Færsluflokkur: Vísindi og fræði
18.10.2009 | 20:03
Er loftslagsvandinn tabú?
Ég hef verið að velta því fyrir mér að undanförnu hvort umræðan um loftslagsvandann sé tabú. Á Loftslag.is höfum við í ritstjórninni haft þá stefnu að skrifa um það sem vísindin hafa að segja um loftslagsmálin. Þ.e. að koma inn á rökin, rannsóknirnar og fræðin. Viðtökurnar hafa almennt verið góðar. Efninu er raðað í ákveðna flokka, í hliðarstikunni til hægri eru fastar síður þar sem reynt að koma inn á vísindin á bak við fræðin og svo eru fréttir, blogg, gestapistlar og svokallað heitt efni í tenglunum hér að ofan.
Mitt persónulega mat er það, að það séu verulegar líkur á því að gróðurhúsalofttegundir og magn þeirra í lofthjúpnum hafi bein áhrif á hitastig jarðar, það er það sem vísindin segja okkur í dag. Hversu mikið, er ákveðinni óvissu háð, þ.a.l. eru t.d. ekki allar spár um hækkun hitastigs eins. Einnig koma þarna inn náttúrulegar sveiflur jarðar sem hafa áhrif á hitastig jarðar nú eins og alltaf. Þessar náttúrulegu sveiflur hafa þau áhrif að bæði getur hitastig hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir eða jafnvel lækkað tímabundið.
Umræða um þessi mál er frekar undarleg á köflum. Umræðan virðist stundum fara út í skotgrafahernað tveggja öfgasjónarmiða, þ.e. þeirra sem telja að heimurinn sé að farast og þeirra sem ekkert vilja gera. Þarna á milli eru svo mörg litbrigði skoðana. Nú vil ég gjarnan taka það fram að ég tilheyri hvorugum öfgahópnum, en tel vandann vera til staðar og tel að við honum verði að bregðast. Persónulega tel ég að hægt sé, með hjálp tækni og með breyttum viðhorfum, að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef meira þarf til, þá þarf að fara fram pólítísk umræða um hvernig skuli ná þeim markmiðum, sú umræða fer m.a. fram í Kaupmannahöfn í desember, þar sem fulltrúar 192 landa koma saman og ræða málin.
Nú langar mig að fara í smá þankatilraun, þar sem ég bið lesendur um að hugsa sem svo, "Loftslagsvandi af mannavöldum er raunverulegur". Þessi tilraun gengur út á að hugsa sem svo, hvað ef vísindamenn þeir sem rannsaka þessi mál mest hafa rétt fyrir sér? Við þessa tilraun verða til nokkrar spurningar sem vert er að skoða nánar.
- Eigum við að hafa áhrif á framtíðina og ræða loftslagsmálin opinskátt?
- Er það skylda okkar að finna lausnir?
- Hvar viljum við setja markið fyrir því að þetta sé í raunverulegur vandi, er það við 0,5°C eða 2°C hækkun hitastigs, eða einhver önnur tala?
- Ef hitastig hækkar lítillega, miðað við einhverjar forsendur, stendur okkur þá á sama?
- Hvenær verður vandinn raunverulegur samkvæmt því (3. og 4. spurning)?
- Hvað ef það kemur í ljós eftir 50 ár að þetta hafi verið minni vandi en hugsanlega er talið líklegt í dag, ætti sá möguleiki að hafa áhrif á umræðuna í dag, sem ætti að vera út frá bestu fáanlegum upplýsingum dagsins í dag?
- Eigum við að ræða hugsanlegar óþægilegar afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum?
- Á loftslagsumræða á pólítískum nótum rétt á sér?
- Hvernig munu lífskilyrði þróast um allan heim ef við tökum á vandanum?
- Ef vandinn er raunverulegur, hversu langt á þá að ganga í því að gera athugasemdir við umfjöllun sem gerir annaðhvort lítið úr vandanum eða telur hann ekki fyrir hendi?
Þetta eru spurningar sem mig langar að biðja ykkur kæru lesendur, að velta fyrir ykkur. Persónulega hef ég ekki ákveðin svör við öllum atriðunum. Röð spurninga er ekki vegna vægis heldur að handahófi. Fróðlegt væri ef lesendur vildu taka þátt í þessari þankatilraun, með því að svara einni eða fleiri spurningum. Þessi mál mega að mínu viti ekki verða að tabú.
---
---
Athugasemdir sem komnar eru, Loftslag.is:
Gulli
Þessi mál eru orðin "tabú" vegna þess að það má ekki efast um þau - flestir eru hættir að nenna að reyna að ræða þau vegna þess að þetta eru eins og trúmál, ef þú ekki fylgir rétttrúnaðarbókinni þá er allt sem þú segir bull, vitleysa og borgað af olíufélögunum.
Á þann hátt eru "málin útrædd" og "engin vafi lengur" - enginn sem ekki er sammála fær að tjá sig án þess að fá yfir sig staðlaða skítkastið um olíufélögin.
Sveinn Atli
Þetta er svo sem einn vinkill málsins Gulli, það er sanngjarnt að nefna hann þó það sé ekki hluti þankatilraunarinnar. Þó má setja spurningamerki við það að blanda trú í vísindi, samanber þessa færslu: http://www.loftslag.is/?page_id=1313
Persónulega finnst mér lítill vafi á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi áhrifa á hitastig, þá er spurningin sem eftir situr um óvissuna í spánum og hvenær teljum við um vanda að ræða. Það er meira hugsunin á bak við þessa færslu.
En við getum bætt við spurningu: 11. Er slæmt fyrir umræðuna að vísindamenn og aðilar eins og t.d. olíufélög og önnur hagsmunasamtök taki þátt í henni og hafi skoðun á málunum?
Vísindi og fræði | Breytt 19.10.2009 kl. 14:20 | Slóð | Facebook
16.9.2009 | 22:21
Loftslag.is - Magnandi svörun (e. positive feedback)
Magnandi svörun (e. positive feedback) er hugtak sem er frekar mikið notað í loftslagsfræðum. Þar er átt við ferli þar sem afleiðingin magnar upp orsökina og veldur keðjuverkun með hugsanlega slæmum stigvaxandi áhrifum. Á hinn bóginn getur afleiðing myndað mótvægis svörun (e. negative feedback) á móti orsökinni og dregið úr henni.
Magnandi svörun
Við hlýnun jarðar eru ýmis ferli sem valda magnandi svörun. Við hlýnun eykst t.d. raki eða vatnsgufa í andrúmsloftinu og þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund þá magnar það hlýnunina upp....
---
Lesa má nánar um magnandi svörun á vefsíðunni loftslag.is, sem opnar formlega laugardaginn 19. september.
Ég vil einnig minna á Facebook síðu Loftslag.is fyrir Facebook notendur.
10.9.2009 | 16:10
Loftslag.is - Spurningar og svör
Vísindi og fræði | Breytt 12.9.2009 kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
6.9.2009 | 22:17
Ný heimasíða - Loftslag.is
Þann 19. september mun opna formlega ný heimasíða á vefslóðinni loftslag.is. Þetta er vefsíða sem ætlað er að verða upplýsingaveita um loftslagsmál á íslensku. Fréttir er varða loftslagmál munu fá sitt pláss á síðunni ásamt bloggi frá ritstjórn. Einnig höfum við áhuga á að sækja í brunn gesta sem þekkja þessi fræði vel og birta gestapistla um þessi mál. Á síðunum verða einnig upplýsingar um vísindin, þ.e. fastar síður þar sem hægt verður að lesa um ýmsar staðreyndir um loftslagsmál.
Ritstjórn vefsíðunnar Loftslag.is skipa Höskuldur Búi Jónsson og sá sem hér skrifar, Sveinn Atli Gunnarsson.
Vonumst við eftir að geta komið á fót öflugum vefmiðli með nýjustu fréttir og ýmsar upplýsingar um loftslagsmál. Síðan hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið nú og áfram á eftir að fínpússa síðuna fram að opnun. Nú þegar er hægt að skoða föstu síðurnar um vísindalegu hliðina, en þess ber að geta að þær síður eru enn í vinnslu og eru sumarhverjar ókláraðar.
29.8.2009 | 09:40
Hluti af lausninni
Hér ætla ég ekki að taka sérstaka afstöðu til þessara ákveðnu leiða sem talað er um í fréttinni. Þessi vísindi munu að öllum líkindum vera hluti af þeirri lausn að halda hækkun hitastis undir 2°C. Þetta mark er mikið notað sem viðmið þess hita sem við viljum gjarnan halda okkur undir eins og fram kemur í fréttinni. Ýmsar aðferðir jarðverkfræða (eða loftslagsverkfræða eins og ég vil kalla þau) munu hugsanlega verða til þess að halda okkur undir yfir 2°C markinu. Þar sem það virðist vera erfitt að komast að pólítísku samkomulagi um að minnka losun koldíoxíðs nóg til að ná markinu, þá þarf samhliða að leita annarra leiða. Það eru þó fleiri þættir sem þarf að huga að, m.a. súrnun sjávar sem er önnur hlið á aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Að mínu mati getur loftslagsverkfræðin ekki orðið nema hluti heildarlausnarinnar, þar sem fyrst og fremst þarf að leita lausna til að minnka losun koldíoxíðs.
---
[31.8 - Leiðrétting í teksta]
Gervitré til að gleypa koltvísýring | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 31.8.2009 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.8.2009 | 19:26
Myndband frá NASA um loftslagsbreytingar og býflugur
Hérundir er myndband um breytingar á tímasetningu á frævun blóma og hvaða áhrif það hefur á býflugur og líf þeirra. Samkvæmt upplýsingum úr gervihnöttum þá hefst vorið í norðurhluta Bandaríkjanna hálfum degi fyrr á hverju ári vegna loftslagsbreytinga. Í myndbandinu er komið inn á þann möguleika að blómin og býflugurnar geti farið úr takti hvort við annað, ef frævun blóma færist til vegna loftslagsbreytinga.
20.8.2009 | 20:10
Loftslagsbreytingar - Efasemdir eða afneitun
Það er gott að velta hlutunum fyrir sér og spyrja sig gagnrýnina spurninga um lífið og tilveruna. Þannig höfum við mannfólkið oft komist að mörgum helstu leyndardómum lífsins. Þar má nefna þær staðreyndir að jörðin er ekki flöt, lögmál Newtons um þyngdaraflið og þróunarkenningu Darwins svo eitthvað sé nefnt. Þessum spurningum var svarað vegna þess að viðkomandi einstaklingar höfðu efasemdir um það skipulag sem fyrir var og komust að því að hlutunum var öðruvísi fyrirkomið en fyrirliggjandi hugmyndir kváðu á um. Þetta er ágætt dæmi um efasemdir sem koma af stað framförum og verða til þess að frekari vitneskja verður aðgengileg. Efasemdir eiga því fullkomin rétt á sér og hafa leitt til mikilla framfar í gegnum tíðina.
Af hverju er ég svo að velta þessu fyrir mér. Jú það er hárfín lína á milli þess að vera með efasemdir eða að vera í afneitun, t.d. hvað varðar loftslagsmál og hlýnun jarðar. Það dylst engum sem það vill vita að hitastig jarðar hefur hækkað undanfarna áratugi. Það er svo komið í dag að vísindamenn sem rannsaka þessi mál hafa gefið það út að "mjög miklar líkur" (sem á vísindamáli þýðir að líkurnar eru yfir 90%) séu á því að þessi hækkun hitastigs undanfarna áratugi sé til komin vegna losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið af mannavöldum. Þessi losun hefur gert það að verkum að styrkur koldíoxíðs (sem er ein aðal gróðurhúsalofttegundin) hefur hækkað úr u.þ.b. 280 ppm (parts per million) fyrir iðnvæðingu upp í um 387 ppm í dag. Þetta er um 38% aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu, þetta er fyrir utan aukningu styrks á öðrum gróðurhúsalofttegundum.
Þrátt fyrir þessi varnaðarorð vísindamanna sem út frá bestu rannsóknum dagsins í dag álykta svo, þá eru ýmsir sem í nafni efasemda vilja gera lítið úr þessari vá. Þeir telja að aðrir þættir valdi og halda því fram að vísindamenn sem rannsaka þessi mál mest, viti ekki sínu viti. Helstu rök þessara efasemdarmanna eru m.a., svo fátt eitt sé nefnt, að sólin sé aðalorsakavaldurinn, að loftslag hafi breyst áður (þ.a.l. sé þetta náttúrulegur ferill), að vísindamenn séu almennt ekki sammála og að hitastig fari ekki hækkandi. Þessi rök gera m.a. ráð fyrir því að vísindamenn sem rannsaka þessi mál séu ósammála, að rannsóknargögn séu ekki marktæk og/eða að þeir hafi ekki rannsakað málið nógu vel. Efasemdarfólk, sem heldur þessu fram, telur sig svo stundum hafa svörin á reiðum höndum, stundum út frá litlum gögnum. Stundum er talað um samsæri, sem gengur út á að vísndamenn hafi ákveðið að upphefja þetta vandamál til að fá vinnu og þar með peninga. En nóg um það, samsæriskenningar verða alltaf til. Spurning mín er hvort að það sé kannski of jákvætt að kalla svona efasemdarfólk því fína nafni eða hvort að afneitunarsinni væri hugsanlega réttara? Lítum á hvaða skilgreiningar er hægt að koma með fyrir þessi tvö hugtök.
Efasemdir: Er ákveðin tilhneyging til tortryggni eða efasemda gagnvart ákveðnu efni almennt eða ákveðnum hluta þess. Efasemdir eru byggðar á rökréttum, vitsmunalegum aðferðum sem innihalda gagnrýna greiningu á staðreyndum. Orsök efasemda er byggð á aðferðum sem byggja á rökum og tilgátum.
Afneitun: Aðferðir við afneitun geta verið margskonar. Þær byggja á ýmsum aðferðum sem eiga það sammerkt að sýna fram á ákveðin sjónarmið. Þær aðferðir geta m.a. verið; að segja að um samsæri sé að ræða, að velja gögn sem sýna fram á eigin sjónarmið (cherry-picking), notaðir eru óekta sérfræðingar, breyting viðmiða svo ómögulegt er að standast þau og/eða að notaðar eru almennar rökvillur.
Efasemdarfólk á afneitunarstigi vill oft gera lítið úr loftslagsvandanum og vilja bíða og sjá hvað gerist á næstu árum og áratugum þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna. Þegar þetta er gert með rökum sem minna á þau sem að ofan eru talin (afneitunarhlutanum), þá er hægt að færa rök fyrir því að kalla það afneitun á vísindunum. Það að gera ekkert við loftslagsvandanum er alvarleg mál sem hver og einn verður að taka upp við samvisku sína. Við höfum bara eina jörð og við getum ekki ýtt á [cancel] og byrjað upp á nýtt síðar. Þ.a.l. er mikilvægt að við tökum mark á þeirri þekkingu sem vísindamenn hafa upp á að bjóða í dag og tökum höndum saman og leysum vandamálin í sameiningu. Vísindamenn telja að við höfum enn tíma upp á að hlaupa áður en of seint verður að grípa í taumana. Það er því mikilvægt að við reynum að finna lausnir og tökum höndum saman í þá veru að leysa vandann, því fyrr því betra. Látum því ekki afneitunarsinna stjórna umræðunni, veljum frekar að hlusta á þá sem hafa mesta þekkingu á málunum í dag.
Þetta var þriðja og síðasta færslan í röð pistla um loftslagsbreytingar á þessum nótum. Hérundir eru fyrri tvær færslurnar:
Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð
Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá
Höfin hafa aldrei verið heitari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
18.8.2009 | 12:42
Smá loftslagshúmor
13.8.2009 | 14:40
Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá
Hvað hafa hugtökin raunsæi og hrakspá með loftslagsbreytingar að gera. Jú það er til fólk sem heldur því fram að stór hluti umræðu um hækkun hitastigs af völdum gróðurhúsalofttegunda sé einhverskonar hrakspá. Þessi hrakspá er að þeirra mati gerð til að sýna fram á að vandamálið sé stærra en það er í raun og gerðar af svokölluðum hrakspámönnum (e. alarmist). Þ.a.l. er ákveðin tilfinning hjá þessum einstaklingum að lausnirnar séu úr samræmi við vandann. Lítum á hvað hrakspá er; Hrakspá er spá um hrakfarir eða illspá um einhverjar ófarir.
En er eitthvað til í því að umfjöllun um loftslagsbreytingar af mannavöldum séu hrakspár án alls raunsæis? Raunsæi er það að vera raunsær og líta á eitthvað eins og það er í raun og veru, hlutlægni í hugsun og athöfnum. Er hægt að tala um raunsæi eða hrakspá um loftslagsmál. Hugsanlega getum við litið á vísindalegar aðferðir og vísindin sjálf í leit að svari.
Vísindamenn beita vísindalegum aðferðum til að fá fram niðurstöður sínar. Þessar aðferðir eru að sjálfsögðu ekki óbrigðular, en þær hafa ýmsa kosti. Vísindalegar aðferðir: "aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum."
Það er því hægt segja að þær niðurstöður sem vísindamenn fá með þessum aðferðum, séu niðurstöður sem hægt er að sannreyna með því að endurtaka rannsóknirnar. Það þýðir að ef það er eitthvað óhreint í pokahorninu þá kemst það upp um síðir. Í ýmsum fræðigreinum er erfiðara að sýna fram á nákvæmar niðurstöður, þ.a.l. nota vísindamenn oft líkindi til að lýsa niðurstöðum. Til dæmis þá hafa vísindamenn í loftslagsmálum komið fram með að "mjög miklar líkur" séu á því að sú hækkun hitastigs sem orðið hefur á síðustu árum og áratugum sé vegna aukningar á styrk gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Þetta orðalag vísindamanna "mjög miklar líkur", er það sama og segja að það séu yfir 90% líkur á að þessu sé svo fyrirkomið. Þetta álykta vísindamenn út frá niðurstöðum sem fengust með því að nota vísindalegar aðferðir.
Þetta er því raunsætt mat vísindamanna á stöðunni út frá þeim upplýsingum sem þeir hafa í dag. Út frá þessu mati er raunhæft að áætla að ef styrkur gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast þá muni hitastigið halda áfram að hækka. Hækkun hitastigs á svo stuttum tíma sem við erum að upplifa núna getur reynt á þolrif ýmissa jarðsvæða og dýrategunda í heiminum. Það er hin hugsanlega framtíðarsýn sem sumar vilja ekki sjá í augu og kalla hrakspá. Þetta kalla ég raunsætt mat á fyrirliggjandi gögnum um loftslagsmál. Aðgerðir verða þ.a.l. að byggjast á því að finna raunsæar lausnir. Það getur verið að það þýði kostnað einhversstaðar til skamms tíma, en er það ekki betra en að gera ekkert og vona hið besta.
Í mínum augum þá benda vísindamenn á vandann og hugsanlegar lausnir. Það er raunsætt, en ef við gerum ekkert í málinu, þá gæti það sem fólk kallar "hrakspá" orðið að veruleika í framtíðinni. Við skulum því ákveða að líta raunsæum augum á vandann og leytast við að finna raunsæar leiðir út úr honum.
Þetta var önnur færslan af þremur sem verður á þessum nótum. Sú fyrsta var færslan Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð. Á næstu dögum fylgir sú þriðja í röðinni.
Vísindi og fræði | Breytt 17.8.2009 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2009 | 12:06
Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð
Það hefur stundum borið á því að fólk afneitar vísindum og kalli þau trúarbrögð. Þetta á t.d. við þegar fólk er á þeirri skoðun að vísindamenn viti ekki sínu viti. Þetta á stundum við þegar talað er um loftslagsbreytingar, þá kemur stundum klausan "þetta eru bara trúarbrögð". Þarna virðist vera sem fólk sem að öðru leiti er skynsamt, ákveði að vísindin geti á einhvern hátt verið beintengd trúarbrögðum, eða það að taka mark á vísindamönnum hafi eitthvað með trúarbrögð að gera. Lítum nánar á örfáar skilgreiningar á þessum hugtökum.
Trúarbrögð: "trú á tiltekinn guð (tiltekna guði eða goðmögn), guðsdýrkun samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi" (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is); önnur skilgreining "er trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni." (tekið af Wikipedia, íslenska útgáfan, sjá hér).
Vísindi: "athuganir, rannsóknir gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla þekkingar" (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is)
Vísindaleg aðferð: "aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum." (sjá wikipedia)
Kenning: "er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma." (sjá wikipedia)
Samkvæmt þessu þá eru vísindalegar aðferðir og kenningar ósamrýmanlegar við trúarbrögð. Trúarbrögð eru guðsdýrkun eða trú á yfirnáttúrulegar verur samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi, vísindi aftur á móti eru athuganir, rannsóknir framkvæmdar á óhlutdrægan hátt, til að afla þekkingar. Kenningar sem fram eru settar samkvæmt vísindalegum aðferðum með, athugunum, tilgátum og tilraunum hljóta að vera það sem við byggjum vitneskju okkar á, um t.d. loftslagsbreytingar og í fleiri greinum, m.a. náttúruvísindum. T.d. eru afstæðiskenningin og þróunnarkenning Darwins, kenningar sem við notum við útskýringu á ákveðnum fyrirbærum. Eins og fram kemur hér að ofan, þá er í heimi vísindanna ekkert sem telst algerlega sannað, heldur byggjast vísindin á því sem menn vita best á hverjum tíma. Það sama á við um kenningar um loftslagsbreytingar.
Kenningin um að aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu valdi hækkandi hitastigi er sú besta sem við höfum í augnablikinu til að útskýra þá hitastigshækkun sem orðið hefur í heiminum síðustu áratugi. Í raun hafa vísindamenn komið fram með að það séu mjög miklar líkur (yfir 90% líkur) á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi valdið þeirri hækkun hitastigs sem orðið hefur síðustu áratugi. Þetta verða að teljast tiltölulega afgerandi ályktanir hjá vísindamönnum og okkur ber að taka þær alvarlega. Þetta snýst ekki um trúarbrögð heldur vísindalegar rannsóknir og niðurstöður.
Í þessu sambandi eru margar lausnir viðraðar og persónulega hef ég trú á því að okkur takist að finna lausnir sem hægt verður að nota til lausnar þessa vandamáls. Ég hef trú á því að við manneskjurnar séum nógu vitibornar til að sjá alvöru málsins og taka skref í átt til þess að finna lausnir. Látum ekki tilgátur afneitunarsinna um að vísindi séu einhverskonar trúarbrögð, flækjast fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum sem taka þarf.
"The world is a dangerous place, not because of those who do evil, but because of those who look on and do nothing." Albert Einstein
Vísindi og fræði | Breytt 23.8.2009 kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)