Fordómar

Það ber nokkuð á fordómum í heiminum. Fordómum til minnihlutahópa, t.d. eftir kynþætti, kyni, eða kynhneigð. Ég hef verið að velta fyrir mér hvað veldur þessum fordómum. Oft held ég að þetta sé hræðsla við hið óþekkta og einföldun hlutanna. Myndin Fitna er dæmi um fordóma og áróður.

Hræðsla getur valdið því að þeir sem eru öðruvísi en meirihlutinn verða fyrir skotspóni þeirra fordómafullu og hræddu. Fáfræði og þekkingarleysi er oft orsakavaldur þessarar hræðslu. Þessi fáfræði getur orðið til þess að gripið er til einföldunar á málunum, þ.e. hlutirnir gerðir annað hvort svartir eða hvítir og hafa engin litbrigði. Eigum við að leyfa fordóma og hatursáróður í nafni prent- og tjáningarfrelsis? Persónulega tel ég ekki að við getum leyft okkur allt í nafni tjáningarfrelsis. Tjáningarfrelsi fylgir ábyrgð og þar af leiðandi þarf að nota það af yfirvegun. Við ættum að læra að bera virðingu fyrir öðrum skoðunum en okkar eigin. Um leið verðum við að taka afstöðu gegn ofbeldi og hryðjuverkum, en sú afstaða þarf að vera tekin af þekkingu.

Mörg af þeim vandamálum sem eru í löndum eins og Afganistan, eru samfélagsleg vandamál sem myndast vegna áralangra stríða. Stríð ala af sér öfgafólk sem er líklegt til alls. Þetta höfum við m.a. séð í fyrrum Júgóslavíu svo seint sem árið 1992. Átök um olíu og misskipting valda og auðs tel ég vera stærsta orsakavald þeirra vandamála sem eiga sér stað í mörgum löndum Mið-Austurlanda. Á þessu vandamáli verðum við að taka. Mynd eins og Fitna hjálpar okkur ekki áfram með umræðuna, heldur veldur hún sárindum og elur á fordómum sem koma okkur ekki áleiðis að markmiðinu. Markmiðið ætti að vera friður á milli mismunandi fylkinga. Þessi friður kemst ekki á með eiginhagsmunastefnu, heldur verðum við að sjá hlutina með opnum hug og án fordóma.

Ég hef ekki svörin, en mig langar að fá fram umræðu án fordóma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband