Færsluflokkur: Bloggar

Umræður um loftsslagsbreytingar á DR1

Ég var að horfa á ansi góðan umræðuþátt um loftsslagsbreytingar á DR1. Þarna voru stjórnmálamenn, vísindamenn, blaðamenn og fleiri sem tóku þátt í umræðunum. Allir þeir sem fram komu voru sammála um að hækkun hitastigs vegna gróðurhúsalofttegundanna væri vandamál sem þyrfti að taka á.

M.a. var Bjørn Lomborg til staðar, alltaf gaman að hlusta hann og hans sýn á lausn vandamála. Hann er þeirrar skoðunnar að það sé betra að verja þeim miklu peningum sem nota á til minnkunar losunar á koltvísýringi, til hjálparstarfs og uppbyggingar í þriðja heiminum. Það er að við fókuserum á þau vandamál sem eru sýnileg og hjálpum þar. Þar að auki er hann þeirrar skoðunnar að það eigi að auka fjárveitingar til rannsókna á tækni sem minnka gróðurhúsaáhrifin. Hann telur að þessar rannsóknir muni gera það að verkum að efnahagslegur ávinningur okkar vegna betri tækni sem mengar minna verði verulegur, en það tekur tíma. 

Það voru tveir stjórnmálamenn í eldlínunni á sama tíma og hann, það voru þau Svend Auken og Connie Hedegaard, fyrrverandi og núverandi umhverfisráðherrar Danmerkur. Þau voru m.a. þeirrar skoðunar að þjóðir heimsins þyrftu að komast að samkomulagi um að minnka losun gróðurhúsalofttegundanna. Þar að auki fannst þeim að Danmörk ætti að vera leiðandi land og til fyrirmyndar í heiminum í þessum efnum og að það ætti að auka rannsóknir svo Danmörk gæti áfram verið í fararbroddi. Síðar kom svo panel með þeim ásamt fleiri stjórnmálamönnum sem ræddu fram og aftur um hvort að þetta væri reyndin í Danmörku í dag. Það þarf ekki að koma á óvart að stjórnarandstaða og stjórnarflokkar voru ekki alveg sammála um taktíkina. 

Það kom mér þó á óvart hversu fáar vindmyllur hafa verið settar upp í Danmörku á síðustu árum. Flestar (nánast allar) vindmyllur sem byggðar eru í Danmörku í dag eru fluttar úr landi og settar upp í öðrum löndum. 

Ég tel að til að ná árangri í þessum efnum þurfi að huga að mörgum þáttum. Við verðum að hafa markmið að stefna að, og við verðum að ná breiðri samstöðu um markmiðin meðal ríkja heims. En við þurfum líka að vera tilbúin að hjálpa á þeim svæðum þar sem upp koma vandamál vegna hækkunar hitastigs á jörðinni. Það eru líkur á að þetta séu svæði sem í dag eru illa í stakk búin til að takast á við þessi vandamál og þau muni koma verst út úr þeim. Þ.a.l. ætti hjálp við uppbygging á þessum svæðum að vera á forgangslistanum. Þetta eru t.d. svæði eins og hlutar Afríku og Austur-Asíu.

Fé til rannsókna og efnahagslegur ávinningur fólks af notkun nýrrar tækni ætti að vera hátt á forgangslista stjórnmálamanna. Þetta eru hlutir sem t.d. er hægt  að vinna að hér á landi og það er jafnvel hægt að flytja út nýja eða bætta tækni sem útflutningsvöru.


Háhýsi?

Hvers vegna eigum við að byggja háhýsi á Íslandi? Við þurfum að huga að því sem við höfum á Íslandi. Það er m.a. útsýni, ekki bara fyrir þá sem búa í háhýsum, heldur líka fyrir þá sem munu búa í grend við þau. Það er m.a. sólin, þegar hún lætur sjá sig, þá væri ágætt að geta séð hana, líka þeir sem búa í grendinni. Svo eru það einnig sviptivindar við háhýsi, þeir eiga það til að aukast að orku og verða hvimleiðir í nágrenni háhýsa. Persónulega finnst mér skuggahverfið ekki til prýði, og hef líka á tilfinningunni að sumir af þeim sem keyptu í fyrstu húsunum þar, missi brátt hið eftirsótta útsýni, vegna nýrra framkvæmda.

Ég heyrði einhvern segja að það séu margir sem hafi áhuga á því að búa í miðbænum, og þess vegna sé ástæða til að byggja háhýsi í miðborginni. Já, en það fólk sem tekur þátt í skoðanakönnunum varðandi það hvort að það hafi áhuga á að búa í miðborginni, hvað sér það fyrir sér? Sér það ekki hin gamla miðbæ fyrir sér, með öllu því sem honum tilheyrir? Ef ég væri spurður þessarar spurningar í dag, þá gæti ég freystast til að svara því til, að ég hefði áhuga á því að búa í miðborginni í framtíðinni. En ég hef ekki áhuga á að búa í háhýsi.

Höldum sérstöðu okkar, byggjum ekki háhýsi bara af því að það er hægt. Sleppum því frekar, af sömu ástæðu, vegna þess að það er hægt og það er í okkar höndum að ákveða hvaða stefnu við viljum taka. Látum það ekki viðgangast, að leyfilegt sé að byggja rúmlega 5 fermetra fyrir hvern 1 lóðarfermeter eins og gert verður á Höfðatorginu. 

Því ber þó að fagna, að það eigi að vinna að stefnumótun í þessum málum, hana hefur vantað hingað til. Vonandi verður gert ráð fyrir virkum grendarkynningum í þessari stefnumótun. Það er allra hagur að gerðar séu góðar grendarkynningar áður en framkvæmdir hefjast, svo að sem flestir geti sagt skoðun sína á slíkum framkvæmdum.


mbl.is Háhýsastefna í mótun í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn og stjórnarandstaða

Jæja, Ingibjörg og Geir sitja og ræða stjórnarmyndun. Vonandi fá jafnaðar- og umhverfismálin pláss í stefnu komandi ríkisstjórnar. Eftir 12 ára setu Framsóknar og Sjálfstæðismanna, er tími til kominn  að þau málefni fái meira pláss í umræðunni. Ég er viss um að VG mun reyna að halda þeim við efnið þó þeir muni finna til ákveðinnar minnimáttarkenndar í stjórnarandstöðunni.  

Talandi um stjórnarandstöðuna, þessir þrír flokkar sem væntanlega munu skipa hana, eiga afskaplega fátt sameiginlegt, annað en hugsanlega að vera í stjórnarandstöðu. Útlendingastefna Frjálslyndra mun vafalítið verða hverfandi, þó Jón Magnússon muni minna á hana í ræðu. Framsóknarflokkurinn fær nú 4 ár til að hugsa ráð sitt. Jón Sigurðsson verður sjálfsagt ekki formaður svo lengi. Ég giska á að Björn Ingi verði orðin formaður innan tveggja ára. Þeirra stjórnarandstaða mun eflaust verða beint að einhverju leiti að því að verja þá landbúnaðarstefnu sem verið hefur. VG reynir svo að halda stjórninni við efnið varðandi umhverfismál. En ég á ekki von á harðri stjórnarandstöðu.

Í ríkisstjórn með svo stóran meirihluta er líklegt að einhverjir innan stjórnarflokkanna verði í "stjórnarandstöðu" á köflum. Það getur verið sterkur leikur hjá einstökum persónum að sýna smá "andstöðu", án þess þó að "skemma" fyrir ríkisstjórninni. Þetta verður stjórn með stóran meirihluta, 43 þingmenn á móti 20 í stjórnarandstöðu. Þetta þýðir að það geta 11 þingmenn stjórnarinnar verið í "andstöðu" án þess að þingmeirihlutinn falli, það hlýtur að vera Íslandsmet. Það er s.s. pláss fyrir 11 stk. af Kristni H. Gunnarssyni, ef það er hægt að setja það þannig upp...ekki að það væri óska staðan.

Vonandi tekst þeim að bræða saman sterkan málefnasamning sín á milli. Samning sem tekur tillit til jafnaðar- og umhverfisstefnu, ásamt sterkrar samkeppnisstöðu Íslands með vaxandi stöðugleika. Já af hverju ekki vera dálítið bjartsýnn...það veitir ekki af smá jákvæðni í umræðuna.


mbl.is Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð tíðindi

Wilson MuugaÞað verða að teljast góð tíðindi að Wilson Muuga hefur verið dreginn af strandstað. Ég tók þessar myndir af strandstað í janúar.

 

 

 

 

 

Wilon Muuga 2


mbl.is „Sérlega vel að þessu staðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá hugleiðing

Þar sem ég bjó í Danmörku síðustu tvennar kosningar, eru þetta fyrstu kosningar síðan 1995 sem að ég fylgist með af einhverju viti. Það er fróðlegt að fylgjast með þróun mála nú. Sá flokkur sem að ég aðhyllist, er í vörn og það finnst mér synd. Það er synd þar sem stefna þeirra er mér að skapi. En það er ekki öll nótt úti enn.

Mér finnst þó gaman að fylgjast með og það verður spennandi að sjá hvernig framvindan verður. Hér koma smá hugleiðingar.

Fylki flokkanaFramsóknarmenn bíða eftir þessum venjulega "frammara", sem er þegar fjöldi kosningabærs fólks ákveður á síðustu stundu að það verði að kjósa Framsóknarflokkinn, og þeir "vinna" varnarsigur. Sjálfstæðismenn segja að allt sé í hinu fínasta lagi og allt verði ómögulegt ef vinstri flokkarnir ná að sigra, en gætu þó hugsanlega unnið með öðrum þeirra. VG veður áfram, á grænni bylgju, með formanninn í hlutverki landsföðursins. Samfylkingin er í vörn, sem er að einhverju leiti vegna vandræða með ímynd flokksins. Guðjón Arnar reynir að komast í selskap hinna, með því að gera lítið úr útlendingastefnu frjálslyndra. Já, og Íslandshreyfingin er ekki alveg tilbúin með stefnuna, en ætla að stoppa stóriðju. Og svo var það eitthvað með þá eldri, veit ekki hvort að þau mæta til leiks, heyrði um daginn að þau væru hætt við, en heyrði síðar að þau hefðu fengið úthlutað bókstafnum E.

Það styttist óðum í kosningar, og það verður spennandi að fylgjast með þangað til.

 


mbl.is Sveiflur á fylgi D og V innan skekkjumarka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háðsádeila

Þetta er nokkuð góð háðsádeila frá þessum ágæta manni. Hann reynir að sýna fram á hverskonar hagsmunir eru m.a. í húfi hjá Bandaríkjamönnum í stríðsrekstrinum við Persaflóa. Kemur því bara nokkuð vel til skila, að það eru fleiri hagsmunir í húfi en bara pólítískir. Hagsmunir einkafyrirtækja þar í landi, eins og Halliburton og Bechtel . Og þar sem að þetta snýst m.a. um hagsmuni þessara fyrirtækja, afhverju ekki að gera þetta enn hagkvæmara og ráðast bara á litla Ísland, það myndi líklega skila meiri hagnaði.

Vonandi sér Bush ekki greinina og fær góða hugmynd.


mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"The Great Global Warming Swindle "

Var að kanna bakgrunn myndarinnar The Great Global Warming Swindle. Það voru nokkur atriði sem að mér finnst vert að taka fram varðandi þessa úttekt.

Í myndinni taka "sérfræðingar" þann pólin í hæðina að stór hluti vísindamanna í heiminum séu með í samsæri. Samsæriskenningin gengur út á að vísindamenn séu háðir sjóðum til að fá styrki (laun) til að halda rannsóknum sínum áfram. Þessir sjóðir gefa frekar vísindamönnum styrk ef að þeir ætla að kanna gróðurhúsaáhrifin, sérstaklega með tilliti til hitabreytinga í andrúmsloftinu. Þessir "sérfræðingar" líta svo á að það séu margir hlutir sem að þessir vísindamenn hafa gleymt að reikna með í líkönum sínum. 

Líkön eru þess eðlis að þau eru einfölduð mynd af því sem er verið að kanna. Þar af leiðandi eru örugglega ýmsir faktorar sem erfitt er að reikna með. Þeir sem eru sérfræðingar þessarar myndar, gera mjög mikið úr því að það séu gallar á þessum líkönum. Það sem er reyndin, er að auðvitað þekkja vísindamenn galla líkana sinna. Það er firra að halda því fram að fleiri þúsund vísindamenn vinni með augun lokuð og falli í þá gryfju að draga ályktanir án rannsókna til að styðja rök þeirra.

En það er hægt að skoða þennan tengil, þar sem að Kevin Grandia greinir myndina. Það er ráð að skoða  tenglana sem að eru í grein hans. M.a. þessi þar sem að bakgrunnur fleiri efasemdarmanna er skoðaður. Hann bendir einnig á í myndinni kemur fram Professor Tim Ball, University of Winnipeg, Department of Climatology, vandamálið er að það er engin deild í Háskólanum í Winnipeg sem ber þetta nafn. Hérna er nokkuð skemmtilegur tengill um það hvernig hægt er að rökræða við efasemdarmenn. Bakgrunnur Martins Durk framleiðanda myndarinnar er einnig á Wikipedia.

Það er sjálfsagt hægt að setja margt út á mynd Al Gore's (An Inconvinient Truth), enda er hún sett upp á einfaldan hátt. En hún byggir þó á mun betri grunni en The Great Global Warming Swindle. 


Svört skýrsla

Loks kom skýrsla vísindamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna út. Hún er sú svartasta sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér vegna loftslagsbreytinganna. Það er vonandi að þjóðir heims muni taka þessa skýrslu alvarlega og reyna að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda. Það vantar nýjan samning til að taka við af Kyoto samningum. Það má ekki verða þannig með slíkan samning að þjóðir heims geti komið sér hjá að samþykkja hann, án skuldbindinga. Ábyrgðin er okkar allra.
mbl.is Samkomulag náðist um loftslagsskýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þriðja tug þúsund bíla óskoðaðir í umferðinni

Ég hef af og til velt því fyrir mér, hvers vegna tiltölulega hátt hlutfall bíla í umferðinni eru óskoðaðir eða eru á grænum miða og hafa ekki sinnt því að fara í endurskoðun. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera ólöglegt að keyra á óskoðuðum bílum, eða í það minnsta hefði það afleiðingar. Þær afleiðingar ímyndaði ég mér m.a. að gætu verið, að bílar fengju sektir eða væru á ótryggðir í umferðinni (það eru reyndar ca. 3 þús. ótryggðir bílar í umferðinni).

Svarið við þessum vangaveltum mínum fékk ég svo í fréttum Rúv. Samkvæmt fréttinni, hafa frá árinu 2004, ekki verið sendar út sjálfkrafa sektir, fyrir að koma ekki með ökutæki í skoðun. Frá þeim tíma hefur það eina sem hægt er að gera vegna óskoðaðra bíla, verið það að lögregla klippi númerin af bílunum. Svo lengi sem kerfið er svona og á meðan það eru svo margir bílar óskoðaðir í umferðinni, þá kemst lögreglan ekki yfir, nema verstu tilfellin. Þar með er hætta á, að það séu illa útbúnir bílar í umferðinni sem eru hættulegir. 

Þessu þarf löggjafinn að taka á, og breyta til hins betra. Það á að vera hægt að senda ámynningu, sektir og jafnvel keyrslubann út sjálfkrafa, á okkar tölvuvæddu tímum. Einnig hljóta tryggingafélög, að vilja hafa ökutæki, sem að þeir tryggja, skoðuð. Þannig er hugsanlega grundvöllur fyrir að þau komi lítillega að málinu.  


Hvað er til ráða ?

Það virðist vera sem Mugabe lifi í öðrum heimi en aðrir hér í heimi. Hann virðist komast upp með að brjóta mannréttindi á íbúum lands síns og það er lítið sem ekkert hægt að gera. Þó að það séu settar viðskiptaþvinganir á landið, þá verða engar umbætur í landinu. Það er slæmt, þegar hægt er að halda heilli þjóð í gíslingu, allt vegna hugaróra eins manns. Það virðist vera það, sem er að gerast og hefur verið að gerast í langan tíma. Það er hættulegt þegar fólk situr svo lengi á valdastóli að það hættir að sjá afleiðingar eigin gjörða. Sem betur fer er þetta ekki svo algengt, þó dæmin séu nokkur. 

En hvað er til ráða? Hvað er hægt að gera til að stoppa svona menn af? Siðblinda hans virðist hafa náð slíkum hæðum að það er ekki hægt að rökræða við hann lengur.

Já er nema von að maður spyrji.  

 


mbl.is Tsvangirai handtekinn öðru sinni af öryggislögreglu Mugabe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband