilyrði fyrir birtingu í Science) var ekki til staðar, né heldur var til lýsing á því hvernig gögnin voru "lagfærð" né heldur hvernig niðurstöðurnar voru fengnar. Þegar svo McIntyre komst yfir allt sem til þurfti kom í ljós að gögnin sem notuð voru skiptu engu máli, gögn búin til af handahófi gáfu sömu niðurstöðu og gögnin sem Mann notaði. Ólíkt Mann birti McIntyre öll gögnin og allar aðferðirnar sem hann hafði fengið frá Mann og fleiri hafa endurtekið rannsóknir McIntyre og komist að sömu niðurstöðu.

Þegar grein Mann er svo notuð til grundvallar í amk fyrstu þremur útgáfum IPCC skýrslunnar er ekki bara eðlilegt heldur hreinlega nauðsynlegt að draga IPCC skýrsluna í efa.

Ofan á allt þetta eru síðan tölvulíkön notuð til að spá fyrir um hvernig heimurinn á að líta út eftir 50-100 ár og fólk hleypur eftir því eins og heilögum sannleik. Engu máli virðist skipta að ekki eitt einasta af þessum tölvulíkönum hefur getað spáð fyrir um loftslagsbreytingar sem þegar hafa orðið út frá þekktum aðstæðum.

Allt þetta gerir að verkum að ég get ekki samvisku minnar vegna verið annað en efasemdarmaður - en ég mun glaður gerast sanntrúaður um leið og tekst að sýna óyggjandi fram á samhengið. 

Gulli (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 08:05

11 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fyrst langar mig að þakka fyrir skilmerkilega athugasemd Gulli.

Það eru ýmsar hliðar á þessum málum, ég fer ekkert ofan af því. Það virðist vera í þínu tilfelli að þú hafir einhver rök sem þér þykir þess verð að viðhalda þínum efasemdum. Þ.e. einhverskonar reynsla sem gerði það að verkum að þú hefur ekki eins mikla trú á þessum vísindalegu ferlum og t.d. ég.

Það sem ég reyni að færa rök fyrir hjá mér er það, að með vísindalegum að ferðum nálgumst við einhvern "sannleik" sem hægt er að álykta út frá. Vísindin hafa einnig þann kost að þau leiðrétta sjálf sig ef upp koma nýjar rannsóknir sem benda til annars konar niðurstöðu en áður hefur þótt viðtekin. Núna eru flestir vísindamenn sem telja að þessi niðurstaða um áhrif gróðurhúsalofttegunda sé sú líklegasta. Þ.a.l. þykir mér slæmt að færa rök fyrir máli sínu á trúarlegan eða annan þann órökrænan hátt sem oft, því miður, virðist vera í umræðunni. 

Ég geri mér grein fyrir takmörkum vísindanna en á sama tíma þá geri ég mér grein fyrir því að rannsóknir benda til þess að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á hitastig. Það er í raun ekkert sem ég hef lesið, enn þá, sem hefur getað kollvarpað þessari kenningu. 

Svona fyrir forvitnissakir, þá langar mig að vita hverskonar sönnunargögn, myndu í þínum augum, sýna fram á óyggjandi samhengi aukningu gróðurhúsalofttegunda og hækkandi hitastigs? Og hversu mikla óvissu erum við að tala um í tilfelli af því að þú værir til í að gerast "sanntrúaður" (ekki það að þetta hafi neitt með trú að gera)?

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 09:27

12 Smámynd: Loftslag.is

Ég bara verð að skipta mér af, ég vona að Sveini sé sama.  Þetta verður eflaust langt svar.

Gulli:

Persónulega gerðist ég efasemdamaður einmitt út af fyrstu tveimur ástæðunum, mér fannst ansi margir vera orðnir yfirlýsingaglaðir um að "umræðan er búin", "allir eru sammála" og "þarf ekki að rannsaka frekar", þar á meðal vísindamenn sem tengdust IPCC.

Þessir tveir punktar eru góðir, en alls ekki ástæða til að efast. (1) Málið er að gögnin um hlýnun jarðar eru svo yfirgnæfandi og afleiðingarnar geta orðið það slæmar, að það er hvorki ástæða né tími til að efast. Það er nákvæmlega það sem "djöflarnir" (2 ) vilja.  Fyrir utan þá staðreynd að sífellt er að koma fram fleiri og fleiri vísbendingar um að "djöflarnir" hafi í raun og veru verið að draga lappirnar og tefja málið (sjá færslu mína um Ritskoðun).

Athugun á sögunni sýnir að þegar slíkar fullyrðingar fara að fljúga í vísindum þá eru menn annað hvort orðnir rökþrota eða farnir að hagræða rannsóknum til að fá þær niðurstöður sem menn gáfu sér áður en rannsóknirnar byrjuðu. Eins og þú segir sjálfur þá grundvallast vísindi á því að efast um allt sem ekki er búið að sanna óyggjandi, ef ekki má efast - þá ertu ekki lengur að tala um vísindi.

Þetta er frekar spurning með að tefja ekki aðgerðir með því að hlusta á rökleysur, heldur frekar að bregðast við vandanum meðan við getum mögulega gert eitthvað í því.  

Þegar ég svo af tilviljun fór að lesa um vandræði Steven McIntyre við að fá upplýsingar frá hokkíkylfuhönnuðinum Michael Mann um gögn og aðferðir við rannsóknir sá ég að það voru langt í frá allir með sitt á hreinu sem stóðu á bak við þessar "viðurkenndu" niðurstöður um loftslagsmálin. Ég var nefnilega sjálfur að vinna að BS ritgerð á þessum tíma í efni tengdu gerð tölvulíkana og gagnatúlkunnar og þekkti því orðið nokkuð vel til hvernig slík líkön eru raunverulega smíðuð og ég gat engan veginn verið annað en sammála efasemdarmönnum nákvæmlega af þeirri ástæðu - tölvulíkönin sýna nefnilega ansi oft nákvæmlega þá niðurstöðu sem þú vilt fá og ef gögnin og aðferðin eru ekki aðgengileg er nánast öruggt að einhver maðkur er í mysunni.

Ég skrifaði færsluna Hokkístafinn en þar kemur fram að vísindanefnd krafðist þess að Mann myndi endurtaka rannsóknina með breyttum forsendum (fleiri gögn og fleiri tölfræðiaðferðum), sem og hann gerði - nýja línuritið sem kom út staðfesti fyrri niðurstöður hans.

Það sem svo endanlega gerði mig að efasemdarmanni var hinn svokallaði "peer-review process". Ég sá nefnilega að peer-review-ið í mínum geira er lítið annað en nafnið tómt og ég veit að sama er uppi á könnunni í ákveðnum hluta líffræðinnar. Oft á tíðum eru rannsóknir ekki endurteknar af öðrum vegna fáránlegrar kröfu sumra háskóla um að rannsóknir til sérstaklega masters gráða séu ekki endurtekningar af öðrum rannsóknum, slíkar rannsóknir eru síðan notaðar sem grunnur fyrir m.a. doktorsritgerðir en aldrei endurteknar, niðurstaðan aldrei dregin í efa.

Grein efasemdamanna komst í gegnum þetta kerfi um daginn þrátt fyrir fáranlega vitlausa rannsókn og sjúklega rangar ályktanir (vísa aftur í færslu mína Ritskoðun), þannig að þetta kerfi er vissulega götótt, en það besta sem við höfum til að halda vísindaumræðunni gangandi.

Birting greinar Michael Mann um hokkíkylfuna féll einmitt í slíkan flokk, niðurstaðan var aldrei dregin í efa og rannsóknin aldrei endurtekin fyrr en Stephen McIntyre fór að reyna að endurtaka hana og þá kom í ljós að aðgengið að gögnunum (sem á að heita skilyrði fyrir birtingu í Science) var ekki til staðar, né heldur var til lýsing á því hvernig gögnin voru "lagfærð" né heldur hvernig niðurstöðurnar voru fengnar. Þegar svo McIntyre komst yfir allt sem til þurfti kom í ljós að gögnin sem notuð voru skiptu engu máli, gögn búin til af handahófi gáfu sömu niðurstöðu og gögnin sem Mann notaði. Ólíkt Mann birti McIntyre öll gögnin og allar aðferðirnar sem hann hafði fengið frá Mann og fleiri hafa endurtekið rannsóknir McIntyre og komist að sömu niðurstöðu.

Er það ekki rétt hjá mér að McIntyre birti aldrei greinar, heldur haldi eingöngu út heimasíðu - þannig að vilji hans til að stuðla að framgangi vísindanna er núll. Lítið mál væri fyrir hann, ef þetta væri eitthvað af viti hjá honum, að birta rannsóknir sínar í virtum tímaritum, en hann gerir það ekki. Hvers vegna?

Þegar grein Mann er svo notuð til grundvallar í amk fyrstu þremur útgáfum IPCC skýrslunnar er ekki bara eðlilegt heldur hreinlega nauðsynlegt að draga IPCC skýrsluna í efa.

Rangt: Ekki notað til grundvallar IPCC, þetta er bara ein af fjölmörgum rannsóknum sem notuð er. Hokkístafurinn lítur þó vel út á blaði og nú er búið að staðfesta hann með betri gögnum og fleiri tölfræðiaðferðum, þannig að ljóst er að nýja útgáfan á hokkístafnum verður áfram notuð - allavega meðan það eru bestu gögnin sem völ er á.

Ofan á allt þetta eru síðan tölvulíkön notuð til að spá fyrir um hvernig heimurinn á að líta út eftir 50-100 ár og fólk hleypur eftir því eins og heilögum sannleik. Engu máli virðist skipta að ekki eitt einasta af þessum tölvulíkönum hefur getað spáð fyrir um loftslagsbreytingar sem þegar hafa orðið út frá þekktum aðstæðum.

Skoðaðu línuritið neðst í færslunni: Hlýnun jarðar - gróðurhúsaáhrif og CO2. Kenningin. 

Allt þetta gerir að verkum að ég get ekki samvisku minnar vegna verið annað en efasemdarmaður - en ég mun glaður gerast sanntrúaður um leið og tekst að sýna óyggjandi fram á samhengið.

Sveinn var búinn að sýna fram á með góðum rökum að þetta væru ekki trúarbrögð - er það ekki einkenni þeirra sem aðhyllast trúarbrögð að hlusta ekki á rök?

Loftslag.is, 21.8.2009 kl. 09:28

13 identicon

Bara snöggt svar, svara ykkur báðum betur í kvöld. Vinnuveitandinn er líklega ekki sáttur við að ég sitji of mikið við svona skrif!

Orðið sanntrúaður átti auðvitað að vera innan gæsalappa, sé að ég hef klikkað á því. Væri frekar aumt að segjast ekki vera að halda því fram að þetta séu trúarbrögð og vilja svo verða sanntrúaður sjálfur :)

Gulli (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband