20.8.2009 | 20:10
Loftslagsbreytingar - Efasemdir eða afneitun
Það er gott að velta hlutunum fyrir sér og spyrja sig gagnrýnina spurninga um lífið og tilveruna. Þannig höfum við mannfólkið oft komist að mörgum helstu leyndardómum lífsins. Þar má nefna þær staðreyndir að jörðin er ekki flöt, lögmál Newtons um þyngdaraflið og þróunarkenningu Darwins svo eitthvað sé nefnt. Þessum spurningum var svarað vegna þess að viðkomandi einstaklingar höfðu efasemdir um það skipulag sem fyrir var og komust að því að hlutunum var öðruvísi fyrirkomið en fyrirliggjandi hugmyndir kváðu á um. Þetta er ágætt dæmi um efasemdir sem koma af stað framförum og verða til þess að frekari vitneskja verður aðgengileg. Efasemdir eiga því fullkomin rétt á sér og hafa leitt til mikilla framfar í gegnum tíðina.
Af hverju er ég svo að velta þessu fyrir mér. Jú það er hárfín lína á milli þess að vera með efasemdir eða að vera í afneitun, t.d. hvað varðar loftslagsmál og hlýnun jarðar. Það dylst engum sem það vill vita að hitastig jarðar hefur hækkað undanfarna áratugi. Það er svo komið í dag að vísindamenn sem rannsaka þessi mál hafa gefið það út að "mjög miklar líkur" (sem á vísindamáli þýðir að líkurnar eru yfir 90%) séu á því að þessi hækkun hitastigs undanfarna áratugi sé til komin vegna losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið af mannavöldum. Þessi losun hefur gert það að verkum að styrkur koldíoxíðs (sem er ein aðal gróðurhúsalofttegundin) hefur hækkað úr u.þ.b. 280 ppm (parts per million) fyrir iðnvæðingu upp í um 387 ppm í dag. Þetta er um 38% aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu, þetta er fyrir utan aukningu styrks á öðrum gróðurhúsalofttegundum.
Þrátt fyrir þessi varnaðarorð vísindamanna sem út frá bestu rannsóknum dagsins í dag álykta svo, þá eru ýmsir sem í nafni efasemda vilja gera lítið úr þessari vá. Þeir telja að aðrir þættir valdi og halda því fram að vísindamenn sem rannsaka þessi mál mest, viti ekki sínu viti. Helstu rök þessara efasemdarmanna eru m.a., svo fátt eitt sé nefnt, að sólin sé aðalorsakavaldurinn, að loftslag hafi breyst áður (þ.a.l. sé þetta náttúrulegur ferill), að vísindamenn séu almennt ekki sammála og að hitastig fari ekki hækkandi. Þessi rök gera m.a. ráð fyrir því að vísindamenn sem rannsaka þessi mál séu ósammála, að rannsóknargögn séu ekki marktæk og/eða að þeir hafi ekki rannsakað málið nógu vel. Efasemdarfólk, sem heldur þessu fram, telur sig svo stundum hafa svörin á reiðum höndum, stundum út frá litlum gögnum. Stundum er talað um samsæri, sem gengur út á að vísndamenn hafi ákveðið að upphefja þetta vandamál til að fá vinnu og þar með peninga. En nóg um það, samsæriskenningar verða alltaf til. Spurning mín er hvort að það sé kannski of jákvætt að kalla svona efasemdarfólk því fína nafni eða hvort að afneitunarsinni væri hugsanlega réttara? Lítum á hvaða skilgreiningar er hægt að koma með fyrir þessi tvö hugtök.
Efasemdir: Er ákveðin tilhneyging til tortryggni eða efasemda gagnvart ákveðnu efni almennt eða ákveðnum hluta þess. Efasemdir eru byggðar á rökréttum, vitsmunalegum aðferðum sem innihalda gagnrýna greiningu á staðreyndum. Orsök efasemda er byggð á aðferðum sem byggja á rökum og tilgátum.
Afneitun: Aðferðir við afneitun geta verið margskonar. Þær byggja á ýmsum aðferðum sem eiga það sammerkt að sýna fram á ákveðin sjónarmið. Þær aðferðir geta m.a. verið; að segja að um samsæri sé að ræða, að velja gögn sem sýna fram á eigin sjónarmið (cherry-picking), notaðir eru óekta sérfræðingar, breyting viðmiða svo ómögulegt er að standast þau og/eða að notaðar eru almennar rökvillur.
Efasemdarfólk á afneitunarstigi vill oft gera lítið úr loftslagsvandanum og vilja bíða og sjá hvað gerist á næstu árum og áratugum þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna. Þegar þetta er gert með rökum sem minna á þau sem að ofan eru talin (afneitunarhlutanum), þá er hægt að færa rök fyrir því að kalla það afneitun á vísindunum. Það að gera ekkert við loftslagsvandanum er alvarleg mál sem hver og einn verður að taka upp við samvisku sína. Við höfum bara eina jörð og við getum ekki ýtt á [cancel] og byrjað upp á nýtt síðar. Þ.a.l. er mikilvægt að við tökum mark á þeirri þekkingu sem vísindamenn hafa upp á að bjóða í dag og tökum höndum saman og leysum vandamálin í sameiningu. Vísindamenn telja að við höfum enn tíma upp á að hlaupa áður en of seint verður að grípa í taumana. Það er því mikilvægt að við reynum að finna lausnir og tökum höndum saman í þá veru að leysa vandann, því fyrr því betra. Látum því ekki afneitunarsinna stjórna umræðunni, veljum frekar að hlusta á þá sem hafa mesta þekkingu á málunum í dag.
Þetta var þriðja og síðasta færslan í röð pistla um loftslagsbreytingar á þessum nótum. Hérundir eru fyrri tvær færslurnar:
Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð
Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá
Höfin hafa aldrei verið heitari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Heimspeki, Loftslagsmál | Breytt s.d. kl. 20:19 | Facebook
Athugasemdir
Góðar þrjár færslur.
Ég held að einhverjir (sem hafa ekki kynnt sér málið til hlítar) geti á raunsannan hátt sagst efast um hlýnun jarðar af mannavöldum, en að þeir taki sénsinn á því að mikill meirihluti vísindamanna hafi rangt fyrir sér er glórulaust (og vissulega hálfgerð afneitun).
Loftslag.is, 20.8.2009 kl. 21:49
Semsagt þeir vísindamenn sem ekki eru sammála ykkur hafa ekki kynnt sér málið til hlítar?
Og eigum við semsagt ekki að taka sénsinn á að "meirihluti" vísindamanna hafi rangt fyrir sér og þess vegna standa eða sitjaeins og þeir segja? Hvað ætli ég gæti búið til langan lista um það sem "meirihluti" vísindamanna hefur haft rangt fyrir sér með gegnum tíðina?
Einnig er gott að spyrja þess hvað gerðist milli 1998 og 2009 hversvegna hélt hitastigsbreytingin ekki áfram línulega í samræmi við útblástur? þetta eru ellefu ár eða rúm 8% af þeim tíma sem mælingarnar hafi staðið yfir í.
Björn Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 05:03
Þetta er tóm vitleysa. Í fyrsta lagi er rangt að höfin hafi hitnað undanfarið, þau hafa einmitt kólnað lítilsháttar, sem og andrúmsloftið. Í öðru lagi er koldíoxíð langt frá því að vera "ein aðal gróðurhúsalofttegundin". Bæði vatnsgufur og metan eru margfalt öflugri.
Í fréttinni er talað um El Ninjo sem orsakavald, sem er skrítið þar sem hann er ekki í hámarki núna og nýlega drógu vísindamenn úr, varðandi fellibyljaspár á N-Atlantshafinu, einmitt vegna þess að sjórinn er kaldari en reiknað var með.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 10:57
Gunnar:
Hér er mín túlkun á þinni afneitun:
Það er alls ekki rangt. Síðastliðni júlí var sjávarhiti hæstur (miðað við fyrri gögn um júli) frá því að mælingar hófust. Þau hafa því langt í frá kólnað. Einnig ferðu með rangt mál varðandi lofthita: Sveinn tók saman færslu með heitustu lofthitatölum frá því mælingar hófust (sjá Heitustu ár í heiminum frá 1880) en þar segir: "Það er athyglisvert að athuga hvaða ár eru heitust í heiminum frá 1880. Í þeim tölum eru á topp 10, öll árin frá því eftir aldamót (2000), árin 1997 og 1998 komast einnig á topp 10."
Jú CO2 er ein aðal gróðurhúsalofttegundin. Rétt er að vatnsgufur og metan eru mikilvirk við að auka hlýnunina, en vatnsgufur eru að aukast vegna hlýnun af völdum meðal annars CO2 (af mannavöldum). Metan er mun öflugra en í mun minna magni í andrúmsloftinu en CO2 og er það vilji vísindamanna að dregið verði einnig úr þeirri losun (t.d. hafa kínverjar verið að vinna í því að draga úr metanlosun við framleiðslu hrísgrjóna). Aftur á móti hefur hlýnunin nú þegar valdið því að vatnsgufa eykst í andrúmsloftinu og talið er líklegt að metan fari að losna í auknu magni á norðurslóðum af völdum hlýnunar. Þetta veldur því að við hlýnunina þá aukast aðrar gróðurhúsalofttegundir (vatnsgufa og metan) sem eykur á hlýnunina með mögulega mjög slæmum afleiðingum.
El Ninjo er byrjaður og við hann aukast háloftavindar í Atlantshafi - sem vinnur á móti því að fellibylir myndist. Sjórinn er ekki kaldari en reiknað er með.
Loftslag.is, 21.8.2009 kl. 11:20
Gunnar, hafið hefur ekki verið heitara frá því mælingar hófust. Það er staðreynd sem ekki verður hægt að feykja af borðinu með svona rökleysu sem ekki er fylgt með neinum gögnum.
Þegar talað er um aðal gróðurhúsalofttegundina, þá er einmitt verið að tala um þá lofttegund sem hefur mest áhrif, miðað við það magn og heildaráhrif lofttegundarinnar. Það er það mikið meira magn af koldíoxíði í andrúmsloftinu en metani, ergo meiri áhrif. Ég er ekki að ræða sérstaklega um vatnsgufur hér en ég geri mér grein fyrir að þær hafi áhrif, sjá t.d. þennan pistil hjá Höskuldi, þar sem aðeins er komið inn á þann þátt.
El Nino er ekki orsakavaldur þeirrar hækkunar á hitastigi sem fram hefur komið undanfarin ár og áratugi, heldur er hann einn af þeim þáttum sem hefur magnandi svörun (e. positive feedback) í átt til hærra hitastigs, þegar hann er í gangi. El Nino fyrirbærið er einmitt í gangi núna, sjá þessa færslu mína.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 11:24
Athugasemd: Hafið hefur ekki verið heitara í júlí, síðan mælingar hófust, það er staðreynd miðað við þau gögn sem fyrir liggja.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 11:26
Sjá HÉR :
"Það hefur því komið vísindamönnum verulega á óvart að síðastliðin 5 ár hafa baujurnar ekki mælt neina hlýnun, heldur örlitla kónun. Sjálfsagt mæla þær hlýnun á sumum svæðum en kólnun á öðrum, en það er meðaltalið sem gildir. Eingöngu með miklum fjölda mælitækja er hægt að ffá nákvæma mynd af því sem er að gerast, en þannig er einmitt þetta kerfi."
(Ágúst H. Bjarnason, 22.3.08)
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 11:39
Gunnar: Samt gefur NOAA út að sjávarhitann í júlí hafi verið sá hæsti frá því mælingar hófust. NOAA hefur mælt (og haldið utan um) sjávarhitastigið síðan 1880.
Þessar mælingar sem Ágúst vitnar í, mælingar sem hafa verið gerðar frá 2003, s.s. í fimm ár (þegar greinin var gerð í maí á síðasta ári), eru áhugaverðar, en segja ekki mikið um hækkun hitastigs sjávar til lengri tíma.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 12:23
Gunnar:
Í fyrsta lagi þá hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að þessar nýju baujur séu að sýna kólnun - aðrar baujur sýndu á sama tíma að sjórinn væri að hlýna lítillega eða standa í stað:
Gráa línuritið er það sem þú ert að vísa í Willis 2008, en svarta línuritið sýnir aðre nýja rannsókn Leuliette 2009 .
Í öðru lagi þá var La Nina á fullu þegar Ágúst sagði þetta (með viðeigandi lækkun hitastigs í Kyrrahafinu sem hefur áhrif á meðaltalið hnattrænt).
Í þriðja lagi þá er hitinn núna að hækka í sjónum (sjá http://www.noaanews.noaa.gov/stories2009/20090814_julyglobalstats.html)
Í fjórða lagi, þá segir svona stuttur tími lítið um hvað sé að gerast í sjónum, hér er lengri tími:
Loftslag.is, 21.8.2009 kl. 12:24
Fyrirgefðu Sveinn, ég er alltaf að trana mig fram hérna
Loftslag.is, 21.8.2009 kl. 12:26
Jahá.... svo nú geta menn valið úr baujur sem sýna það hitastig sem hæfir trúnni?!!
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 12:53
...að sjálfsögðu völdu þeir baujurnar úr, bara þær sem sýna hækkandi hita að sjálfsögðu...
Að allri kaldhæðni slepptri, þá er það ekki svo að NOAA velji út baujur sem sýna hitastig, sem passa inn í einhverja pólítík...þetta eru rannsóknir gerðar á vísindalegum grundvelli og hafa ekkert með "trú" að gera.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 13:04
En það virðist hægt að sópa þeim mælingum sem ég bendi á, út af borðinu af því þær sýna bara 5 ára tímabil og samræmast ekki "trúnni".
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 13:11
Gunnar þetta er ekki svara vert, í ljósi þess sem búið er að svara áður. Það er búið að benda á flest allt sem hægt er að benda á varðandi þínar athugasemdir hér að ofan og þar fyrir utan hefur þetta, eins og áður hefur komið fram, ekkert með "trú" að gera.
Hafðu góða helgi
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 13:19
Björn:
Það er engin að segja að vísindamenn sem séu ekki sammála "okkur" hafi ekki kynnt sér málið til hlítar. Það er einfaldlega svo margt sem bendir til þess að þessi hækkun hitastigs sé af völdum aukins styrks gróðurhúsalofttegunda (þ.a.l. hafa vísindamenn leyft sér að koma með stór orð varðandi vandamálið). Ég hef skoðað mikinn fjölda tilfella þar sem koma fram aðrar kenningar og reynt að lesa mér til um þær með opnum huga. Það koma þó yfirleitt upp á borðið einhver rök sem mæla gegn því sú kenning sé jafn drífandi (ef nokkuð) til hækkunar hitastigs og viðkomandi rannsókn upphaflega gefur til kynna. Mér þætti ekkert betra en fram komi einhverjar sannanir sem sýndu fram á að aukning gróðurhúsalofttegunda hefðu ekki áhrif á hitastig. Ég hugsa að það sama megi segja um þá vísindamenn sem vinna í rannsóknum um málið.
"Og eigum við semsagt ekki að taka sénsinn á að "meirihluti" vísindamanna hafi rangt fyrir sér og þess vegna standa eða sitjaeins og þeir segja? Hvað ætli ég gæti búið til langan lista um það sem "meirihluti" vísindamanna hefur haft rangt fyrir sér með gegnum tíðina?"
Ég spyr á móti, viltu s.s. ekki taka "sénsinn" á að þeir geti haft rétt fyrir sér, með öllum þeim afleiðingum sem það kann að hafa í framtíðinni, þær afleiðingar verða ekki minni við það að gera ekkert í málunum og hlusta ekki á þá sem vita best miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag?
"Einnig er gott að spyrja þess hvað gerðist milli 1998 og 2009 hversvegna hélt hitastigsbreytingin ekki áfram línulega í samræmi við útblástur? þetta eru ellefu ár eða rúm 8% af þeim tíma sem mælingarnar hafi staðið yfir í."
Þessi mynd hérundir sýnir að hitastig fer hækkandi, þó það hækki ekki alltaf með jöfnum hraða, þá er ferillinn greinilega á leið upp. Það sést á þessum ferli að hitastig jarðar hækkar (eða lækkar) ekki með jöfnum hraða heldur er alþekkt að það geta komið tímabil með þar sem "trendinu" er ekki fylgt alveg, enda erum við að tala um mjög flókið kerfi sem hefur marga áhrifavalda, til að mynda sólina, El Nino og La Nina, svo eitthvað sé nefnt til sögunar.
Sveinn Atli Gunnarsson, 22.8.2009 kl. 14:50
Þetta línurit segir okkur lítið Afhverju sýnirðu ekki gervihnattamælingar á lofthita sl. 30 ár? Ég veit þú hefur skoðað þetta, sjá HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2009 kl. 15:05
Gunnar; vegna þess að línuritið sem þú vitnar til sýnir ekki hitastig við yfirborð jarðar heldur hærra uppi, eða í kringum efra veðrahvolf og heiðhvolfið. Myndin sem ég vitna til er einmitt hitabreytingin við yfirborð jarðar (bæði yfir hafi og landi). Samkvæmt kenningunni um hækkun hitastigs jarðar vegna aukningar gróðurhúsalofttegunda, þá verða ekki sömu breytingar á hitastigi við yfirborð jarðar og hærra uppi. Þ.a.l. tel ég ekki að þessi mynd sem þú vitnar til hafi mikið vægi í þessari umræðu hér. Einnig vil benda á ýmis svör sem koma í athugasemdakerfin hjá Ágústi varðandi færsluna, þá sérstaklega frá Sápuboxinu.
Sveinn Atli Gunnarsson, 22.8.2009 kl. 15:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.