Færsluflokkur: Loftslagsmál
16.9.2009 | 22:21
Loftslag.is - Magnandi svörun (e. positive feedback)
Magnandi svörun (e. positive feedback) er hugtak sem er frekar mikið notað í loftslagsfræðum. Þar er átt við ferli þar sem afleiðingin magnar upp orsökina og veldur keðjuverkun með hugsanlega slæmum stigvaxandi áhrifum. Á hinn bóginn getur afleiðing myndað mótvægis svörun (e. negative feedback) á móti orsökinni og dregið úr henni.
Magnandi svörun
Við hlýnun jarðar eru ýmis ferli sem valda magnandi svörun. Við hlýnun eykst t.d. raki eða vatnsgufa í andrúmsloftinu og þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund þá magnar það hlýnunina upp....
---
Lesa má nánar um magnandi svörun á vefsíðunni loftslag.is, sem opnar formlega laugardaginn 19. september.
Ég vil einnig minna á Facebook síðu Loftslag.is fyrir Facebook notendur.
29.8.2009 | 09:40
Hluti af lausninni
Hér ætla ég ekki að taka sérstaka afstöðu til þessara ákveðnu leiða sem talað er um í fréttinni. Þessi vísindi munu að öllum líkindum vera hluti af þeirri lausn að halda hækkun hitastis undir 2°C. Þetta mark er mikið notað sem viðmið þess hita sem við viljum gjarnan halda okkur undir eins og fram kemur í fréttinni. Ýmsar aðferðir jarðverkfræða (eða loftslagsverkfræða eins og ég vil kalla þau) munu hugsanlega verða til þess að halda okkur undir yfir 2°C markinu. Þar sem það virðist vera erfitt að komast að pólítísku samkomulagi um að minnka losun koldíoxíðs nóg til að ná markinu, þá þarf samhliða að leita annarra leiða. Það eru þó fleiri þættir sem þarf að huga að, m.a. súrnun sjávar sem er önnur hlið á aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Að mínu mati getur loftslagsverkfræðin ekki orðið nema hluti heildarlausnarinnar, þar sem fyrst og fremst þarf að leita lausna til að minnka losun koldíoxíðs.
---
[31.8 - Leiðrétting í teksta]
Gervitré til að gleypa koltvísýring | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loftslagsmál | Breytt 31.8.2009 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.8.2009 | 19:26
Myndband frá NASA um loftslagsbreytingar og býflugur
Hérundir er myndband um breytingar á tímasetningu á frævun blóma og hvaða áhrif það hefur á býflugur og líf þeirra. Samkvæmt upplýsingum úr gervihnöttum þá hefst vorið í norðurhluta Bandaríkjanna hálfum degi fyrr á hverju ári vegna loftslagsbreytinga. Í myndbandinu er komið inn á þann möguleika að blómin og býflugurnar geti farið úr takti hvort við annað, ef frævun blóma færist til vegna loftslagsbreytinga.
20.8.2009 | 20:10
Loftslagsbreytingar - Efasemdir eða afneitun
Það er gott að velta hlutunum fyrir sér og spyrja sig gagnrýnina spurninga um lífið og tilveruna. Þannig höfum við mannfólkið oft komist að mörgum helstu leyndardómum lífsins. Þar má nefna þær staðreyndir að jörðin er ekki flöt, lögmál Newtons um þyngdaraflið og þróunarkenningu Darwins svo eitthvað sé nefnt. Þessum spurningum var svarað vegna þess að viðkomandi einstaklingar höfðu efasemdir um það skipulag sem fyrir var og komust að því að hlutunum var öðruvísi fyrirkomið en fyrirliggjandi hugmyndir kváðu á um. Þetta er ágætt dæmi um efasemdir sem koma af stað framförum og verða til þess að frekari vitneskja verður aðgengileg. Efasemdir eiga því fullkomin rétt á sér og hafa leitt til mikilla framfar í gegnum tíðina.
Af hverju er ég svo að velta þessu fyrir mér. Jú það er hárfín lína á milli þess að vera með efasemdir eða að vera í afneitun, t.d. hvað varðar loftslagsmál og hlýnun jarðar. Það dylst engum sem það vill vita að hitastig jarðar hefur hækkað undanfarna áratugi. Það er svo komið í dag að vísindamenn sem rannsaka þessi mál hafa gefið það út að "mjög miklar líkur" (sem á vísindamáli þýðir að líkurnar eru yfir 90%) séu á því að þessi hækkun hitastigs undanfarna áratugi sé til komin vegna losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið af mannavöldum. Þessi losun hefur gert það að verkum að styrkur koldíoxíðs (sem er ein aðal gróðurhúsalofttegundin) hefur hækkað úr u.þ.b. 280 ppm (parts per million) fyrir iðnvæðingu upp í um 387 ppm í dag. Þetta er um 38% aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu, þetta er fyrir utan aukningu styrks á öðrum gróðurhúsalofttegundum.
Þrátt fyrir þessi varnaðarorð vísindamanna sem út frá bestu rannsóknum dagsins í dag álykta svo, þá eru ýmsir sem í nafni efasemda vilja gera lítið úr þessari vá. Þeir telja að aðrir þættir valdi og halda því fram að vísindamenn sem rannsaka þessi mál mest, viti ekki sínu viti. Helstu rök þessara efasemdarmanna eru m.a., svo fátt eitt sé nefnt, að sólin sé aðalorsakavaldurinn, að loftslag hafi breyst áður (þ.a.l. sé þetta náttúrulegur ferill), að vísindamenn séu almennt ekki sammála og að hitastig fari ekki hækkandi. Þessi rök gera m.a. ráð fyrir því að vísindamenn sem rannsaka þessi mál séu ósammála, að rannsóknargögn séu ekki marktæk og/eða að þeir hafi ekki rannsakað málið nógu vel. Efasemdarfólk, sem heldur þessu fram, telur sig svo stundum hafa svörin á reiðum höndum, stundum út frá litlum gögnum. Stundum er talað um samsæri, sem gengur út á að vísndamenn hafi ákveðið að upphefja þetta vandamál til að fá vinnu og þar með peninga. En nóg um það, samsæriskenningar verða alltaf til. Spurning mín er hvort að það sé kannski of jákvætt að kalla svona efasemdarfólk því fína nafni eða hvort að afneitunarsinni væri hugsanlega réttara? Lítum á hvaða skilgreiningar er hægt að koma með fyrir þessi tvö hugtök.
Efasemdir: Er ákveðin tilhneyging til tortryggni eða efasemda gagnvart ákveðnu efni almennt eða ákveðnum hluta þess. Efasemdir eru byggðar á rökréttum, vitsmunalegum aðferðum sem innihalda gagnrýna greiningu á staðreyndum. Orsök efasemda er byggð á aðferðum sem byggja á rökum og tilgátum.
Afneitun: Aðferðir við afneitun geta verið margskonar. Þær byggja á ýmsum aðferðum sem eiga það sammerkt að sýna fram á ákveðin sjónarmið. Þær aðferðir geta m.a. verið; að segja að um samsæri sé að ræða, að velja gögn sem sýna fram á eigin sjónarmið (cherry-picking), notaðir eru óekta sérfræðingar, breyting viðmiða svo ómögulegt er að standast þau og/eða að notaðar eru almennar rökvillur.
Efasemdarfólk á afneitunarstigi vill oft gera lítið úr loftslagsvandanum og vilja bíða og sjá hvað gerist á næstu árum og áratugum þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna. Þegar þetta er gert með rökum sem minna á þau sem að ofan eru talin (afneitunarhlutanum), þá er hægt að færa rök fyrir því að kalla það afneitun á vísindunum. Það að gera ekkert við loftslagsvandanum er alvarleg mál sem hver og einn verður að taka upp við samvisku sína. Við höfum bara eina jörð og við getum ekki ýtt á [cancel] og byrjað upp á nýtt síðar. Þ.a.l. er mikilvægt að við tökum mark á þeirri þekkingu sem vísindamenn hafa upp á að bjóða í dag og tökum höndum saman og leysum vandamálin í sameiningu. Vísindamenn telja að við höfum enn tíma upp á að hlaupa áður en of seint verður að grípa í taumana. Það er því mikilvægt að við reynum að finna lausnir og tökum höndum saman í þá veru að leysa vandann, því fyrr því betra. Látum því ekki afneitunarsinna stjórna umræðunni, veljum frekar að hlusta á þá sem hafa mesta þekkingu á málunum í dag.
Þetta var þriðja og síðasta færslan í röð pistla um loftslagsbreytingar á þessum nótum. Hérundir eru fyrri tvær færslurnar:
Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð
Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá
Höfin hafa aldrei verið heitari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loftslagsmál | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
18.8.2009 | 12:42
Smá loftslagshúmor
13.8.2009 | 14:40
Loftslagsbreytingar - Raunsæi eða hrakspá
Hvað hafa hugtökin raunsæi og hrakspá með loftslagsbreytingar að gera. Jú það er til fólk sem heldur því fram að stór hluti umræðu um hækkun hitastigs af völdum gróðurhúsalofttegunda sé einhverskonar hrakspá. Þessi hrakspá er að þeirra mati gerð til að sýna fram á að vandamálið sé stærra en það er í raun og gerðar af svokölluðum hrakspámönnum (e. alarmist). Þ.a.l. er ákveðin tilfinning hjá þessum einstaklingum að lausnirnar séu úr samræmi við vandann. Lítum á hvað hrakspá er; Hrakspá er spá um hrakfarir eða illspá um einhverjar ófarir.
En er eitthvað til í því að umfjöllun um loftslagsbreytingar af mannavöldum séu hrakspár án alls raunsæis? Raunsæi er það að vera raunsær og líta á eitthvað eins og það er í raun og veru, hlutlægni í hugsun og athöfnum. Er hægt að tala um raunsæi eða hrakspá um loftslagsmál. Hugsanlega getum við litið á vísindalegar aðferðir og vísindin sjálf í leit að svari.
Vísindamenn beita vísindalegum aðferðum til að fá fram niðurstöður sínar. Þessar aðferðir eru að sjálfsögðu ekki óbrigðular, en þær hafa ýmsa kosti. Vísindalegar aðferðir: "aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum."
Það er því hægt segja að þær niðurstöður sem vísindamenn fá með þessum aðferðum, séu niðurstöður sem hægt er að sannreyna með því að endurtaka rannsóknirnar. Það þýðir að ef það er eitthvað óhreint í pokahorninu þá kemst það upp um síðir. Í ýmsum fræðigreinum er erfiðara að sýna fram á nákvæmar niðurstöður, þ.a.l. nota vísindamenn oft líkindi til að lýsa niðurstöðum. Til dæmis þá hafa vísindamenn í loftslagsmálum komið fram með að "mjög miklar líkur" séu á því að sú hækkun hitastigs sem orðið hefur á síðustu árum og áratugum sé vegna aukningar á styrk gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Þetta orðalag vísindamanna "mjög miklar líkur", er það sama og segja að það séu yfir 90% líkur á að þessu sé svo fyrirkomið. Þetta álykta vísindamenn út frá niðurstöðum sem fengust með því að nota vísindalegar aðferðir.
Þetta er því raunsætt mat vísindamanna á stöðunni út frá þeim upplýsingum sem þeir hafa í dag. Út frá þessu mati er raunhæft að áætla að ef styrkur gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast þá muni hitastigið halda áfram að hækka. Hækkun hitastigs á svo stuttum tíma sem við erum að upplifa núna getur reynt á þolrif ýmissa jarðsvæða og dýrategunda í heiminum. Það er hin hugsanlega framtíðarsýn sem sumar vilja ekki sjá í augu og kalla hrakspá. Þetta kalla ég raunsætt mat á fyrirliggjandi gögnum um loftslagsmál. Aðgerðir verða þ.a.l. að byggjast á því að finna raunsæar lausnir. Það getur verið að það þýði kostnað einhversstaðar til skamms tíma, en er það ekki betra en að gera ekkert og vona hið besta.
Í mínum augum þá benda vísindamenn á vandann og hugsanlegar lausnir. Það er raunsætt, en ef við gerum ekkert í málinu, þá gæti það sem fólk kallar "hrakspá" orðið að veruleika í framtíðinni. Við skulum því ákveða að líta raunsæum augum á vandann og leytast við að finna raunsæar leiðir út úr honum.
Þetta var önnur færslan af þremur sem verður á þessum nótum. Sú fyrsta var færslan Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð. Á næstu dögum fylgir sú þriðja í röðinni.
Loftslagsmál | Breytt 17.8.2009 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2009 | 12:06
Loftslagsbreytingar vs. trúarbrögð
Það hefur stundum borið á því að fólk afneitar vísindum og kalli þau trúarbrögð. Þetta á t.d. við þegar fólk er á þeirri skoðun að vísindamenn viti ekki sínu viti. Þetta á stundum við þegar talað er um loftslagsbreytingar, þá kemur stundum klausan "þetta eru bara trúarbrögð". Þarna virðist vera sem fólk sem að öðru leiti er skynsamt, ákveði að vísindin geti á einhvern hátt verið beintengd trúarbrögðum, eða það að taka mark á vísindamönnum hafi eitthvað með trúarbrögð að gera. Lítum nánar á örfáar skilgreiningar á þessum hugtökum.
Trúarbrögð: "trú á tiltekinn guð (tiltekna guði eða goðmögn), guðsdýrkun samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi" (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is); önnur skilgreining "er trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni." (tekið af Wikipedia, íslenska útgáfan, sjá hér).
Vísindi: "athuganir, rannsóknir gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla þekkingar" (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is)
Vísindaleg aðferð: "aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum." (sjá wikipedia)
Kenning: "er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma." (sjá wikipedia)
Samkvæmt þessu þá eru vísindalegar aðferðir og kenningar ósamrýmanlegar við trúarbrögð. Trúarbrögð eru guðsdýrkun eða trú á yfirnáttúrulegar verur samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi, vísindi aftur á móti eru athuganir, rannsóknir framkvæmdar á óhlutdrægan hátt, til að afla þekkingar. Kenningar sem fram eru settar samkvæmt vísindalegum aðferðum með, athugunum, tilgátum og tilraunum hljóta að vera það sem við byggjum vitneskju okkar á, um t.d. loftslagsbreytingar og í fleiri greinum, m.a. náttúruvísindum. T.d. eru afstæðiskenningin og þróunnarkenning Darwins, kenningar sem við notum við útskýringu á ákveðnum fyrirbærum. Eins og fram kemur hér að ofan, þá er í heimi vísindanna ekkert sem telst algerlega sannað, heldur byggjast vísindin á því sem menn vita best á hverjum tíma. Það sama á við um kenningar um loftslagsbreytingar.
Kenningin um að aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu valdi hækkandi hitastigi er sú besta sem við höfum í augnablikinu til að útskýra þá hitastigshækkun sem orðið hefur í heiminum síðustu áratugi. Í raun hafa vísindamenn komið fram með að það séu mjög miklar líkur (yfir 90% líkur) á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi valdið þeirri hækkun hitastigs sem orðið hefur síðustu áratugi. Þetta verða að teljast tiltölulega afgerandi ályktanir hjá vísindamönnum og okkur ber að taka þær alvarlega. Þetta snýst ekki um trúarbrögð heldur vísindalegar rannsóknir og niðurstöður.
Í þessu sambandi eru margar lausnir viðraðar og persónulega hef ég trú á því að okkur takist að finna lausnir sem hægt verður að nota til lausnar þessa vandamáls. Ég hef trú á því að við manneskjurnar séum nógu vitibornar til að sjá alvöru málsins og taka skref í átt til þess að finna lausnir. Látum ekki tilgátur afneitunarsinna um að vísindi séu einhverskonar trúarbrögð, flækjast fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum sem taka þarf.
"The world is a dangerous place, not because of those who do evil, but because of those who look on and do nothing." Albert Einstein
Loftslagsmál | Breytt 23.8.2009 kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.8.2009 | 00:31
Myndband um ísinn á Norðurpólnum
Hér er stutt myndband um ísinn á Norðurpólnum. Samkvæmt mælingum síðustu þrjá áratugi hefur ísþekjan á Norðurpólnum smámsaman dregist saman á tímabilinu. Árið 2007 var það ár sem útbreyðsla íssins var minnst eftir bráðnun sumarsins. Útbreyðsla íss það ár var u.þ.b. 25% minni en metið fram að þeim tíma. Vísindamenn telja m.a. að nú sé hlutfall eldri íss minna en áður, nánar má lesa um þessi mál í annarri færslu.
6.8.2009 | 12:07
Minnkandi jöklar
Það er ekki bara Snæfellsjökull sem hopar, sbr. frétt á Rúv. Talið er að ef jökullinn haldi áfram að bráðna jafn hratt muni hann verða horfinn fyrir næstu aldamót. Þarna er verið að tala um sömu bráðnun og verið hefur hingað til.
Chacaltaya jökullinn í Bólivíu hvarf að mestu í ár. Svæðið sem þessi jökull er á, er í fjallasvæði Bólivíu og þarna var framan af fjölsótt skíðasvæði. Skíðasvæðið bauð upp á langar skíðabrekkur í jöklinum sem er í u.þ.b. 5.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Svæðið hefur í nokkur ár verið ónothæft sem skíðasvæði og í ár er jökullinn nánast horfinn. Myndin hérundir sýnir hvernig jökullinn hefur tekið breytingum frá 1940 til 2007. Á níunda áratugnum spáðu bólivískir vísindamenn því að jökullinn myndi bráðna alveg árið 2015, miðað við þá bráðnun sem þá átti sér stað. Það má því segja að jökullinn hafi bráðnað hraðar en þær spár gerðu ráð fyrir. Jökullinn er talinn hafa verið um 18.000 ára gamall.
Þessi þróun hefur ekki bara áhrif á skíðafólk, heldur breytir þetta vatnsbúskapi svæðisins. Jöklar hafa þann eiginleika að vera einskonar birgðasafn fyrir vatn. Þegar þeir hverfa þá kemst ójafnvægi í vatnsbúskapinn og það getur haft í för með sér vandræði fyrir þá íbúa svæðisins sem eru háðir vatni af svæðinu. Það eru því margar hliðar sem þarf að skoða þegar um er að ræða svona hraðar breytingar á loftslagi.
Á bloggi Höskuldar Búa er einnig umfjöllun um jökla hitabeltisins sem vert er að kíkja á.
Heimildir:
Frétt BBC um málið
http://solveclimate.com/blog/20090506/bolivias-chacaltaya-glacier-melts-nothing-6-years-early
http://en.cop15.dk/news/view+news?newsid=1831
http://en.wikipedia.org/wiki/Chacaltaya
28.7.2009 | 17:43
Loftslagsbreytingar - Spurningar og svör
Í þessari færslu set ég fram nokkrar spurningar varðandi loftslagsbreytingar. Þetta eru svipaðar spurningar og á Q&A síðum varðandi þessi mál. Ég hef valið spurningarnar og reyni að setja fram skýr svör við þeim og kem með hugmyndir að ítarefni við allar spurningar.
Hvað eru gróðurhúsaáhrif?
Gróðurhúsaáhrifin halda hita á jörðinni, þar sem þær gastegundir sem eru í lofthjúpnum "fanga" orku frá sólinni og halda henni við yfirborð jarðar. Án gróðurhúsaáhrifanna myndi meðalhitastig jarðar vera um -18°C. Þannig að í raun halda þau plánetunni okkar lífvænlegri en ella. Helstu gróðurhúsalofttegundir eru m.a. loftraki, koldíoxíð, metan og nituroxíð. Hlutfall koldíoxíðs, metans og nituroxíðs í andrúmsloftinu eykst vegna athafna manna.
Ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/Greenhouse_effect
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-chapter1.pdf (bls. 115)
Hvað eru loftslagsbreytingar?
Loftslag jarðar hefur alla tíð verið breytingum háð. Það hafa komið ísaldir og hlýskeið til skiptis í sögu jarðar. Vísindamenn hafa í dag áhyggjur af því að hin náttúrulega sveifla loftslagsins sé að breytast vegna athafna mannsins. Hér er því helst verið að tala um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þ.e. þær breytingar á loftslagi sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur valdið.
Ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/Climate_change
Eru loftslagbreytingar það sama og hnattræn hlýnun?
Hnattræn hlýnun er sú hlýnun (hækkun á meðalhitastigi í heiminum) sem mæld hefur verið á jörðinni síðan mælingar hófust en þó mest á síðustu áratugum. Hnattræn hlýnun virðist hanga saman við aukningu gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Þ.a.l. er oft talað um hnattræna hlýnun og loftslagsbreytingar af mannavöldum í einu og sama vettvangi.
Ítarefni:
http://ipccinfo.com/wg1report.php
Getur þessi hlýnun jarðar verið vegna náttúrulegra breytinga og/eða hvert er hlutverk mannsins í þessu öllu?
Sumir vísindamenn telja að hnattræn hlýnun sé af völdum breytinga í sólarblettum á sólinni, að hún sé hluti af náttúrulegum sveiflum hlýnunar og kólnunar, eða öðrum þáttum.
Stór hluti vísindamanna sem rannsaka loftslagbreytingar þær sem nú standa yfir, eru sammála um að það sé tiltölulega ólíklegt að sú hækkun sem átt hefur sér stað í lofthjúpnum geti verið skýrð af náttúrulegum orsökum. Þeir telja frekar að hægt sé að rekja hækkun hitastigs til aukins styrks gróðurhúsaloftegunda í lofthjúpnum. Mælingar á yfirborðshita sýna að hitastig jarðar hefur hækkað um u.þ.b. 0,4°C síðan á 8. áratugnum. Vísindamenn telja að þessi breyting sé of mikil til að geta verið skýrð með náttúrulegum orsökum. Hvorki breytingar í styrk sólar, stór eldgos (sem hafa kælandi áhrif) né aðrir náttúrulegir þættir eru taldir hafa nógu mikil áhrif til að útskýra þá hækkun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum. Aðeins aukin styrkur gróðurhúsalofttegunda getur samkvæmt flestum loftslagsvísindamönnum útskýrt þessa hækkun hitastigsins.
Hlutfall koldíoxíðs í lofthjúpnum frá því iðnvæðingin hófst upp úr 1750, er talin vera yfir 34% hærri í dag en hún var þá. Þetta er hærra magn en síðustu 400.000 árin þar á undan. Þessa hækkun er helst hægt að rekja til bruna eldsneytis eins og kolum og olíu sem m.a. hefur verið notað við framleiðslu rafmagns og sem eldsneyti á bíla. Sömu sögu er að segja af hlutfalli metans og nituroxíðs sem hefur hækkað mikið vegna athafna okkar mannanna.
Ítarefni:
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-chapter1.pdf (bls. 100)
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-faqs.pdf (bls. 100)
Hver er aðal gróðurhúsalofttegundin?
Loftraki í andrúmsloftinu hefur mikil áhrif á hitastig. Það er þó talið að það hafi verið jafnvægi í hlutfalli loftraka í andrúmsloftinu í milljónir ára. Koldíoxíð er aðal gróðurhúsalofttegundin sem er losuð vegna athafna mannsins. Hlutfall koldíoxíðs í andrúmsloftinu er mælt í hlutum á hverja milljón (ppm, parts per million). Hlutfallið var 280 ppm fyrir iðnbyltinguna en er nú komið í u.þ.b. 386 ppm. Þegar búið er að bæta áhrifum annarra gróðurhúsalofttegunda eins og t.d. metans, þá er hægt að reikna sig fram að svokölluðum jafngildings áhrifum, sem eru sambærileg við koldíoxíðsáhrifinn (allir þættir lagðir saman), þá eru áhrifin á við um 440 ppm af koldíoxíði í lofthjúpnum.
Ítarefni:
http://www.esrl.noaa.gov/gmd/ccgg/trends/
Er almennt samkomulag á milli vísindamanna um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga?
Meirihluti loftslagsvísindamanna aðhyllast þá kenningu að aukning gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum hafi áhrif til hlýnunar á jörðinni. Hnattræn hlýnun er raunveruleg og því til vitnis þá eru t.d. öll árin eftir 2000 á listanum yfir hlýjustu ár frá því mælingar hófust. Það sem vísindamenn hafa helst rökrætt er hversu stór áhrifin eru. En stór meirihluti vísindamanna sem rannsaka þessi mál eru sammála um að athafnir mannanna séu drífandi afl í þeim breytingum sem hafa orðið á hitastigi jarðar á síðustu áratugum. Þar má sem dæmi nefna vísindamenn hjá World Meteorological Organisation, IPCC og U.S. National Academy of Sciences.
Ítarefni:
http://www.wmo.int/pages/index_en.html
http://www.ipcc.ch/
http://www.nasonline.org/site/PageServer
http://svatli.blog.is/blog/svatli/entry/901635/
Eru til sönnunargögn fyrir hnattrænni hlýnun?
Beinar mælingar á hitastigi eru til frá seinni hluta 19. aldar og þær sýna að meðalhiti jarðar hefur hækkað um ca. 0,6°C á 20. öldinni. Yfirborð sjávar hefur hækkað um á milli 10-20 sm. Sú hækkun er talin vera að mestu leiti vegna hitaþennslu sjávar. Margir jöklar eru að hopa og ísinn á Norðupólnum er að þynnast. Þetta eru frávik sem sjást, en þó eru dæmi um jökla sem skríða fram og svæði á Suðurskautslandinu sem eru að kólna svo dæmi séu tekin. Rannsóknir sýna einnig að tegundir landplantna og dýra (á norðurhveli jarðar) hafa færst um 6,1 km norðar á hverjum áratug og 6,1 m hærra yfir sjávarmál en áður. * Jafnframt hafa árstíðirnar færst um 2,3 - 5,1 dag á hverjum áratug á síðustu 50 árum. * Þessar breytingar eru marktækar og fylgjast í hendur með mældri hitabreytingu á sama tíma.
Ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/Current_sea_level_rise
http://www.nasa.gov/home/hqnews/2009/jul/HQ_09-155_Thin_Sea_Ice.html
http://www.nature.com/climate/2007/0712/full/448550a.html *
http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-faqs.pdf (bls. 103)
Hvað vitum við ekki?
Það er ekki vitað nákvæmlega hversu hátt hlutfall þeirrar hækkunar sem orðið hefur, er hægt að rekja beint til athafna mannsins og hvaða áhrif eru hugsanlega ekki komin fram af hlýnuninni. Nákvæm tengsl á milli hlutfalls koldíoxíðs (og annara gróðurhúsalofttegunda) og hitastigsins er ekki alþekkt. Það er ein ástæða þess að spár um hlýnun eru ekki allar eins.
Hnattræn hlýnun mun væntanlega valda öðrum breytingum sem geta aukið hlýnunina í framtíðinni. Þetta geta verið hlutir eins og t.d. losun metans úr sífreranum ef hann bráðnar. Aðrir þættir gætu hugsanlega haft áhrif til að minnka hlýnunina, þ.e. ef plöntur taka upp meira CO2 úr andrúmsloftinu við hærra hitastig, þess má geta að það ríkir nokkur vafi um þetta atriði. Vísindamenn þekkja ekki til hlítar hið flókna jafnvægi á milli jákvæðra og neikvæðra þátta sem hafa áhrif á hitastigið og nákvæmlega hversu stór þáttur hvers þáttar er.
Ítarefni:
http://news.nationalgeographic.com/news/2008/12/081219-methane-siberia.html
Hvað segir efasemdarfólkið?
Efasemdir efasemdarfólks virðast skiptast í þrjá hópa:
1. Þeir sem vilja meina að hitastig sé ekki stígandi.
2. Þeir sem fallast á að loftslagsbreytingar séu yfirstandandi, en grunar helst náttúrulega breytileika.
3. Þeir sem fallast á loftslagsbreytingar af mannavöldum, en segja að það sé ekki þess virði að gera neitt við þeim og að það séu önnur mikilvægari mál til að berjast við.
Ítarefni:
http://www.skepticalscience.com/
Heimildir:
Q&A síðurnar sem ég notaði að nokkru leiti við vinnslu færslunnar:
http://www.guardian.co.uk/environment/2007/jul/26/climatechange
http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/3928017.stm
http://www.worldwatch.org/node/3949
3 kínversk orkuver losa meira en allt Bretland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loftslagsmál | Breytt 12.8.2009 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)