Lýðræði ?

Pólitískt umrót undanfarina daga og hugsanlegt framboð Ástþórs, hefur komið af stað hugsunum um hvað lýðræði sé. Er myndun nýs meirihluta í borginni skrumskæling á lýðræðinu? Hvað um viðbrögðin við myndun meirihlutans? Hver má kostnaður við kosningar vera til að hann sé réttmætur?

Nú höfum við tvisvar lent í því á stuttum tíma, að smáflokkar hafa hrist upp í meirihluta borgarinnar. Hversu mikið á vald einstakra manna að vera yfir lýðræðinu? Í mínum huga er grundvallar munur á þessum tveimur slitum í borginni. Í fyrra skiptið er það eitt mál sem veldur slitinu en í seinna skiptið er óljóst hvort það er einhver mikill ágreiningur um ákveðin mál. Fyrir mér kom síðara skiptið eins skrattinn úr sauðaleggnum. En í báðum tilfellum er farið eftir reglum lýðræðisins eins og það nú er. Það þarf jú að vera meirihluti og fólk sem kosið er í kosningum hefur rétt til að mynda þann meirihluta sem það heldur að muni koma þeim eða þeirra flokki til góða (málefnalega, vinsældarlega eða á hvern þann hátt sem það réttlætir með sjálfum sér). Ég tel að Björn Ingi hafi haft fleiri í sínum flokki að baki sér þegar hann sleit meirihlutanum, en Ólafur F. hafði við sama gjörning. Þetta rúmast hvort tveggja innan leikreglna lýðræðisins, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hvort sem um málefni, framapot eða vinsældir er að ræða. 

Almenningur hefur rétt til að mótmæla, það er hluti af lýðræði okkar og málfrelsi að mótmæla. Þar af leiðandi er eðlilegt að fólk mæti á fund þar sem umdeild borgarstjórn tekur við. Það er spurning hvort þau læti sem þar voru fóru yfir strikið. Persónulega finnst mér það ekki. Það er hluti af málfrelsinu að mótmæla. Hvort einhverjir fari yfir strikið með framíköllum er minna mál. Það geta alltaf verið einhverjir í stórum hópum sem fara yfir strikið með framíköllum eða jafnvel dónaskap. Hvað er það versta sem getur gerst? Jú það verður truflun á fundi og við þurfum að fresta honum í smá tíma á meðan fólk hypjar sig. Það gæti verið verra og er verra í mörgum löndum þar sem málfrelsi og lýðræði er ekki eins gott og hér. Við höfum þann lýðræðislega rétt að geta kosið eftir okkar samvisku við næstu kosningar.

Forsetakosningarnar eru annað mál sem er fólki ofarlega í huga. Sumum finnst það skrumskæling á lýðræðinu að Ástþór Magnússon skuli hugsanlega ætla að bjóða sig fram. Helstu rök sumra hafa verið að það kosti of mikið að halda kosningar. Þetta finnst mér ekki þurfa að vera til umræðu. Við eigum sem þjóð að halda allar þær kosningar sem halda þarf, án þess að huga að kostnaðinum. Þetta á að vera okkar lýðræðislegi réttur. Það er svo annað mál hvort að við þurfum að breyta þeim reglum sem gilda um undirskriftir vegna kosninga (vegna fólksfjölgunar og annarra þátta). Nú hefur Ástþór komið fram með peninga og boðist til að borga kosningarnar. Þetta gerir hann vegna þess að málið hefur af mörgum verið sett upp eins og það sé aðalatriðið (hann veit jú sem er að hann þarf ekki að reiða fram þessa peninga). Við ættum aldrei að hafa það sem umræðuefni, hversu mikið kosningar sem halda þarf kosta.  Við höfum efni á því að  viðhalda lýðræðinu með þessum hætti og það er kjarni málsins að mínu viti.

Það er ánægjulegt að búa í landi þar sem málfrelsi og lýðræði gilda eins og hér á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband