6.6.2007 | 00:44
Umræður um loftsslagsbreytingar á DR1
Ég var að horfa á ansi góðan umræðuþátt um loftsslagsbreytingar á DR1. Þarna voru stjórnmálamenn, vísindamenn, blaðamenn og fleiri sem tóku þátt í umræðunum. Allir þeir sem fram komu voru sammála um að hækkun hitastigs vegna gróðurhúsalofttegundanna væri vandamál sem þyrfti að taka á.
M.a. var Bjørn Lomborg til staðar, alltaf gaman að hlusta hann og hans sýn á lausn vandamála. Hann er þeirrar skoðunnar að það sé betra að verja þeim miklu peningum sem nota á til minnkunar losunar á koltvísýringi, til hjálparstarfs og uppbyggingar í þriðja heiminum. Það er að við fókuserum á þau vandamál sem eru sýnileg og hjálpum þar. Þar að auki er hann þeirrar skoðunnar að það eigi að auka fjárveitingar til rannsókna á tækni sem minnka gróðurhúsaáhrifin. Hann telur að þessar rannsóknir muni gera það að verkum að efnahagslegur ávinningur okkar vegna betri tækni sem mengar minna verði verulegur, en það tekur tíma.
Það voru tveir stjórnmálamenn í eldlínunni á sama tíma og hann, það voru þau Svend Auken og Connie Hedegaard, fyrrverandi og núverandi umhverfisráðherrar Danmerkur. Þau voru m.a. þeirrar skoðunar að þjóðir heimsins þyrftu að komast að samkomulagi um að minnka losun gróðurhúsalofttegundanna. Þar að auki fannst þeim að Danmörk ætti að vera leiðandi land og til fyrirmyndar í heiminum í þessum efnum og að það ætti að auka rannsóknir svo Danmörk gæti áfram verið í fararbroddi. Síðar kom svo panel með þeim ásamt fleiri stjórnmálamönnum sem ræddu fram og aftur um hvort að þetta væri reyndin í Danmörku í dag. Það þarf ekki að koma á óvart að stjórnarandstaða og stjórnarflokkar voru ekki alveg sammála um taktíkina.
Það kom mér þó á óvart hversu fáar vindmyllur hafa verið settar upp í Danmörku á síðustu árum. Flestar (nánast allar) vindmyllur sem byggðar eru í Danmörku í dag eru fluttar úr landi og settar upp í öðrum löndum.
Ég tel að til að ná árangri í þessum efnum þurfi að huga að mörgum þáttum. Við verðum að hafa markmið að stefna að, og við verðum að ná breiðri samstöðu um markmiðin meðal ríkja heims. En við þurfum líka að vera tilbúin að hjálpa á þeim svæðum þar sem upp koma vandamál vegna hækkunar hitastigs á jörðinni. Það eru líkur á að þetta séu svæði sem í dag eru illa í stakk búin til að takast á við þessi vandamál og þau muni koma verst út úr þeim. Þ.a.l. ætti hjálp við uppbygging á þessum svæðum að vera á forgangslistanum. Þetta eru t.d. svæði eins og hlutar Afríku og Austur-Asíu.
Fé til rannsókna og efnahagslegur ávinningur fólks af notkun nýrrar tækni ætti að vera hátt á forgangslista stjórnmálamanna. Þetta eru hlutir sem t.d. er hægt að vinna að hér á landi og það er jafnvel hægt að flytja út nýja eða bætta tækni sem útflutningsvöru.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.