Háhýsi?

Hvers vegna eigum við að byggja háhýsi á Íslandi? Við þurfum að huga að því sem við höfum á Íslandi. Það er m.a. útsýni, ekki bara fyrir þá sem búa í háhýsum, heldur líka fyrir þá sem munu búa í grend við þau. Það er m.a. sólin, þegar hún lætur sjá sig, þá væri ágætt að geta séð hana, líka þeir sem búa í grendinni. Svo eru það einnig sviptivindar við háhýsi, þeir eiga það til að aukast að orku og verða hvimleiðir í nágrenni háhýsa. Persónulega finnst mér skuggahverfið ekki til prýði, og hef líka á tilfinningunni að sumir af þeim sem keyptu í fyrstu húsunum þar, missi brátt hið eftirsótta útsýni, vegna nýrra framkvæmda.

Ég heyrði einhvern segja að það séu margir sem hafi áhuga á því að búa í miðbænum, og þess vegna sé ástæða til að byggja háhýsi í miðborginni. Já, en það fólk sem tekur þátt í skoðanakönnunum varðandi það hvort að það hafi áhuga á að búa í miðborginni, hvað sér það fyrir sér? Sér það ekki hin gamla miðbæ fyrir sér, með öllu því sem honum tilheyrir? Ef ég væri spurður þessarar spurningar í dag, þá gæti ég freystast til að svara því til, að ég hefði áhuga á því að búa í miðborginni í framtíðinni. En ég hef ekki áhuga á að búa í háhýsi.

Höldum sérstöðu okkar, byggjum ekki háhýsi bara af því að það er hægt. Sleppum því frekar, af sömu ástæðu, vegna þess að það er hægt og það er í okkar höndum að ákveða hvaða stefnu við viljum taka. Látum það ekki viðgangast, að leyfilegt sé að byggja rúmlega 5 fermetra fyrir hvern 1 lóðarfermeter eins og gert verður á Höfðatorginu. 

Því ber þó að fagna, að það eigi að vinna að stefnumótun í þessum málum, hana hefur vantað hingað til. Vonandi verður gert ráð fyrir virkum grendarkynningum í þessari stefnumótun. Það er allra hagur að gerðar séu góðar grendarkynningar áður en framkvæmdir hefjast, svo að sem flestir geti sagt skoðun sína á slíkum framkvæmdum.


mbl.is Háhýsastefna í mótun í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn og stjórnarandstaða

Jæja, Ingibjörg og Geir sitja og ræða stjórnarmyndun. Vonandi fá jafnaðar- og umhverfismálin pláss í stefnu komandi ríkisstjórnar. Eftir 12 ára setu Framsóknar og Sjálfstæðismanna, er tími til kominn  að þau málefni fái meira pláss í umræðunni. Ég er viss um að VG mun reyna að halda þeim við efnið þó þeir muni finna til ákveðinnar minnimáttarkenndar í stjórnarandstöðunni.  

Talandi um stjórnarandstöðuna, þessir þrír flokkar sem væntanlega munu skipa hana, eiga afskaplega fátt sameiginlegt, annað en hugsanlega að vera í stjórnarandstöðu. Útlendingastefna Frjálslyndra mun vafalítið verða hverfandi, þó Jón Magnússon muni minna á hana í ræðu. Framsóknarflokkurinn fær nú 4 ár til að hugsa ráð sitt. Jón Sigurðsson verður sjálfsagt ekki formaður svo lengi. Ég giska á að Björn Ingi verði orðin formaður innan tveggja ára. Þeirra stjórnarandstaða mun eflaust verða beint að einhverju leiti að því að verja þá landbúnaðarstefnu sem verið hefur. VG reynir svo að halda stjórninni við efnið varðandi umhverfismál. En ég á ekki von á harðri stjórnarandstöðu.

Í ríkisstjórn með svo stóran meirihluta er líklegt að einhverjir innan stjórnarflokkanna verði í "stjórnarandstöðu" á köflum. Það getur verið sterkur leikur hjá einstökum persónum að sýna smá "andstöðu", án þess þó að "skemma" fyrir ríkisstjórninni. Þetta verður stjórn með stóran meirihluta, 43 þingmenn á móti 20 í stjórnarandstöðu. Þetta þýðir að það geta 11 þingmenn stjórnarinnar verið í "andstöðu" án þess að þingmeirihlutinn falli, það hlýtur að vera Íslandsmet. Það er s.s. pláss fyrir 11 stk. af Kristni H. Gunnarssyni, ef það er hægt að setja það þannig upp...ekki að það væri óska staðan.

Vonandi tekst þeim að bræða saman sterkan málefnasamning sín á milli. Samning sem tekur tillit til jafnaðar- og umhverfisstefnu, ásamt sterkrar samkeppnisstöðu Íslands með vaxandi stöðugleika. Já af hverju ekki vera dálítið bjartsýnn...það veitir ekki af smá jákvæðni í umræðuna.


mbl.is Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð tíðindi

Wilson MuugaÞað verða að teljast góð tíðindi að Wilson Muuga hefur verið dreginn af strandstað. Ég tók þessar myndir af strandstað í janúar.

 

 

 

 

 

Wilon Muuga 2


mbl.is „Sérlega vel að þessu staðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ég að kaupa nýjan bíl ?

Í vikunni sem leið fékk ég bréf frá bílaumboði hér í borginni, þar sem sagt var frá því að þeir ætluðu að sýna nýtt módel um helgina. Ekkert við það að athuga í sjálfu sér að þeir vilji auglýsa nýja bílinn sinn. Mér fannst þó skrítið að þeir væru að senda mér sérstakt boð á þessa sýningu. Ég hef ekki, eftir því sem ég kemst næst, skrifað mig á lista hjá þessu umboði, eða öðrum ef út í það er farið, þar sem ég bið um að fá sendar auglýsingar. Svona beinar auglýsingar eru m.a. óleyfilegar í Danmörku, ef ekki liggur fyrir samþykki fólks. En þetta er sjálfsagt leyfilegt, hvernig sem þeir svo finna út úr, hverjum þeir ætla að senda auglýsingarnar. Þessi pési fór svo í ruslið og ætlaði ég ekkert að hugsa frekar um það, enda ekki í neinum bílahugleiðingum. Svo á föstudaginn þá fæ ég bréf/bækling frá bankanum, aftur er það stílað á mig. Í þeim bækling er hvatning, í formi lánsloforðs, til að kaupa mér bíl. Þar kom fram að ég geti hvenær sem er á næstu mánuðum farið inn á næstu bílasölu, -umboð (sem að bankinn er með samning við) með þennan bækling og hann gildir sem lánsloforð fyrir ónefndri (all hárri) upphæð. En ætli ég sitji ekki á mér.

Ég fór að hugleiða, hvort að þetta sé ekki þennslu hvetjandi? Að senda fólki hvatningu til að stofna sjálfum sér í útgjöld? Bankarnir eru með þessum hætti að hafa áhrif á fólk með því að hvetja til kaupa/skuldsetningar sem hefur áhrif á þennsluna í landinu. Þetta eru taldir eðlilegir viðskiptahættir í dag. Það er þó vert að hugleiða hversvegna svo sé. 

Þetta er að sjálfsögðu mikil breyting frá fyrri tímum þegar fólk þurfti að grátbiðja bankastjórann um lán, ekki ber að gráta þá tíma. Þetta setur stærri ábyrgð í hendur fólks, um að vera á varðbergi og vera tilbúið að taka ábyrgð á eigin fjármálum. Það er ekki lengur "elskulegur" bankastjóri sem hefur "vit" fyrir þér. Þar sem að við erum flest meira eða minna skynsamar manneskjur, þá gengur þetta sjálfsagt. Það er þó vert að staldra við og hugleiða þá stefnu sem að við höfum tekið.  


Smá hugleiðing

Þar sem ég bjó í Danmörku síðustu tvennar kosningar, eru þetta fyrstu kosningar síðan 1995 sem að ég fylgist með af einhverju viti. Það er fróðlegt að fylgjast með þróun mála nú. Sá flokkur sem að ég aðhyllist, er í vörn og það finnst mér synd. Það er synd þar sem stefna þeirra er mér að skapi. En það er ekki öll nótt úti enn.

Mér finnst þó gaman að fylgjast með og það verður spennandi að sjá hvernig framvindan verður. Hér koma smá hugleiðingar.

Fylki flokkanaFramsóknarmenn bíða eftir þessum venjulega "frammara", sem er þegar fjöldi kosningabærs fólks ákveður á síðustu stundu að það verði að kjósa Framsóknarflokkinn, og þeir "vinna" varnarsigur. Sjálfstæðismenn segja að allt sé í hinu fínasta lagi og allt verði ómögulegt ef vinstri flokkarnir ná að sigra, en gætu þó hugsanlega unnið með öðrum þeirra. VG veður áfram, á grænni bylgju, með formanninn í hlutverki landsföðursins. Samfylkingin er í vörn, sem er að einhverju leiti vegna vandræða með ímynd flokksins. Guðjón Arnar reynir að komast í selskap hinna, með því að gera lítið úr útlendingastefnu frjálslyndra. Já, og Íslandshreyfingin er ekki alveg tilbúin með stefnuna, en ætla að stoppa stóriðju. Og svo var það eitthvað með þá eldri, veit ekki hvort að þau mæta til leiks, heyrði um daginn að þau væru hætt við, en heyrði síðar að þau hefðu fengið úthlutað bókstafnum E.

Það styttist óðum í kosningar, og það verður spennandi að fylgjast með þangað til.

 


mbl.is Sveiflur á fylgi D og V innan skekkjumarka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uwe á-"deilan"

Þetta er skrítið mál allt saman. Það er eins og sumir nái ekki ádeilunni. Það versta þykir mér ef einhverjir samlandar mínir hafi gengið of langt í skrifum sínum til hans vegna málsins. Ég ætla nú ekki að fara að agnúast yfir því að einhverjir móðgist vegna orða hans, þó að mér þyki orð hans ekki á neinn hátt móðgandi. Það að nota Ísland í greininni var eingöngu, að mínu mati, vegna þess að það er svo absúrd að ráðast á Ísland, að það hefði ekki átt að geta móðgað nokkurn mann. En svo lengi lærir, sem lifir. Það hafa einhverjir móðgast, og þá er sjálfsagt mál af honum að biðjast afsökunar. Með því sýnir hann karakter sem ber að virða.  

Ég er einn þeirra sem að bloggaði um fréttina í gær, mér fannst þetta bara skemmtileg grein hjá Uwe. En það sem eftir fylgdi var mjög furðulegt að fylgjast með. Það birtist fólk úr öllum skúmaskotum bloggsins sem átti ekki orð yfir grein hans. Sumt af því sem var skrifað bar, að mér fannst, vitni um að fólk hafi alls ekki lesið greinina. Það komu fram fordómar, sem birtust meðal annars í óhamlausum skrifum hjá nokkrum aðilum. Ég vona að þetta beri ekki vitni um umburðarlyndi okkar. Sem betur fer, held ég að það sé mikill minnihluti fólks sem lætur svona.


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háðsádeila

Þetta er nokkuð góð háðsádeila frá þessum ágæta manni. Hann reynir að sýna fram á hverskonar hagsmunir eru m.a. í húfi hjá Bandaríkjamönnum í stríðsrekstrinum við Persaflóa. Kemur því bara nokkuð vel til skila, að það eru fleiri hagsmunir í húfi en bara pólítískir. Hagsmunir einkafyrirtækja þar í landi, eins og Halliburton og Bechtel . Og þar sem að þetta snýst m.a. um hagsmuni þessara fyrirtækja, afhverju ekki að gera þetta enn hagkvæmara og ráðast bara á litla Ísland, það myndi líklega skila meiri hagnaði.

Vonandi sér Bush ekki greinina og fær góða hugmynd.


mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"The Great Global Warming Swindle "

Var að kanna bakgrunn myndarinnar The Great Global Warming Swindle. Það voru nokkur atriði sem að mér finnst vert að taka fram varðandi þessa úttekt.

Í myndinni taka "sérfræðingar" þann pólin í hæðina að stór hluti vísindamanna í heiminum séu með í samsæri. Samsæriskenningin gengur út á að vísindamenn séu háðir sjóðum til að fá styrki (laun) til að halda rannsóknum sínum áfram. Þessir sjóðir gefa frekar vísindamönnum styrk ef að þeir ætla að kanna gróðurhúsaáhrifin, sérstaklega með tilliti til hitabreytinga í andrúmsloftinu. Þessir "sérfræðingar" líta svo á að það séu margir hlutir sem að þessir vísindamenn hafa gleymt að reikna með í líkönum sínum. 

Líkön eru þess eðlis að þau eru einfölduð mynd af því sem er verið að kanna. Þar af leiðandi eru örugglega ýmsir faktorar sem erfitt er að reikna með. Þeir sem eru sérfræðingar þessarar myndar, gera mjög mikið úr því að það séu gallar á þessum líkönum. Það sem er reyndin, er að auðvitað þekkja vísindamenn galla líkana sinna. Það er firra að halda því fram að fleiri þúsund vísindamenn vinni með augun lokuð og falli í þá gryfju að draga ályktanir án rannsókna til að styðja rök þeirra.

En það er hægt að skoða þennan tengil, þar sem að Kevin Grandia greinir myndina. Það er ráð að skoða  tenglana sem að eru í grein hans. M.a. þessi þar sem að bakgrunnur fleiri efasemdarmanna er skoðaður. Hann bendir einnig á í myndinni kemur fram Professor Tim Ball, University of Winnipeg, Department of Climatology, vandamálið er að það er engin deild í Háskólanum í Winnipeg sem ber þetta nafn. Hérna er nokkuð skemmtilegur tengill um það hvernig hægt er að rökræða við efasemdarmenn. Bakgrunnur Martins Durk framleiðanda myndarinnar er einnig á Wikipedia.

Það er sjálfsagt hægt að setja margt út á mynd Al Gore's (An Inconvinient Truth), enda er hún sett upp á einfaldan hátt. En hún byggir þó á mun betri grunni en The Great Global Warming Swindle. 


Svört skýrsla

Loks kom skýrsla vísindamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna út. Hún er sú svartasta sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér vegna loftslagsbreytinganna. Það er vonandi að þjóðir heims muni taka þessa skýrslu alvarlega og reyna að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda. Það vantar nýjan samning til að taka við af Kyoto samningum. Það má ekki verða þannig með slíkan samning að þjóðir heims geti komið sér hjá að samþykkja hann, án skuldbindinga. Ábyrgðin er okkar allra.
mbl.is Samkomulag náðist um loftslagsskýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þriðja tug þúsund bíla óskoðaðir í umferðinni

Ég hef af og til velt því fyrir mér, hvers vegna tiltölulega hátt hlutfall bíla í umferðinni eru óskoðaðir eða eru á grænum miða og hafa ekki sinnt því að fara í endurskoðun. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera ólöglegt að keyra á óskoðuðum bílum, eða í það minnsta hefði það afleiðingar. Þær afleiðingar ímyndaði ég mér m.a. að gætu verið, að bílar fengju sektir eða væru á ótryggðir í umferðinni (það eru reyndar ca. 3 þús. ótryggðir bílar í umferðinni).

Svarið við þessum vangaveltum mínum fékk ég svo í fréttum Rúv. Samkvæmt fréttinni, hafa frá árinu 2004, ekki verið sendar út sjálfkrafa sektir, fyrir að koma ekki með ökutæki í skoðun. Frá þeim tíma hefur það eina sem hægt er að gera vegna óskoðaðra bíla, verið það að lögregla klippi númerin af bílunum. Svo lengi sem kerfið er svona og á meðan það eru svo margir bílar óskoðaðir í umferðinni, þá kemst lögreglan ekki yfir, nema verstu tilfellin. Þar með er hætta á, að það séu illa útbúnir bílar í umferðinni sem eru hættulegir. 

Þessu þarf löggjafinn að taka á, og breyta til hins betra. Það á að vera hægt að senda ámynningu, sektir og jafnvel keyrslubann út sjálfkrafa, á okkar tölvuvæddu tímum. Einnig hljóta tryggingafélög, að vilja hafa ökutæki, sem að þeir tryggja, skoðuð. Þannig er hugsanlega grundvöllur fyrir að þau komi lítillega að málinu.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband